154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

Riða.

[16:04]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir umræðuna og hæstv. matvælaráðherra fyrir sín svör hér áðan. Það er ljóst að síðastliðna mánuði hafa verið stigin stór skref í rannsóknum á riðu og genum með riðumótstöðu, þ.e. með arfgerðargreiningu. Það er mjög mikilvægt að við reynum allt mögulegt til að tryggja það að einn daginn verði hér riðuþolinn sauðfjárstofn því að alvarleikinn þegar riða kemur á bæ er ljós. Riðu fylgir fjárhagslegt tjón og andlegt áfall þeirra bænda sem eiga stofninn er mikið, sem og nágranna þeirra og tengdra aðila. Baráttan við riðuna hefur verið löng og ströng en við erum farin að sjá ljós við enda ganganna. Því er mjög gott að heyra af þeirri rannsóknarvinnu sem er í gangi, en það þarf að tryggja að þeir bændur sem lenda í þessu áfalli fái þær bætur sem mikilvægt er að þeir fái.

Á meðan þessi vinna er í gangi þurfum við að tryggja það að við gefum ekkert eftir á öðrum sviðum baráttunnar. Ég hef áður talað hér í ræðustól um sauðfjárveikivarnarlínur. Ég mun gera það aftur. Þær línur eru girðingar og náttúrulegar hindranir eins og ár sem koma í veg fyrir að sauðfé fari á milli svæða og koma í veg fyrir frekari dreifingu sjúkdóma eins og riðu og garnaveiki þegar þeir sjúkdómar skjóta upp kollinum. Ef þessar varnarlínur eiga að virka sem skyldi þarf að tryggja viðunandi eftirlit og viðhald því að þetta eru varnir sem verða að vera í eins fullkomnu standi og hægt er. Annars missa þær marks. Ég vil bara ítreka það í þessari umræðu.