154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Markmið Íslands vegna COP28, munnleg skýrsla umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra.

[15:40]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Markmiðin fyrir COP28 er umræðuefnið hér. Markmið íslenskra stjórnvalda er að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Þetta er sett fram sem stefnumið í samræmi við Parísarsamkomulagið frá 2015 um að takmarka hækkun meðalhita andrúmslofts jarðar við 1,5°C miðað við meðalhitastig fyrir iðnvæðingu að leiðarljósi. Hugtakið kolefnishlutleysi er notað til að lýsa ástandi þar sem jafnvægi hefur náðst milli losunar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum annars vegar og bindingar kolefnis þannig að nettólosun verði engin eða núll. Til að ná þessu markmiði þarf að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum eins hratt og kostur er. Með hverju? Með minni jarðefnaeldsneytisnotkun í orkuframleiðslu og samgöngum á sama tíma og að auka kolefnisbindingu.

Er Ísland að standa sig hvað þetta varðar? Við erum núna í dag að hjálpa Evrópusambandinu að framleiða jarðefnaeldsneyti. Við erum að láta Evrópusambandið líta betur út en ella með því að selja því upprunavottorð. Það vita allir tíu ára krakkar sem kynna sér þetta að það hefur ekki áhrif á bókhaldið í loftslagsmálum en það breytir því ekki að fyrirtæki í Evrópu sem framleiða raforku úr kjarnorku og kolum fara ekki að framleiða sömu orku með grænni framleiðslu vegna þess að þau þurfa þess ekki. Þau þurfa þess ekki vegna þess að Ísland er að hjálpa þeim að menga. Svo einfalt er það. Við erum ekki að stuðla að því með þessari sölu að það verði minna af gróðurhúsalofttegundum í heiminum. Við erum ekki að gera það. Við erum ekki að gera það óbeint svo það komi fram, svo allir skilji það. Það virðist ekki vera nægur skilningur á því. Við erum að hjálpa Evrópu að menga, svo einfalt er það. Við skulum hafa alltaf í huga þegar við tölum um grænu orkuna á Íslandi að 87%, ef ekki 90%, af orkunotkun á Íslandi kemur úr kolum og kjarnorku. Það er útgangspunkturinn svo það liggi fyrir.

Annað sem er líka mikilvægt að skoða hérna, og það kemur fram í svari ráðherra fyrir viku síðan um loftslagsmarkmiðin, að skilgreiningin á því hvað falli undir markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi liggur ekki fyrir og því er ekki hægt að segja hver losun í tonnum koldíoxíðsígilda er. Við vitum ekki hvernig við ætlum að ná þessum markmiðum einu sinni, við erum ekki með skilgreininguna á því hvernig við ætlum að ná þessu hlutleysi. Það er gott að hafa það í huga. Þegar þú ætlar að ná einhverju markmiði þá er mjög gott að vita hvernig þú ætlar að fara að því. Við erum ekki einu sinni með skilgreiningar á grundvallarhugtökum á hreinu í þessu. Þau ríki sem hafa sett sér markmið um kolefnishlutleysi eru flest á sama stað og Ísland, þ.e. skilgreiningar og aðferðafræði til að meta árangur er enn í mótun. Við skulum hafa þetta alveg á hreinu. Við erum á algjöru bernskustigi hvað þetta varðar. Við erum ekki með skilgreiningar á hreinu og öll aðferðafræði er enn í mótun. Það er þannig sem þetta er.

Annað sem er líka vert að hafa í huga er ekki síst varðandi bætta landnotkun, endurheimt vistkerfa og skógrækt, sem margir vilja nota, það sé lausn allra mála að við plöntum ákveðnum plöntum og eftir 40 ár þá fer þetta að vinna gegn gróðurhúsalofttegundum. Það liggur fyrir að það skortir áreiðanlegar upplýsingar varðandi tiltekin atriði sem varða landnotkun og endurheimt vistkerfa og því skiptir miklu máli að bæta rannsóknir og upplýsingar. Það vantar rannsóknir og upplýsingar um það hvernig bætt landnotkun, aukin endurheimt vistkerfa og skógrækt hefur áhrif á loftslag í heiminum og gróðurhúsalofttegundir. Við erum ekki komin mjög langt í þessu. Við skulum ekki vera að tala um að við séum að gera rosalega stóra og góða hluti í þessu. Við erum ekki með skilgreiningar á hreinu, við erum ekki með aðferðafræðina á hreinu og við erum ekki heldur með gagnaskráninguna á hreinu.

Það er gott að það kom fram í svari hæstv. ráðherra fyrir viku að losun frá alþjóðaflugi og alþjóðasiglingum telst ekki með (Forseti hringir.) gagnvart markmiði um kolefnishlutleysi. Það er mjög gott. Það mun ekki skaða atvinnugreinar sem við erum hérna með, sem er flugið, skipasamgöngur og fiskveiðar. (Forseti hringir.) En við eigum að fara í orkuskiptin af fullum krafti, í bifreiðum og alls staðar sem við getum og (Forseti hringir.) við eigum að nota okkar grænu orku í orkuskiptin án þess að selja upprunann.