154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[17:08]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég náði ekki að svara öllu því sem hv. þingmaður kom inn á en það er líka af því að hv. þingmaður talaði alltaf um 14 gerðir, þetta eru þrjár nýjar. Hinar hafa verið teknar upp áður í loftslagslögum. Varðandi það hvað gerist þegar þessi undanþága rennur út þá verður gildissvið ETS-kerfis í flugi, öllu flugi, einnig í flugi út fyrir EES og inn á svæðið. Á meðan ekki er samið um annað er fyrirkomulagið með þeim hætti. En þá væntanlega ættum við að geta verið búin að sjá einhverjar breytingar á því fyrirkomulagi sem við erum með núna. Þar er ég að vísa til þess að við erum að fara í mjög miklar breytingar þegar kemur að flugi og ýmsu öðru, vegna þess að það sem menn eru að fara í er að taka út jarðefnaeldsneyti og setja grænt eldsneyti í staðinn. Þetta hef ég hef sagt svona 500 sinnum í þessum ræðustól því mér finnst fólk ekki alltaf alveg átta sig á því. (Forseti hringir.) Út á það gengur málið. Bara varðandi kostnaðinn, hvort það er lítill eða enginn kostnaður fyrir ríkissjóð, (Forseti hringir.) þá verður náð í þann kostnað með þjónustugjöldum.

(Forseti (OH): Ég vil biðja hæstv. ráðherra að virða ræðutíma.)