154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[17:22]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil í byrjun ræðu minnar nefna stuttlega gagnrýni mína sem ég setti fram fyrr í dag varðandi tímasetningu framlagningar þessa máls, að við séum að ræða þetta í dag þegar 11 dagar eru eftir af starfsáætlun Alþingis fram að jólahléi. Það hlýtur að setja umsagnaraðilum og okkur sem hér störfum miklu þrengri skorður en ég tel nauðsynlegt vera í tengslum við svona umfangsmikið og afdrifaríkt mál, enda dregur hæstv. ráðherra umhverfismála í engu úr því hversu mikilvægt málið er, eðlilega, en gerir um leið kröfu um það að málið klárist núna fyrir áramót. Það að þetta hafi unnist með þeim hætti sem hæstv. ráðherra lýsti í andsvari áðan, að þetta hafi í raun ekki verið tilbúið til meðhöndlunar fyrr en undir lok september, ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt … (Gripið fram í: Niðurstaðan komin.) Niðurstaða komin, eins og ráðherra orðaði það réttilega. Það sýnir kannski að mörgu leyti hvað kerfið lítur á það sem sjálfsagðan hlut að mál klárist í þjóðþingunum á grundvelli þess sem embættismennirnir komast að niðurstöðu um hverju sinni. Við þekkjum auðvitað þessi mál og umræðu síðustu missera hvað varðar flugið, siglingarnar og fleira. Það er nú hérna atriði sem ég veitti alla vega ekki athygli að ráðherra nefndi sérstaklega en það tengist þessum tilskipunum sem snúa að staðbundnum iðnaði. En á bls. 25 í bókinni okkar er talað sérstaklega um til að mynda byggingar sem hafa ekki verið mikið ræddar sem hluti af þessum — ja, svona íþyngjandi hluta þessa regluverks. Og kannski bara á meðan ég man það í því samhengi; ef hæstv. ráðherra kemur hér upp í ræðu í lok þessarar umræðu þá væri áhugavert að heyra afstöðu ráðherrans til þess, og ég vona bara að svarið verði hreint nei, hvort í einhverju samhengi sé eitthvað í þessu máli sem gæti kallast það sem hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir kallar gullhúðun. Er eitthvað hér umfram það sem hagkvæmasta leið regluverksins eins og það liggur fyrir frá kontóristunum leiðir út. Ég væri þakklátur fyrir það ef hæstv. ráðherra kæmi inn á það í ræðu sinni, haldi hann hér aðra við lok þessarar umræðu eða eftir atvikum í andsvörum.

Flugstarfsemin var mikið rædd hér nýlega. Hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar lýstu því sem svo að þetta væri afdrifaríkasta mál, eins og það lá fyrir þá, sem rekið hefur á fjörur íslenskra stjórnvalda síðan EES-samningurinn var tekinn upp. Ég held að það sé alveg rétt. Það sem ég hef haft áhyggjur af er að þessi tímabundna aðlögun sem veitt er í gegnum árin 2025 og 2026 renni sitt skeið á enda og þá finni íslenskir flugrekendur sig í þeirri stöðu að þó að þeir falli undir sama regluverk og aðrir flugrekstraraðilar í Evrópu muni sú landfræðilega staða sem Ísland býr við valda umtalsverðu óhagræði fyrir flug til og frá landinu. Og þá gætum við fundið okkur í þeirri stöðu að bæði verð hækki og framboð minnki mögulega. Ég minni bara á það sem hæstv. ráðherra sagði í framsöguræðu sinni þegar hann lýsti viðtali í fjölmiðli við forstjóra Eimskipafélagsins sem sagði að viðbrögð fyrirtækisins hefðu verið þau að endurskipuleggja siglingarleiðir sínar sem kallaði fram samdrátt á sigldum mílum eða kílómetrum, ég man ekki hvora mælieininguna hæstv. ráðherra notaði, að siglingar færu niður um 5% og losun um 7%, ef ég man tölurnar rétt. En hvernig var þessu m.a. náð? Með því að fækka viðkomuhöfnum. Það var ein af aðgerðunum sem þurfti að grípa til til að ná þessu fram. Og ef við sjáum fram á eitthvað sambærilegt í fluginu, að þar þurfi að sópa fólki til víðar að þannig að menn taki bara lest til Kaupmannahafnar eða einhverrar annarrar borgar frá borg sem í dag er þjónustuð með beinu flugi — það eru svona hlutir sem menn hafa eðlilega áhyggjur af að þessar íþyngjandi reglur kalli fram.

Hæstv. ráðherra kom inn á það í framsöguræðu sinni hér áðan, að það væri markmiðið með þessu að ýta undir það að græn orka knýi flugvélar áfram sem allra fyrst. Væri nú ekki ágætt að bíða eftir því? Auðvitað er hugsunin eflaust sú að það myndist sérstakur hvati til að ýta þeirri þróun áfram, en er skynsamlegt að á endanum beri fyrirtæki og heimili í Evrópu þann mikla herkostnað sem af þessu hlýst á meðan mestu mengunarvaldar heimsins, ef við horfum á losun þjóða, sitja til hliðar og allt að því hlæja að okkur í Evrópu? Ég held að það sé ekki farsælt og það getur ekki verið markmið í sjálfu sér, sérstaklega ekki fyrir þjóð sem á svona mikið undir góðum samgöngum, bæði á sjó og landi, að gera samgöngur dýrari og torveldari. Það getur bara ekki verið markmið stjórnvalda. Mér hefur því verið alveg fyrirmunað að skilja að íslensk stjórnvöld hafi ekki sótt þær undanþágur sem eru beinlínis skrifaðar inn í regluverkið sem snýr að siglingunum, að þær hafi ekki verið sóttar að fullu. Og meira að segja hafa hæstv. ráðherrar talað á þeim nótum — svo að því sé haldið til haga þá man ég ekki eftir að hafa heyrt hæstv. umhverfisráðherra tala með þeim hætti, en það hefur verið talað á þeim nótum að það sé bara óþarfi fyrir íslenskt efnahagslíf að sækja slíkar undanþágur. Það þykja mér ekki boðleg skilaboð þeirra sem hafa það að meginhlutverki að vernda hagsmuni lands og þjóðar. Hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson kom inn á það áðan í andsvari að tvær þessara gerða hefðu ekki enn verið teknar upp í EES-samninginn. Það væri fyrirséð að það gerðist núna 8. desember, eftir rúma viku.

Aftur að verklaginu við þetta, þ.e. hvað það blasir við að það þykir fullkomið formsatriði að þjóðþing stimpli ákvarðanir sem þessa, að þarna sé verið að taka þessa ákvörðun í sameiginlegu EES-nefndinni 8. desember og það er álitið gefið mál að þetta renni hér í gegn umræðulítið miðað við tímarammann sem skammtaður er. Ég minni á að það á eftir að ræða fjárlög í 2. og 3. umræðu áður en þing fer í jólahlé. Það kann ekki góðri lukku að stýra og auðvitað vekur það upp efasemdir um að þeir sem fyrir málinu tala hafi mikinn áhuga á að taka djúpa umræðu um það. Hæstv. ráðherra situr hér og ég er ánægður með það og hann tekur vonandi þátt í umræðunni áfram. En það breytir því ekki varðandi tímasetningar, að þær kalli á það að mál eins og þetta sé afgreitt hér í þessum mikla flýti. Það er ekki boðlegt.

Hæstv. ráðherra kom inn á mikilvægi jafnræðis fyrirtækja og reksturs innan EES-svæðisins. Það má til sanns vegar færa og það er mikilvægt. En það verður líka að hafa í huga heildaráhrifin því að rekstur innan EES-svæðisins, innan Evrópusambandsins, innan þessa sameiginlega markaðssvæðis okkar, er auðvitað í samkeppni við þær þjóðir sem lítinn eða engan þátt taka í þessu. Nú er auðvitað á færibandinu einhvers staðar, og við fáum það væntanlega í andlitið hér á nýju ári, það sem ég kalla CBAM, með leyfi forseta: Carbon Border Adjustment Mechanism, held ég að það heiti á ensku, sem er einhvers lags landamæraaðlögun kolefnisgjalda, svo að ég reyni nú að þýða það. Þegar það regluverk hefur klárað sig af færibandinu þá hefur náðst fram það takmark stjórnvalda að heimili sem víðast, ekki bara í Evrópu, beri hærri endanlegan kostnað af þeim vörum og þjónustu sem þau þurfa að kaupa. Er það það sem við þurfum í árferði verðbólgu og þrengri kjara? Ég er ekki viss um það. Þessi áhrif verða auðvitað áhrifamest hjá þeim sem minnst hafa, sem hafa úr minnstu að spila, hvort sem það eru heimili í hverju landi fyrir sig eða þær þjóðir sem veikar standa. Þannig að ég er hræddur um að hér höldum við áfram á þeirri vegferð að reglulega komi upp sú staða að regluverkið hvert fyrir sig, þetta er auðvitað svo margþætt að þetta er fjölhöfða þurs orðinn, gangi raunverulega gegn þeim markmiðum sem því er ætlað að þjóna eða ná fram. Það er auðvitað þannig að þessi bók sem hér liggur fyrir upp á 56 bls. með kili, sem okkur er ætlað að afgreiða núna á nokkrum dögum, innifelur þannig regluverk að ég hvet bara hæstv. umhverfisráðherra til að leita leiða til að létta tímapressunni af afgreiðslu þessa máls. Það eru ekki bara þessar 56 bls., þarna eru þrjár nýjar gerðir hvar af tvær hafa ekki einu sinni verið kláraðar í gegnum sameiginlegu EES-nefndina enn sem komið er og síðan uppfærsla, gef ég mér, á öðrum 11 gerðum, samanlagt 14 sem eru tilgreindar hér í frumvarpinu sjálfu.

Mér finnst flýtirinn sem þetta mál er undirorpið aðeins lykta af því þegar við fórum fram úr okkur hér á síðasta kjörtímabili og bönnuðum plastpoka löngu áður en regluverkið sem við höfðum asnast til að taka upp kallaði eftir því. Við eigum ekki að fara fram úr okkur í þessum efnum. Næg eru íþyngjandi áhrifin fyrir. Þess vegna ítreka ég það og óska eftir því að hæstv. ráðherra komi inn á það, komi hann hér í ræðu síðar í umræðunni, hvort eitthvað í þessu máli eins og það horfir við honum gæti fallið undir það að kallast gullhúðun regluverks, því að það er svo margþætt sem hér er undir. Það er eitthvað, ég hef ekki náð að glöggva mig á því, en þegar fulltrúar ráðherra mættu fyrir umhverfis- og samgöngunefnd þann 23. október, ég sat einmitt þann fund, þá var talað á þeim nótum að það væri eingöngu um tvær gerðir að ræða sem væru nýjar; 958/2003 og 959/2003, þannig að það væri ágætt að það kæmi fram hver sú þriðja er. Það stendur eflaust í frumvarpinu en ég hef ekki fundið í fljótu bragði hver sú gerð er sem hæstv. ráðherra nefndi hér sem þriðju gerðina af því að fulltrúar ráðherra töluðu eingöngu um tvær gerðir á þessum fundi með umhverfis- og samgöngunefnd 23. október 2023.

Ég held að stóra myndin hvað flugið og siglingarnar varðar ætti auðvitað að vera sú að við leyfum lausnunum að þróast. Við skulum ekki leggja þennan íþyngjandi kostnað á, sem endar auðvitað hvergi annars staðar en hjá hinum endanlega neytanda, einstaklingnum, heimilum landsins sem kaupa vörur og þjónustu af þeim fyrirtækjum sem þessi kostnaður leggst á. Ég held að við ættum að forðast það að leggja slík viðbótargjöld á því að ég hef miklar efasemdir um að það flýti í raun framþróun þeirra grænu lausna sem umhverfisráðherra telur hér að þessi frumvörp ýti á eftir.

Svona í endann verð ég auðvitað að minnast á belgíska tannlækninn sem keyrir um á stóra jeppanum sem engin þörf er fyrir á hans snjólausa svæði. Honum líður illa með losunina og getur keypt aflátsbréf. Þótt það tengist ekki þessu regluverki beint þá er það engu að síður sama undirliggjandi breytan sem snýr að því að menn kaupi sig frá því að leggja raunverulega sitt af mörkum til grænnar orkuframleiðslu því að belgíski tannlæknirinn sem kaupir aflátsbréf af Landsvirkjun hefur enga þörf fyrir það að þrýsta á um það við belgíska orkuframleiðendur að orkan sem hann fær þar verði grænni á morgun en hún er í dag. Því ítreka ég að við skulum reyna að flýta okkur hægt í þessu. Ég hvet umhverfisráðherra til að finna leið til að létta á tímapressunni sem hér er tilkynnt og að við göngum varlega um dyr aukins kostnaðar fyrir heimili og fyrirtæki í landinu hvað þetta varðar allt saman.