154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Vopnaburður lögreglu.

[14:55]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa sérstöku umræðu í dag og vekja athygli á málefninu. Ég vil nota tækifærið og leggja áherslu á að þessi málefni eru undir stöðugu endurmati og þurfa að endurspegla þá þróun sem á sér stað í okkar samfélagi. Tilkoma rafvarnarvopna á sér langan aðdraganda. Lögreglan hefur allt frá árinu 2007 haft til skoðunar hvort rétt væri að taka slík vopn upp hér á landi og á undanförnum árum hefur reglulega komið til umræðu hvort tilefni sé til að fjölga valdbeitingartækjum fyrir lögreglu við framkvæmd skyldustarfa.

Að því sögðu vil ég ítreka það sem kom fram í fyrri ræðu minni, að það hefur ekkert breyst í skilyrðum fyrir vopnaburði lögreglu. Engin stefnubreyting hefur verið gerð og ekki stendur til að gera breytingar á valdbeitingarheimildum lögreglunnar. Það er því ómögulegt að stíga skref til baka, líkt og hv. þingmaður nefndi hér í sinni ræðu og endurmeta stöðuna líkt og hv. þingmaður orðaði það. Ég lagði mat á stöðu mála þegar ég tók við embætti og tók ígrundaða ákvörðun um að halda áfram á sömu braut. Tilgangurinn með rýnihópnum og skýrslugjöf að 18 mánuðum liðnum er að endurmeta stöðuna.

Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson nefndi hér að innleiðing rafvarnarvopna hafi fjölgað valdbeitingartilfellum lögreglu í öðrum löndum. Ég finn mig knúna til að leiðrétta það því að samkvæmt norsku lögreglunni hefur tilfellum valdbeitingar ekki fjölgað hjá henni þrátt fyrir innleiðingu rafvarnarvopna. Ég, ásamt lögreglunni, mun fylgjast grannt með innleiðingunni. Það er mikilvægt að hafa í huga að handhöfum lögregluvalds er nú þegar heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna en það má ekki ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni. Ég finn til mikillar ábyrgðar í þessum málaflokki (Forseti hringir.) og þess vegna hef ég sem dómsmálaráðherra einsett mér að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin hér á landi með þeim aðgerðum sem best tryggja öryggi almennings.