154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

stefna Íslands á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna .

[15:13]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ætli það mætti ekki kalla plaggið, sem hv. þm. Bergþór Ólason vísaði í, vegvísi til kolefnishlutleysis? Hv. þingmaður spyr um stefnu stjórnvalda. Hún er auðvitað mjög skýr því að Alþingi Íslendinga, ekki bara ríkisstjórnin heldur Alþingi Íslendinga, hefur lögfest markmið um kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040. Það er auðvitað sú stefna sem við vinnum samkvæmt, ásamt því sem við höfum skuldbundið okkur til að gera, m.a. með þátttöku í samningaviðræðum á loftslagsráðstefnum Sameinuðu þjóðanna. Af því að hv. þingmaður spyr um stóru málin fyrir þessa 28. ráðstefnu þá liggur það algerlega fyrir að stefna Íslands er sú að það er mikilvægt að halda sig við markmiðið um að hlýnun fari ekki umfram 1,5°C, markmið sem við Íslendingar gengumst undir í París undir forystu formanns Miðflokksins sem þá var hæstv. forsætisráðherra, enn fremur að Íslendingar standi með þeirri afstöðu að við stefnum að útfösun á notkun jarðefnaeldsneytis, sem er gríðarlega mikilvægt markmið og ég vona svo sannarlega að það skapist samstaða um það á þessari loftslagsráðstefnu, að niðurgreiðslum jarðefnaeldsneytis verði hætt. Allt rímar þetta við stefnu sem íslensk stjórnvöld hafa kynnt. Við leggjum sérstaka áherslu á málefni freðhvolfsins og hafsins, einfaldlega vegna okkar landfræðilegu legu, og við leggjum ríka áherslu á að undirstaða allra loftslagsaðgerða byggi á mannréttindum og jafnrétti. Það eru stóru línurnar í afstöðu Íslands fyrir þessa 28. loftslagsráðstefnu. Að sjálfsögðu er í fullu gildi það sem Alþingi hefur áður samþykkt, eins og að lögfesta markmið um kolefnishlutleysi, það stendur óhaggað. Við munum að sjálfsögðu fara yfir hvað við höfum gert í þeim efnum, t.d. með því að lögfesta lögin um hringrásarhagkerfið, en einnig um þau verkefni sem við höfum verið að vinna að hér, til að mynda um kolefnisbindingu sem á eftir að skipta æ meira máli í þessu verkefni.