154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

raforkulög.

541. mál
[19:58]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir svarið. Já, við kannski erum ekki alveg sammála um þetta en ég skil punktinn hins vegar alveg mætavel. Ég held að það sé meira en að segja það að ætla sér að endurnýja ekki samning við stórnotanda ef viðkomandi vill á annað borð halda áfram með starfsemina. Ég held að staðbundnir atvinnuhagsmunir hafi þar mikið að segja um veruleikann sem blasir við ef sú staða er. Ég er þeirrar skoðunar að við ættum að setja svolítinn kraft í að auka orkuöflun. Mig langar að taka það svolítið skýrt fram að við gerum það ekki bara með því að virkja með einhverjum hætti út um allar koppagrundir án þess að huga að umhverfissjónarmiðum eða slíkum þáttum. Ég held einfaldlega að það sé hægt að framleiða meiri orku í þessu landi og taka ágætt tillit til umhverfisþátta. Þetta þarf ekki að vera annaðhvort eða. Ég er kannski pínulítið að reyna að staðsetja mig á milli þeirra sem vilja ganga lengst í orkuöflun og þeirra sem vilja ganga lengst í vernd.

Mig langaði að spyrja hv. þm. Björn Leví Gunnarsson um pólitísku stöðuna sem er í þessum málaflokki í dag. Nú erum við með ríkisstjórn sem er samsett, eins og við þekkjum, út frá þessum orku- og umhverfismálum þannig að það eru tveir flokkar sem alls ekki eru sammála. Í sjálfu sér er ekkert við það að athuga, þannig er nú bara pólitíkin og annað, en það væri ágætt ef hv. þingmaður væri til í að koma með pínulítið mat á því. Bara sú staða að við erum með svona ólíka flokka þegar kemur að afstöðu þeirra til umhverfismála og orkunýtingarmála hlýtur að gera það að verkum að öll sýn til framtíðar er alltaf mótuð af einhverjum, hvað á maður að segja, samnefnara sem næst þannig á milli en er ekkert endilega það besta fyrir samfélagið í heild. Það væri ágætt að fá hugleiðingar hv. þingmanns um það.