154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

85. mál
[16:27]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir framlagningu þessa máls og ræðu hennar hér. Ég hefði gjarnan viljað vera meðflutningsmaður á þessu máli þó að það hafi farið fram hjá mér í einhverjum póstsendingum. Ég er hjartanlega sammála þessu og ég held að það sé líka svo mikilvægt sem hv. þingmaður kom inn á, vegna þess að þegar hv. þingmaður var að hefja þessa vinnu þá var svolítið verið að tala fyrir því að hætta bara öllum ríkisstuðningi við stjórnmálaflokka. Ég held að það sé mjög óraunhæft. Og alveg eins og hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir fór yfir hérna þá er það þannig í öllum okkar nágrannalöndum, slíkur ríkisstuðningur, og það er í rauninni mikilvægt fyrir lýðræðið að svo sé. En í guðanna bænum, við erum náttúrlega komin út úr öllu raunsæi þegar þetta er orðin nánast eina tekjuöflun stjórnmálaflokka, að fá úr ríkissjóði, og flokkar sem ekki ná mönnum á þing og eru bara með örfá atkvæði á bak við sig geta fjármagnað alls konar áróðursstarfsemi í mörg ár á eftir fyrir það eitt að hafa verið í framboði. Ég held að það hljóti öllum að vera ljóst að við þurfum að taka þetta til endurskoðunar. Ég held að það sé fátt sem ég sé eftir eftir að ég tók sæti á þingi en ég greiddi þó einu sinni atkvæði með einhverjum breytingum á þessum lögum og það var mér þvert um geð, það var eitthvert samkomulag sem var búið að ná hér á milli flokka. Ég vænti þess og vona að við förum að skrúfa þetta aðeins niður eins og þetta frumvarp ber með sér. Þetta er bara ákall til þeirra sem sitja í fjárlaganefnd og eru núna að raða saman alls konar óskum og beiðnum um aukin fjárútlát sem er eitthvað sem við þurfum alls ekki á að halda núna í þessu árferði. Hér er þá alla vega hugmynd að einhverjum sparnaði og stjórnmálaöflin í landinu gætu svo vel tekið það á sig að fá lægri framlög frá ríkinu.

Virðulegur forseti. Mig langar líka að nefna eitt sem kom hérna fram hjá framsögumanni, að stjórnmálaflokkar og -samtök eru hornsteinn lýðræðis og það er líka ábyrgðarhlutverk hjá okkur þingmönnum að tala með þeim hætti. Á síðasta áratug eða svo og kannski í aðeins lengri tíma þá hefur verið einhvern veginn markviss áróður gagnvart stjórnmálaflokkum og það að vera í stjórnmálum eða vera í flokki, ég tala nú ekki um ef hann á sér langa og mikla sögu og hægt að bendla hann við fjórflokkinn eða eitthvað slíkt, sé eitthvað neikvætt og andlýðræðislegt. Það er það nefnilega alls ekki. Það er alger hornsteinn lýðræðis að fólk komi sér saman í flokka eftir ákveðnum lífsskoðunum og sjónarmiðum og komi fram með sína stefnu og leggi hana á borð. Fyrir þá sem kunna að vera að fylgjast með og hafa ekki tekið þátt í starfi stjórnmálaflokks og óttast að það sé eitthvað vont þá bara hvet ég fólk til þess að fara einmitt á fundi hjá stjórnmálaflokkum, jafnvel fleiri en einum eða tveimur, og átta sig á því hvað það er þroskandi og mikilvægt fyrir lýðræðið að fólk komi saman og takist á eða ræði um málefni samfélagsins. Þess vegna, út frá einmitt þeim sjónarmiðum, er mikilvægt líka að vera með ákveðið kerfi sem tryggir stjórnmálaflokkunum ákveðinn rekstrargrundvöll. En eins og staðan er í dag þá er bara allt, allt of langt gengið í því að dæla fé úr ríkiskassanum inn í stjórnmálasamtök. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)