154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

stefna Íslands á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

[15:17]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður veltir fyrir sér upplýsingamiðlun um stefnu stjórnvalda en ég held að hún liggi nú líka mjög skýr fyrir. Ég nefndi hér áðan þær skuldbindingar sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist í samvinnu við Evrópusambandið og Noreg hvað varðar samdrátt í losun, þau sjálfstæðu markmið sem íslensk stjórnvöld hafa kynnt um samdrátt í losun á ábyrgð Íslands og það sjálfstæða markmið sem við höfum samþykkt hér á Alþingi um kolefnishlutleysi og raunar er Ísland eitt af fáum ríkjum í heiminum sem hefur gert það. Allt á þetta að liggja mjög skýrt fyrir. Ég vil segja það hins vegar að ég vona svo sannarlega að niðurstaða þessa fundar verði góð fyrir heiminn því að þetta er gríðarlega mikilvægt mál.

Hvað varðar það hvort umrætt plagg, sem hv. þingmaður vitnar hér til, sé finnanlegt á íslensku þekki ég það einfaldlega ekki. Þetta er væntanlega plagg gefið út af umhverfisráðuneytinu. Almennt eru plögg Stjórnarráðsins gefin út á íslensku en að sjálfsögðu er mikið af efni einnig gefið út á ensku sem nýtt er í alþjóðlegu samstarfi.