154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

raforkulög.

541. mál
[18:23]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir hönd atvinnuveganefndar fyrir frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum. Þetta er mál 635 á þingskjali 541. Það er ljóst að mikil umframeftirspurn hefur verið eftir raforku hér á Íslandi á undanförnum árum. Orkuframboð hefur ekki náð að halda í við aukna eftirspurn. Raforkuvinnsla á Íslandi byggist á endurnýjanlegum orkugjöfum og er raforkukerfið hér á landi einangrað. Orkuvinnsla er því takmörkuð af stöðu orkuauðlinda hverju sinni og ekki mögulegt nema að takmörkuðu leyti að notast við jarðefnaeldsneyti eða flytja inn raforku líkt og mögulegt er í nágrannalöndum. Í ljósi mikillar eftirspurnar er því brýnt að tryggja raforkuöryggi heimila og minni fyrirtækja ef til skerðingar kemur.

Ef ekkert er gert er ljóst að stjórnvöld skortir úrræði til að forgangsraða orku sem er í boði til heimila og minni fyrirtækja. Með öðrum orðum, orkuöryggi heimila og smærri fyrirtækja og stofnana, samfélagslegra mikilvægra stofnana, yrði ógnað og hætta væri á að ekki væri hægt að tryggja raforku til íslenskra heimila. Er því talin mikil þörf á því að tryggja raforkuöryggi til þessara aðila. Raforkukerfið á Íslandi er uppselt, mikil umframeftirspurn og ekki er hægt að verða við öllum beiðnum um raforkukaup. Eins og ég sagði áðan þá skortir þetta úrræði sem tryggir að raforka sem seld er á heildsölumarkaði rati til heimila og fyrirtækja annarra en stórnotenda. Með frumvarpinu er sem sagt með öðrum orðum verið að bregðast við ógn við orkuöryggi sem því miður er þegar komin upp.

Í þessu sambandi er vert að benda á að það er mikilvægt að þeir aðilar sem selja raforku til stórnotenda séu búnir að tryggja sér raforku áður en stofnað er til slíkra skuldbindinga, eins og virðast hafa verið dæmi um, og að slíkar skuldbindingar verði ekki á kostnað afhendingar til heimila og smærri fyrirtækja. Við erum sem sagt með öðrum orðum að leggja til í þessu frumvarpi að komið sé í veg fyrir að kerfið sé ofselt án þess að ný orka komi inn, hún betur nýtt, og það verði aldrei á kostnað heimila. Hér er um bráðabirgðaákvæði að ræða, tímabundinn öryggisventil sem Orkustofnun getur gripið í fyrir heimilin þar til búið er að auka orkuöflun og finna langtímalausnir í fyrirkomulagi raforkuöryggis.

Í þessu sambandi er líka vert að undirstrika það að þetta frumvarp er flutt að beiðni umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en atvinnuveganefnd sameinaðist um að leggja málið fram. Ég vil þakka nefndarmönnum fyrir að bregðast við með þessum hætti. Öllum nefndarmönnum var ljóst að í óefni gæti stefnt og að nauðsyn lagasetningarinnar væri ljós. En jafnvel þótt lögð sé áhersla á að frumvarpið nái fram að ganga fyrir lok þessa árs er nauðsynlegt að frumvarpið fái efnislega meðferð í nefndinni og að kallað verði eftir umsögnum frá hagaðilum. Ég hygg að hv. nefnd þurfi hins vegar dálítið að bretta upp ermarnar þegar þar að kemur. Það er því ekki útilokað að frumvarpið taki efnislegum breytingum í meðförum nefndarinnar og mér er óhætt, held ég, frú forseti, að fullyrða að nefndarmenn eru þess fullvissir eða ganga að því með opnum huga að frumvarpið geti tekið breytingum eftir ábendingum og umsögnum sem berast.

Það er einnig vert að vekja athygli á því að atvinnuveganefnd hefur til meðferðar frumvarp frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um breytingar á raforkulögum sem tengist í rauninni þessu máli. Þetta er mál 348 á þingskjali 355. Með því frumvarpi eru lagðar til breytingar á raforkulögum sem miða að því að styrkja raforkuöryggi almennings og forgangsröðun í samræmi við orkustefnu sem gefin var út af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í september 2020. Breytingarnar snúa að því að tryggja almenningi og smærri fyrirtækjum forgang komi til skömmtunar vegna óviðráðanlegra atvika, til að mynda vegna framboðsskorts, en það er ekki bráðabirgðaákvæði í þeim skilningi sem við erum að fjalla um í þessu frumvarpi hér. Í því frumvarpi er líka mælt fyrir um söfnun og miðlun upplýsinga varðandi raforkuöryggi á heildsölumarkaði sem og viðmið fyrir raforkuöryggi. Það hafa töluverðar athugasemdir borist og verið gerðar við þetta fyrirliggjandi frumvarp og á þessu stigi er óljóst hvort, hvenær og þá með hvaða hætti atvinnuveganefnd afgreiðir málið. Mér er, hygg ég þó, óhætt að fullyrða að það verður ekki undan því komist að tryggja að það verði lagaleg heimild til staðar á næstu mánuðum sem tryggir að söfnun og miðlun upplýsinga er varðar raforkuöryggi á heildsölumarkaði geti átt sér stað.

Frú forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málið gangi aftur til hv. atvinnuveganefndar til efnislegrar meðferðar.