154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Vopnaburður lögreglu.

[14:15]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir fyrirspurnina og þann áhuga sem hún sýnir málinu. Í upphafi skulum við skoða stöðuna eins og hún blasir við í dag. Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra hefur alvarlegum ofbeldisbrotum og vopnuðum útköllum lögreglu og sérsveitar ríkislögreglustjóra fjölgað síðustu ár. Sem dæmi má nefna að fjöldi útkalla þar sem sérsveit vopnast vegna skotvopna hefur nærri þrefaldast frá árinu 2016 og nærri fjórfaldast vegna eggvopna. Í heildina voru vopnuð útköll sérsveitar 83 talsins árið 2016 en voru orðin 343 árið 2022 miðað við upplýsingar frá ríkislögreglustjóra 21. nóvember í fyrra.

Framangreind tölfræði ber með sér að veruleg aukning hefur orðið í útköllum þar sem þeir aðilar sem lögreglan þarf að hafa afskipti af bera vopn. Ég hef áhyggjur af þessari þróun. Það er hins vegar ljóst að þessi tölfræði ein og sér er ekki aðaláhyggjuefnið heldur jafnframt aukið umfang skipulagðrar brotastarfsemi hér á landi sem embætti ríkislögreglustjóra hefur ítrekað bent á. Áhætta vegna hennar telst mjög mikil. Þá hefur embætti ríkislögreglustjóra bent á að hér á landi sé aukin ógn vegna skipulagðrar brotastarfsemi og að aukin umsvif fjölþjóðlegra brotahópa séu merkjanleg hér á landi. Það væri óábyrgt af okkur sem þjóð að bregðast ekki við þessari stöðu með skýrum aðgerðum til að tryggja öryggi almennings, halda uppi allsherjarreglu og lögum í landinu. Það hef ég einsett mér að gera með því að fylgja eftir þeim aðgerðum, m.a. með því sem forverar mínir í starfi komu á fót, og með áherslu á afbrotavarnir.

Hvað varðar valdbeitingu lögreglu vil ég koma því skýrt á framfæri að ekkert hefur breyst í skilyrðum fyrir vopnaburði lögreglu. Engin stefnubreyting hefur verið gerð og ekki stendur til að gera breytingar á valdbeitingarheimildum lögreglu. Mikilvægt er að hafa í huga að handhöfum lögregluvalds er samkvæmt lögum heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna. Aldrei mega þeir þó ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni. Þegar til greina kemur að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa þarf lögregla í hvert og eitt skipti að taka ákvörðun um hvaða úrræða hún grípur til út frá heildarmati á aðstæðum hverju sinni.

Lögreglu ber að gæta meðalhófs við framkvæmd skyldustarfa. Það sem liggur fyrir og var gert að vandlega athuguðu máli í samræmi við löggæsluþarfir og í takt við þróun í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við er að lögreglu hefur verið veitt heimild til að beita rafvarnarvopnum (Gripið fram í: Rafbyssu.) að þröngum skilyrðum uppfylltum. Þau eru að skipaður sé innleiðingarhópur sem setur verklagsreglur og þjálfunarviðmið um notkun og beitingu rafvarnarvopna og í því er notkun vopnanna háð því að lögreglumaður hafi lokið lögreglunámi og fengið tilskilda þjálfun í notkun vopnanna. Í annan stað fái lögreglumenn árlega viðhaldsþjálfun í notkun vopna og að þeir lögreglumenn sem fá úthlutað rafvarnarvopni beri búkmyndavél og noti hana samhliða notkun vopns síns.

Ég hef lagt á það áherslu að rafvarnarvopnin séu innleidd af varúð og sæti sérstöku eftirliti. Af þeirri ástæðu verður skipaður starfshópur sem mun yfirfara hvert einstakt tilfelli þar sem rafvarnarvopni er beitt og er honum ætlað að skila mér skýrslu um niðurstöður sínar að 18 mánuðum liðnum frá því að notkun vopnanna hefst. Þá verður tekin ákvörðun um framhaldið.

Ég tel að með innleiðingu rafvarnarvopna sé verið að stíga mikilvægt skref til að bregðast við þeirri þróun sem ég sagði frá áðan sem lýsir sér í auknum vopnaburði almennings.

Hv. þingmaður spyr jafnframt um þau vopn sem ríkislögreglustjóri keypti í aðdraganda leiðtogafundar öryggisráðs. Þau kaup byggðust á þarfagreiningu embættis ríkislögreglustjóra sem byggðist á góðri samvinnu og samtali við norræn löggæsluyfirvöld. Þar var eingöngu keyptur sá búnaður sem talinn var nauðsynlegur til að tryggja öryggi almennings og gesta. Ég hef ekki séð ástæðu til að endurskoða þau kaup ríkislögreglustjóra. Ég vil þó árétta að aukinn fjöldi vopna í eigu lögreglunnar hefur ekki sjálfkrafa í för með sér aukna notkun vopna hjá lögreglu. Þrátt fyrir að framangreindar aðgerðir hafi skapað mikla umræðu í samfélaginu er ljóst að þær voru hvoru tveggja til þess fallnar að styrkja löggæsluyfirvöld og efla lögreglu almennt. Beiting þeirra mun þó, eins og gildir um aðrar valdbeitingarheimildir lögreglunnar, vera háð takmörkunum til að tryggja öryggi almennings og löggæsluyfirvalda sem hafa það hlutverk að halda uppi allsherjarreglu og lögum í landinu.