154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

Markmið Íslands vegna COP 28, munnleg skýrsla umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra.

[16:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Eins og þér þekkið þá er ég mikill áhugamaður um loftslagsmálin og hvernig sé best að takast á við þau, enda varði ég nánast allri ræðu minni á fyrsta landsþingi Miðflokksins árið 2017 í að ræða loftslagsmál. Því miður hefur lítið þokast síðan þá, þrátt fyrir þessa ræðu, og það á við bæði á Íslandi og í öðrum löndum. Nú stendur fyrir dyrum 28. lokatilraunin til að bjarga heiminum vegna loftslagsmála og að þessu sinni í Dúbaí, sem er auðvitað dálítið kostulegt. En hvað um það, nú er þetta víst síðasta lokatilraunin, segja menn, til að koma í veg fyrir óafturkræfar hamfarir af völdum loftslagsbreytinga. Þá kynni nú vera ráð að endurhugsa aðeins þá nálgun sem hefur verið notuð í þessum málaflokki. Ég leit við í 21. lokatilrauninni í París á sínum tíma og hæstv. loftslagsráðherra hefur ekki gleymt því, eða réttara sagt Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, hafði ekki gleymt því, og skjólstæðingur hans og nemi, hæstv. ráðherra, tók það upp og einhvern veginn afsakaði vandræðagang ríkisstjórnarinnar í málaflokknum með því að árið 2015 hefði verið fallist á Parísarsamkomulagið. Hver eru skilaboðin í því? Hugsanlega þau að Ísland hefði eitt 193 landa Sameinuðu þjóðanna átt að andmæla því samkomulagi sem kom svo á daginn, eins og ég viðurkenndi, að hefði ekki verið raunhæft, hefði ekki gengið eftir, enda flest önnur lönd, alla vega utan Evrópu, búin að gera sér grein fyrir því og virðast gera tiltölulega lítið með það samkomulag, nema Ísland og okkar ágæti hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sem vill toppa skuldbindingar eða hugsanleg fyrirheit Íslendinga þar. En er ekki tímabært, frú forseti, að fara að meta þetta upp á nýtt?

Hæstv. ráðherra nefndi í ræðu sinni að jarðefnaeldsneyti væri niðurgreitt og ég velti fyrir mér hvað hann á við með því. Er þetta málflutningur öfgasamtaka eins og Just stop Oil og Extinction Rebellion sem halda því fram að framleiðsla jarðefnaeldsneytis sé niðurgreidd á Vesturlöndum vegna þess að þau fyrirtæki eins og önnur fái skattafslátt ef þau fjárfesta í stað þess að greiða sér út arð? Það væri áhugavert, ef hæstv. ráðherra gefst tími til, að fá skýringu á því hvað er átt við með niðurgreiðslu á framleiðslu jarðefnaeldsneytis. Við vitum að það er niðurgreiðsla á oft og tíðum of óhagkvæmum orkukostum í endurnýjanlegri orku en ég væri bara forvitinn um það, frú forseti, að vita hvað hæstv. ráðherra á við með niðurgreiðslu jarðefnaeldsneytis.

Við vitum líka að orkuþörf heimsins hefur áratugum saman að jafnaði vaxið um 2 prósentustig á ári og fyrir vikið er einfaldlega óraunhæft, óframkvæmanlegt, að láta alveg af notkun jarðefnaeldsneytis á næstu árum eða áratugum. En við getum svo sannarlega reynt að gera miklu meira til að nýta okkur tæknina, tækniframfarir, til að ná árangri á þessu málasviði. Og það er algjörlega ljóst, frú forseti, að ef við Íslendingar viljum leggja enn meira af mörkum, því við leggjum gríðarlega mikið af mörkum, þá þarf aukna orkuframleiðslu til að ráðast í orkuskipti. Ég vil því hrósa hæstv. ráðherra fyrir það að annaðhvort hann eða einhver á hans vegum eða ríkisstjórnarinnar uppgötvaði að það myndi þurfa að framleiða meiri orku til að ráðast í orkuskiptin. Þetta var mikil tímamótauppgötvun hjá ríkisstjórninni og ég dreg ekki úr því að ég fagna því að hún skuli hafa náðst.

Loks spyr ég hæstv. ráðherra, aftur; ef honum gefst tækifæri til að svara, hvort skýrslan sem skilað var fyrir 26. lokatilraunina, skýrsla Íslands, gildi enn og hvort við megum þá vænta þess að það verði í framtíðinni dregið úr landbúnaði á Íslandi, iðnaði, flugi, flutningum og neyslu almennings. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur bent á það að hann hafi ekki skrifað þessa skýrslu, en er þessi skýrsla enn í gildi eða er hæstv. ráðherra búinn að fella hana úr gildi? Ég kem ekki að fleiri spurningum, hæstv. forseti, (Forseti hringir.) en gott væri að fá svör við einhverju af þessu.