154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Markmið Íslands vegna COP 28, munnleg skýrsla umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra.

[15:25]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar. Það er ekki rétt að miðað við þær fyrirætlanir sem eru núna og það sem er búið að ákveða að gera séum við ekki að ná 29% markmiðinu. Hv. þingmaður veit það vegna þess að það hefur verið kynnt af þeim sem fara með loftslagsbókhaldið að það ætti að nást. Vandi okkar er einfaldlega þessi eins og við sjáum núna í dag: Okkur vantar græna orku. Okkur vantar græna orku vegna þess að við höfum gert mjög lítið í því að búa til græna raforku í 15 ár og jafnvel enn lengra liðið þegar kemur að hitaveitunni. Við sjáum fréttir um það á hverjum einasta degi. Ég vona að hv. þingmaður fari að styðja ríkisstjórnina þegar hún er að vinna í því að reyna að verða okkur úti um græna orku. Ef ég man rétt þá gerði hv. þingmaður það ekki þegar við vorum hér að samþykkja rammann. Ef við hefðum ekki gert það þá ættum við enga von. Sem betur fer gerðum við það en okkur liggur samt sem áður verulega á. Hv. þingmaður ætti líka að vita það að við erum að uppfæra aðgerðaáætlun sem er grunnurinn að þeirri áætlun sem við höfum þegar kemur að því að ná þessum markmiðum. Það verður kynnt. Hún er öðruvísi en sú aðgerðaáætlun sem við höfum gert áður, hún er mun nákvæmari. Það er búið að vinna þetta með miklu fleiri aðilum, með atvinnulífinu eins og aðrar þjóðir hafa gert og við höfum gert þetta að erlendri fyrirmynd, þær eru langt á undan okkur þegar að þessu kemur. En í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur verið unnið mjög ötullega að því og ég vonast til þess og treysti því að við getum tekið umræðu um aðgerðaáætlunina hér á hv. þingi á komandi ári því að aðgerðaáætlunin er það tæki sem við höfum til að ná okkar markmiðum. Aðalatriði málsins er þó þetta: Þeir þingmenn sem vilja ná loftslagsmarkmiðunum verða líka að styðja þær aðgerðir sem eru nauðsynlegar til að ná loftslagsmarkmiðunum. Við eins og allar aðrar þjóðir erum í því að taka út jarðefnaeldsneyti (Forseti hringir.) og setja græna orku í staðinn. Það er leiðin ásamt ýmsu öðru.