154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

raforkulög.

541. mál
[19:27]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að stinga mér aðeins inn í þessa umræðu. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með henni. Við heyrðum áðan hv. þm. Jón Gunnarsson halda mjög svo áhugaverða ræðu og ég vil þakka fyrir hana og sömuleiðis það sem hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson kom með hér áðan. Það sem ég myndi kannski vilja nefna í þessu samhengi er að ég er sammála því sem kemur mjög skýrt fram í báðum ræðunum, þ.e. að þetta er spurning um þjóðaröryggi, þetta er þjóðaröryggismál, þetta er almannavarnamál. Þetta er gríðarlegt hagsmunamál fyrir þjóðina og þetta er líka spurning um lífskjör eins og hér var sett fram áðan. Það er algerlega með ólíkindum að á meðan við erum að tala um orkuskipti þá þurfi að ræsa hér verksmiðjur með olíu sem þurrkar út allan ávinninginn af þeirri rafvæðingu sem þó hefur orðið í bílaflotanum. En það er staðan sem uppi er akkúrat núna og rétt er það sem hér hefur komið fram, að við þessu er búið að vara lengi. Íslendingar eru núna með þessa stöðu uppi og hún mun bara versna verði ekkert að gert.

En mig langaði aðeins að spyrja hv. þingmann um ábyrgð Sjálfstæðisflokksins í þessu vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn velur sér auðvitað samstarfsaðila til að vinna með og það var auðvitað alveg fyrirsjáanlegt þegar þetta ríkisstjórnarsamstarf hófst fyrir sex árum síðan eða þar um bil að það yrði ekki mikið gert í raforkumálum með VG innanborðs, sem hefur jú komið á daginn. Hv. þm. Jón Gunnarsson fór alveg prýðilega yfir það og hann gerði nú nánast allt í þeirri ræðu til þess að strjúka VG öfugt. Hann átti bara eftir að lýsa því yfir að hann styddi ekki ríkisstjórnina lengur.

Mig langar að spyrja hv. þm. Njál Trausta Friðbertsson: Ber Sjálfstæðisflokkurinn ekki svolitla ábyrgð á því þegar hann tekur þá afstöðu í þjóðaröryggismáli, þegar þjóðaröryggismál eru undir, að fara til samstarfs með flokki sem er algerlega hinum megin í skoðun? Verðum við ekki aðeins að líta til þess að menn (Forseti hringir.) velja sér auðvitað vini og samstarfsfélaga?