154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[16:05]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018, breytingu á lögum um mannvirki, nr. 160/2010 og breytingu á lögum um brunavarnir, nr. 75/2000.

Frumvarpið má rekja til þeirrar vinnu sem hófst í kjölfar þess voveiflega atburðar er Bræðraborgarstígur 1 brann þann 25. júní 2020. Þáverandi félags- og barnamálaráðherra setti á fót samráðsvettvang í formi starfshóps sem gaf út skýrslu í mars árið 2021. Í skýrslunni voru 13 tillögur lagðar fram til úrbóta í brunavörnum landsins.   Sá sem hér stendur ákvað þann 22. apríl 2022 að skipa starfshóp til að fylgja eftir fjórum tillögum fyrri starfshóps félags- og barnamálaráðherra. Í fyrsta lagi tillögu nr. 6, að endurskoðaðar verði heimildir til fjöldaskráningar lögheimilis eða aðseturs í íbúðarhúsnæði; í öðru lagi tillögu nr. 9, sérstakt átaksverkefni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, byggingafulltrúa og slökkviliðs vegna eldri timburhúsa; í þriðja lagi tillögu nr. 11, að metið verði hvort og í hvaða mæli heimilað skuli með lögum tímabundna aðsetursskráningu og búsetu í atvinnuhúsnæði sem uppfyllir kröfur um öryggi og í fjórða lagi tillögu nr. 12, að endurskoðaðar verði heimildir slökkviliðs og byggingafulltrúa til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á lögum og til aðgangs að íbúðarhúsnæði til eftirlits.  

Fyrir lá við samningu frumvarpsins að ekki var þörf á að breyta lögum vegna tillögu nr. 9, um sérstakt átaksverkefni vegna eldri timburhúsa, og því er sú tillaga ekki meðal efnis þessa frumvarps en komin í framkvæmd. Frumvarp þetta miðar að því að koma til móts við tillögur nr. 6, 11, og 12 sem reifaðar hafa verið og nánar eru útfærðar í skýrslu starfshóps sem undirritaður skipaði þann 22. apríl 2022 eins og áður sagði. Skýrslunni var skilað í júní 2023 og er hún aðgengileg á vef ráðuneytisins.  

Markmið þessa frumvarps er fyrst og fremst að efla öryggi einstaklinga sem hafa fasta búsetu í atvinnuhúsnæði með því að fá upplýsingar um það hverjir hafi fasta búsetu í slíku húsnæði. Samkvæmt heimildum ráðuneytisins þá eru rúmlega 3.000 manns með fasta búsetu í atvinnuhúsnæði hér á landi sem er að mínu mati óásættanlegt. Þá er markmið frumvarpsins að efla öryggi viðbragðsaðila og brunavarnir í landinu. Brunavarnir í húsnæði sem þessu mættu vera betri en auka þarf úrræði stjórnvalda til að fá eigendur þessara húsa til að efla brunavarnir sínar og eins til að fá eigendur fasteigna almennt til að bæta brunavarnir.

  Virðulegi forseti. Rétt er að gera grein fyrir meginbreytingum á einstökum lagabálkum og mun ég byrja á því að gera grein fyrir breytingum á lögum um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018. Lagt er til að einstaklingum sem skráðir eru án tilgreinds heimilisfangs í sveitarfélagi verði heimilt að skrá aðsetur sitt í atvinnuhúsnæði.   Almennt er óheimilt að hafa fasta búsetu í húsnæði sem uppfyllir ekki skilyrði 3. og 4. mgr. 2. gr. lögheimilislaga, þ.e. húsnæði sem er skilgreint sérstaklega sem íbúðarhúsnæði, og því er hér um allverulega undantekningarreglu að ræða.

Það skal sérstaklega tekið fram að það er markmið ríkisins að fólk skuli ekki búa í atvinnuhúsnæði og því er sett sólarlagsákvæði í lögin og gert ráð fyrir að heimild þessi falli úr gildi árið 2030.   Hver skráning mun þó aðeins gilda í eitt ár og þarf viðkomandi að endurnýja skráningu sína og mun Þjóðskrá Íslands aðstoða fólk við það með því að minna fólk á það með smáskilaboðum, í gegnum island.is o.fl.

Það skal einnig tekið sérstaklega fram að þetta úrræði gildir aðeins um atvinnuhúsnæði en ekki frístundabyggð. Er á því byggt að þegar slökkvilið fer í brunaútkall í frístundabyggð er alltaf gert ráð fyrir því að það geti verið gestir í frístundabyggð, þ.e. að það sé fólk í húsunum, enda eru þau byggð fyrir slíkt, öfugt við atvinnuhúsnæði.   Því var það mat mitt að það væri ekki sama þörf á þessu úrræði í frístundabyggð, a.m.k. að svo stöddu. Þá skal á það bent að stærsti fjöldi þeirra sem er skráður án tilgreinds heimilisfangs í sveitarfélagi býr í atvinnuhúsnæði og því brýnt að ná til þessa hóps. Þess skal getið að annar starfshópur er að störfum sem ætlað er að koma með tillögur um þann hóp sem hefur fasta búsetu í frístundabyggð en tillagna er að vænta.  

Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir því að þinglýstur eigandi fasteignar geti ákveðið hversu margir einstaklingar geti verið með lögheimili á eign í sinni eigu. Þetta getur komið í veg fyrir að óviðkomandi einstaklingar skrái sig á eign án leyfis. Gert er þó ráð fyrir í frumvarpinu að eigendur fasteigna geti ekki misbeitt rétti sínum og skráð fólk út af eign á grundvelli þessarar heimildar, aðeins Þjóðskrá Íslands getur það. Þá eru heimildir Þjóðskrár Íslands til að skrá einstaklinga af eign efldar til muna ef of margir eru skráðir á eign. Þinglýstur eigandi þarf hins vegar ávallt að gera grein fyrir öllum íbúum áður en Þjóðskrá Íslands skráir einstaklinga af eign.  

Nú verður gerð grein fyrir þeirri breytingu sem lögð er til á lögum um mannvirki, nr.160/2010. Lögð er til sú breyting á lögum um mannvirki að bætt er við lögin heimild fyrir byggingafulltrúa til að leggja á stjórnvaldssektir. Þannig er gert ráð fyrir að embætti byggingafulltrúa geti lagt stjórnvaldssektir á einstaklinga eða lögaðila sem hefur leyfisskyldar framkvæmdir án leyfis. Ákvæðið er hefðbundið stjórnvaldssektarákvæði, til þess fallið að efla eftirlitsúrræði byggingarfulltrúa. Gert er ráð fyrir því líkt og segir í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð frumvarpsins að tilgangurinn sé ekki að ráðist verði í sérstakt átak við beitingu þessarar sektarheimildar þannig að sektað verði fyrir hvert mál sem kemur inn á borð byggingafulltrúa heldur ætti að taka mið af alvarleika brots. Þannig er gert ráð fyrir að reglunni sé beitt hóflega.  

Nú verður gerð grein fyrir þeim breytingum sem lagðar eru til á lögum um brunavarnir, nr. 75/2000. Stærstu breytingarnar eru þrenns konar. Í fyrsta lagi eru ákvæði 20. gr. laganna, um heimild til að afla dómsúrskurðar til inngöngu inn í íbúðarhús til brunaeftirlits, lagfærð. Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu lét reyna á þetta ákvæði fyrir héraðsdómi Reykjavíkur í ár en kröfu slökkviliðsins var vísað frá dómi þar sem lagaákvæðið þótti ekki vera nægilega gott til að vera grundvöllur fyrir dómsúrskurð. Gerð er hér tilraun til að lagfæra ákvæðið.

  Í öðru lagi eru lagðar til breytingar sem gera slökkviliðinu kleift að knýja á um úrbætur ef ekki næst í eiganda eftir ítrekaðar tilraunir til samráðs. Þannig getur slökkviliðsstjóri skipað öryggisvakt, knúið á um úrbætur og eftir atvikum lokað mannvirki ef ekki hefur náðst í eiganda eftir ítrekaðar tilraunir.

Í þriðja lagi er lagt til að slökkviliðsstjóri geti lagt á stjórnvaldssektir. Í dag getur slökkviliðsstjóri lagt á dagsektir. Það úrræði hefur ekki reynst vel og reynst í raun slökkviliðunum kostnaðarsamt úrræði og ekki borið tilætlaðan árangur. Ákvæðið er gert á sömu forsendum og með sömu formerkjum og ákvæðið sem greint var frá fyrr í ræðu minni um sektarákvæði fyrir embætti byggingarfulltrúa.   Aðrar breytingar á lögum um brunavarnir eru minni háttar og til þess fallnar að efla brunaeftirlit og samræma lög um brunavarnir við lög um mannvirki.

Virðulegi forseti. Það eru miklir hagsmunir undir í þessu frumvarpi. Á höfuðborgarsvæðinu einu búa allt að 2.000 manns í atvinnuhúsnæði samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands í september síðastliðnum og eins og ég sagði fyrr í ræðu minni sennilega 3.000 á landinu öllu. Líkurnar á stórslysi aukast með hverjum degi sem líður og þau hafa því miður líka verið ótal mörg á síðustu mánuðum. Því er brýnt að slökkviliðið fái auknar heimildir til eftirlits og að stjórnvöld opni á heimildir fyrir þá borgara sem margir hverjir eiga þess ekki annan kost en að búa í húsnæði sem þessu til að geta skráð sig hjá stjórnvöldum hvar þeir búa.   Það eykur öryggi íbúanna komi upp eldur í atvinnuhúsnæðinu sem fólkið býr í og eykur öryggi starfsfólks slökkviliðsins sem hefur meiri vitneskju um fjölda íbúa í húsnæðinu.

Virðulegi forseti. Eftir að yfirvöld ákváðu að rýma þyrfti Grindavík í kjölfar þeirra náttúruhamfara sem dunið hafa yfir á Reykjanesi kom í ljós að ekki er heimild í lögum um lögheimili og aðsetur til að skrá aðsetur innan lands fyrir þá sem þurfa að flýja heimili sín vegna óviðráðanlegra aðstæðna svo sem náttúruhamfara, hryðjuverka og fleiri atriði að kröfu yfirvalda.   Brýn nauðsyn er að halda utan um Grindvíkinga í skrám Þjóðskrá Íslands. Ég mun því fara þess leit, og geri það hér með, við hv. umhverfis- og samgöngunefnd, samfara vinnu við þetta frumvarp, að lagfæra lög um lögheimili og aðsetur í þá veru að koma því á laggirnar að geta búið til tímabundna skráningu fyrir Grindvíkinga á laggirnar, og er ráðuneyti mitt tilbúið til að aðstoða nefndina eins og kostur er,

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins í stórum dráttum og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umræðu.