154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

Riða.

[15:51]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir frumkvæði hans að þessari sérstöku umræðu hér og áhuga á þessum mikilvæga málaflokki. Málið er mjög brýnt sem hv. þingmaður tekur hér upp, en um leið held ég að við getum ekki rætt þetta öðruvísi en að halda því til haga að við erum á stórkostlegum tímamótum — stórkostlegum tímamótum: Eftir 150 ára glímu við riðu þá sjáum við fram á það í fyrsta skipti að baráttunni ljúki með lokasigri. En samkvæmt okkar færasta fólki er unnt að fjölga verndandi arfgerðum það hratt á áhættusvæðum að líkur á riðusmitum fari hratt lækkandi á næstu árum og það eru, virðulegur forseti, stórtíðindi fyrir sauðfjárbændur.

Varðandi fyrstu spurningu hv. þingmanns um vinnu starfshóps um aðgerðir gegn riðuveiki, þó að hv. þingmaður hafi ekki lagt á það megináherslu í sinni framsögu, þá ætla ég að halda því til haga hér að þessi sérfræðingahópur var samsettur af okkar sterkasta fólki á þessu sviði: Erlu Sturludóttur, dósent við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, Hákoni Hanssyni dýralækni, Jóni Hjalta Eiríkssyni, lektor við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, Ólafi Jónssyni, héraðsdýralækni, Stefaníu Þorgeirsdóttur, líffræðingi hjá Tilraunastöð HÍ að Keldum, Vilhjálmi Svanssyni, dýralækni hjá Tilraunastöð HÍ að Keldum og Thor Aspelund, prófessor við HÍ í líftölfræði. Þessi sérfræðingahópur hefur skilað af sér skýrslu um þessi málefni, fór yfir tillögur sem komu frá sauðfjárbændum sjálfum og lagði til aðgerðir sem ég hef ákveðið að gera að mínum.

Hv. þingmaður velti því upp hvort hópurinn hafi farið yfir tilteknar leiðir. Já, það var farið yfir þessi atriði og þetta er auðvitað býsna tæknilegt. Þessi skýrsla liggur á síðu ráðuneytisins en ég ætla ekki að fara í tæknilegar umræður um hana. Í stuttu máli má segja að það hafi verið ákveðið að breyta nálgun varðandi niðurskurð á þann veg að yfirdýralækni er heimilt að leggja til við ráðherra að hlífa tilteknum arfgerðum frá niðurskurði. Þetta er grundvallarbreyting. Þessi reglugerð var birt í Stjórnartíðindum í byrjun nóvember.

Varðandi þriðju spurningu hv. þingmanns um afstöðu mína um að ráðast í endurskoðun á IV. kafla reglugerðar um útrýmingu riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar þá ráðleggur sérfræðingahópurinn að markmið um upprætingu smitefnis á riðubæjum verði endurskoðað í ljósi nýrrar nálgunar. Af því leiðir að nauðsynlegt er að ráðast í endurskoðun á gildandi regluverki. Þetta er í undirbúningi í ráðuneytinu og ég tek fagnandi áherslum hv. þingmanns og hvatningu í þá veru að það gangi hratt og vel.

Þá spyr þingmaðurinn hvort gildandi ákvæði laga og reglugerðir tryggi nægilega vel að komið sé að fullu til móts við þau sem verða fyrir því að nauðsynlegt sé að skera niður. Því er til að svara að sú sem hér stendur telur að tjónið sem orðið hefur af riðuveiki á síðustu áratugum sé nánast ómögulegt að bæta að fullu þó svo að efnislegt tjón sem verði af niðurskurði verði bætt, en samkvæmt því sem hefur verið gert síðustu áratugi eru greiddar bætur til að koma til móts við bændur þar sem riðuveiki kemur upp. Það er greitt vegna ýmiss konar efnislegs tjóns ásamt því sem bændur halda greiðslum samkvæmt búvörusamningi á tímabili fjárleysis. En ég held að dæmin sanni að kostnaðurinn er umtalsvert meiri en bara þessi efnislegi. Hann er líka samfélagslegur, hann er tilfinningalegur og hann er þeirrar gerðar að hann hefur áhrif á fólk í langan tíma.

Loks spyr hv. þingmaður út í það hvernig réttindi og hagsmunir séu tryggðir, en Bændasamtök Íslands hafa veitt bændum lögfræðiráðgjöf og verið þeim innan handar við uppgjör og við samningagerð. Náist ekki samningar er unnt að fela matsnefnd eignarnámsbóta að fara með málið, en samkvæmt mínu ráðuneyti þá fóru samningar við bændur í Miðfirði í undirritun á föstudaginn var þannig að því er lokið, eftir því sem mér er sagt.

Að lokum spyr hv. þingmaður út í stöðu arfgerðargreininga. Þar hefur verið ákveðið að niðurgreiða hluta kostnaðar sem er af arfgerðargreiningum á þessu ári, en samkvæmt RML hafa verið tekin á þriðja tug þúsunda sýna og næstu árin er gert ráð fyrir 110 millj. kr. framlagi til að hraða innleiðingu verndandi arfgerða.

Að síðustu vil ég nefna að einnig hefur verið ákveðið að niðurgreiða að öllu leyti notkun á sæðingahrútum núna í vetur sem bera verndandi arfgerð og vona ég að þetta leiði til þess að notkun þeirra verði með mesta móti þannig að við getum flýtt fyrir að lokasigur vinnist gegn riðuveiki á Íslandi.