154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[17:59]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég tel rétt að byrja á að gera athugasemd við virðulegan forseta við með hvaða hætti þetta mál er komið hér skyndilega inn í þingið. Í þessari framgöngu ríkisstjórnarinnar felst í raun ótrúleg vanvirðing við Alþingi. Hér er kominn inn pakki af 14 innleiðingum, þar á meðal mál sem jafnvel ráðherrar í ríkisstjórninni höfðu á sínum tíma sagt að kæmi ekki til greina að samþykkja óbreytt. Slíkir hagsmunir væru í húfi, til að mynda varðandi þessi nýju gjöld á flugið, að Íslendingar gætu ekki leyft sér að fallast á það. Hvaða gjöld eru þetta? Jú, þau eru til þess ætluð að neyða Evrópumenn til að ferðast á milli staða með járnbrautarlest fremur en með flugvélum. Markmiðið liggur alveg fyrir hjá Evrópusambandinu. Það er ekkert verið að reyna að fela það þótt ríkisstjórn Íslands reyni að fela það fyrir almenningi hér. Markmiðið er að draga mjög verulega úr flugferðum, að því marki að hér á landi, miðað við áformin, myndi flug eftir ekkert svo mörg ár verða 25% af því sem það hefði orðið ella, 25%, fjórðungur, takist markmiðið með því að skattpína fólk í auknum mæli. Allt miðar þetta að því, eins og fleira sem höfum séð frá ríkisstjórninni, að færa okkur áratugi aftur í tímann, til þeirra tíma þegar einungis þeir efnamestu gátu leyft sér að fara til útlanda, þegar bara efnaðra fólk gat leyft sér að eiga bíl, fjölskyldubíl, og gengur út á að refsa fólki, refsa fólki fyrir velmegun, árangur og jafnvel bara að lifa sínu daglega lífi.

Svo eru það nýju gjöldin, nýju skattarnir, refsiskattarnir vegna samgangna, vegna flutninga á sjó. Það mál var ekki áhugaverðara en svo að mati hæstv. ráðherra að ráðherrar komu fram opinberlega og sögðust ekki einu sinni ætla að reyna að sækja um undanþágur. Við þyrftum að gera okkar o.s.frv. Gera okkar hvernig? Jú, með því að refsa almenningi á Íslandi og láta hann borga hærri gjöld fyrir það að flytja vörur; fyrirtækin auðvitað, en allt endar þetta að lokum hjá almenningi. Svo kemur þessi ríkisstjórn með málið inn hér fáeinum dögum áður en þingstörf eiga að klárast, með afbrigðum, og vill keyra það í gegn án eðlilegrar þinglegrar meðferðar. Og hvers vegna skyldi það vera, frú forseti? Er það ekki vegna þess að ríkisstjórnin gerir sér grein fyrir því að þetta geti orðið erfið mál og hún sé að gera eitthvað af sér? Hún virtist gera það á sínum tíma þegar flugmálið sérstaklega var rætt hérna áður. Erfiðasta mál sem hefur komið frá ESB eða vegna EES-samningsins, sagði hæstv. núverandi fjármálaráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra, erfiðasta málið, kæmi ekki til greina að samþykkja það óbreytt.

Svo var settur á svið leikþáttur hér fyrir fáeinum mánuðum síðan sem hæstv. núverandi fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra virtust hafa alveg einstaklega gaman af, þegar boðað var til mikillar Evrópuhátíðar hér í bæ, og kostnaðurinn mun nema 3 eða 4 milljörðum kr., til þess að sýna að Ísland væri merkilegt en kannski ekki hvað síst að íslenskir stjórnmálamenn ættu heima í hópi erlendra valdamanna. Þá þótti ekki við hæfi að vera með leiðindi eða vesen gagnvart Evrópusambandinu því að ekki var Ursula von der Leyen fyrr komin út úr flugvél á Reykjavíkurflugvelli, væntanlega einkaþotu eins og þeir sem tala mest um loftslagsmálin nýta gjarnan, en að tilkynnt var um það að náðst hefði samkomulag vegna flugmálsins. Hvernig var þetta samkomulag? Það gekk út á það að Ísland fengi frest, gamla trikkið. Ísland fær frest í 2–3 ár, reyndar eru það sömu 2–3 árin og eru aðlögunartíminn hvort eð er. En látum það liggja á milli hluta. Ísland fær þarna þennan aðlögunartíma. Og hvað gerist svo? Svo bara tekur við regluverkið sem hæstv. núverandi fjármálaráðherra var búinn að segja að Ísland gæti aldrei sætt sig við, vegna þess að sérfræðingarnir og aðrir hefðu sýnt fram á að þetta myndi rústa stöðu okkar sem millilendingarflugvallar, miðstöðvar flugs í Norður-Atlantshafi, myndi leggjast miklu þyngra á okkur heldur en nokkur önnur lönd, samkeppnislöndin, vegna þessarar sérstöðu Íslands.

Hæstv. ráðherra heldur því fram að þetta allt saman gangi bara út á að við séum ekki í betri stöðu en aðrir, sem þýðir hvað? Við megum ekki nýta gæði landsins og megum ekki nýta staðsetningu landsins og þá samkeppnishæfni sem fylgir því, sérstaklega hvað flugið varðar, í rauninni þvert á móti. Við þurfum að setja okkur í verri stöðu en aðrir með því að fallast á þetta regluverk sem bitnar, eins og meira að segja ríkisstjórnin sjálf hafði útskýrt, alveg sérstaklega illa á Íslandi. Hæstv. ráðherra finnst mér vera orðinn ekki síðri afsakandi eða talsmaður valdsækni Evrópusambandsins og talar raunar ekki af meiri krafti fyrir því en hv. þingmenn til að mynda Viðreisnar og Samfylkingarinnar.

Svo er kastað fram einhverjum óljósum skýringum á því hvers vegna menn ætli að láta sig hafa þetta. Ja, hugsanlega eftir 2026 þá verði einhverjar tækniframfarir búnar að leysa þetta. Trúir því einhver að árið 2026 verði menn almennt farnir að fljúga breiðþotum til og frá landinu á rafmagni? Það trúir því enginn. Það vita allir að það er algjörlega óraunhæft og það vita allir, meira að segja vissi ríkisstjórnin það sjálf, að þessar breytingar myndu bitna sérstaklega illa á Íslandi. En áfram skal haldið af hálfu þessarar ríkisstjórnar við innleiðinguna og jafnvel með brögðum eins og við sjáum beitt hér og nú, að reyna að keyra inn 14 innleiðingar á mettíma akkúrat þegar þingstörfum fer að ljúka fyrir áramót og eftir á að afgreiða fjárlög. Einhver væntanlega einhvers staðar hefur metið það sem svo að þetta væri algjörlega kjörið. Þingmenn hefðu þá ekki tíma til að ræða þetta og ríkisstjórnin gæti gert það sem hún vildi og hraðað innleiðingu Evrópureglna sem henta á engan hátt íslenskum aðstæðum. Það er svo margt í stefnu Evrópusambandsins á sviði loftslagsmála sem hentar alls ekki íslenskum aðstæðum og engir tilburðir hafa verið gerðir til þess af hálfu sambandsins að líta til íslenskra aðstæðna. En það er hlutverk íslenskra stjórnvalda að líta til íslenskra aðstæðna og taka þær ákvarðanir sem eru til þess fallnar að hámarka ávinning landsmanna, gæta hagsmuna þeirra út frá aðstæðum okkar. Þetta er ástæðan fyrir því að við erum ekki í Evrópusambandinu. Við viljum geta tekið ákvarðanir sem henta miðað við okkar aðstæður, ekki aðstæður Þýskalands eða einhvers annars ríkis eða einhverjar nýmóðins hugmyndir sem kunna að koma upp í Brussel og þær hafa verið margar skrýtnar hin síðari misseri.

En ríkisstjórnin eltir þetta allt saman, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna, sem gáfu sig einu sinni út fyrir að vera einhvers konar fullveldisflokkar. En það er liðin tíð. Nú ganga þeir fram fyrir hönd Evrópusambandsins af meiri hörku en ég hefði átt von á af hálfu Viðreisnar eða Samfylkingarinnar og fórna með því hagsmunum Íslendinga til mjög langs tíma. Við vitum ekki hversu lengi hagsmunum verður fórnað. Við vitum að það verður til mjög langs tíma og að þetta mun vinda upp á sig, því að hér er verið að opna flóðgáttirnar. Hér er verið að opna á það að Evrópusambandið fái að þróa þetta áfram og okkur beri þá að fylgja því, Evrópusambandið geti endurmetið hversu mikla refsiskatta eigi að leggja á almenning og Íslandi beri þá að fylgja því; með öðrum orðum verið að gefa eftir fullveldi landsins og það verða væntanlega ekki mörg ár í að við fáum að heyra það hér á Alþingi að við verðum einfaldlega að gera þetta eða hitt vegna þess að við höfum verið búin að skuldbinda okkur til þess. Hæstv. forseti kannast eflaust við slíkar skýringar sem oft eru nefndar og eiga alltaf að hringja viðvörunarbjöllum. En þetta er auðveldasta afsökun nútímastjórnmálamannsins eða -embættismannsins, að vísa í að hann langi kannski ekkert að gera það sem hann er að gera en við séum skuldbundin, þetta hafi verið samþykkt á sínum tíma, og í þessu tilviki þá væntanlega samþykkt á meðan þingheimur var upptekinn við fjárlög eða annað og fékk ekki einu sinni að velta hlutunum fyrir sér, ræða þá, kanna þá og fjalla um þá í nefnd.

Eins og hæstv. forseti heyrir er ég bara svo undrandi að sjá hversu langt þessi ríkisstjórn þessara flokka er tilbúin til að ganga til að lúta valdi Evrópusambandsins og sýna í rauninni algjöra niðurlægingu gagnvart því sambandi og valdsækni þess, taka ákvarðanir sem ganga beinlínis gegn hagsmunum okkar Íslendinga og útskýra þær ýmist með því að við verðum að gera þetta því við erum byrjuð eða nota einhverja kunna frasa úr umræðunni um loftslagsmál á borð við það að við verðum að leggja okkar af mörkum þrátt fyrir að Ísland hafi lagt meira af mörkum til loftslagsmála en líklega nokkur önnur þjóð, sérstaklega með því að framleiða ál á umhverfisvænan hátt. En á tímum þegar umbúðirnar skipta öllu máli í stjórnmálaumræðu þá er litið fram hjá því og litið fram hjá heildarsamhenginu.

Því legg ég áherslu á það, frú forseti, í þessari 1. umræðu þar sem tími er takmarkaður, að þingið taki nú af skarið og fjalli um þetta mál eins lengi og það telur þörf á, geri á því þær breytingar sem það telur þörf á og helst bara hafni þessu, hendi þessu aftur í fangið á ríkisstjórninni sem reynir að lauma þessu inn hér við lok árs, máli sem, eins og ég nefndi áðan, ráðherrar í ríkisstjórninni höfðu varað sérstaklega við og sagt að kæmi ekki til greina að við Íslendingar létum yfir okkur ganga. En í því eins og svo mörgum öðrum málum þessarar ríkisstjórnar er mikil gjá milli þess sem er sagt og þess sem er raunverulega gert. Við sjáum það aldeilis birtast núna þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstrihreyfingarinnar — græns framboðs gengur fram af meiri hörku til að auka áhrif og völd Evrópusambandsins yfir Íslandi en jafnvel Viðreisn og Samfylkingin hefðu látið sér detta í hug og það núna rétt fyrir fullveldisdaginn, 1. desember. Ég hvet því Alþingi til að sýna að það skipti einhverju máli, að bregðast við, ekki leyfa ríkisstjórninni sem boðberum Evrópusambandsins að taka lýðræðislegt vald af kjörnum fulltrúum á Alþingi Íslendinga.