154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

raforkulög.

541. mál
[20:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru mjög áhugaverðar vangaveltur um stjórnarsamstarfið og ferlið sem er í gangi í orkuiðnaðinum hérna. Nú var ákveðin söguskýring í fyrri ræðu hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, hvernig allt hefði farið í frost og verið að semja um rammaáætlunina fram og til baka. Það var nú bara gert á síðasta kjörtímabili í þessari ríkisstjórn einmitt, að toga nýtingarflokk, biðflokk, verndarflokk, úrræði fram og til baka. Það er ekkert nema ákveðin hrossakaup þegar allt kemur til alls, eitthvað sem nær lægsta samnefnara. Það voru ákveðnar augljósar fórnir færðar í þeirri niðurstöðu. En það varð niðurstaða. Hversu góð niðurstaða það var er því miður orðið framtíðarvandamál því við sjáum einmitt hvernig niðurstöðurnar eru að koma út með umhverfismati og þessu stjórnsýsluapparati, t.d. vatnalöggjöfina og þess háttar. Mjög áhugavert að sjá hvernig þetta er að þróast. Ég held að okkur gagnist ekki þessi trukkapólitík sem hefur verið, að hver ráðherra í sínu ráðuneyti nái einhvern veginn að trukka sínum málum í gegn af því að sá ráðherra ber bara ábyrgð á þeim málaflokki og svo er bara störukeppni við ráðherrana í hinum ríkisstjórnarflokkunum: Ætlar þú að gera eitthvað í þessu? Það er ekkert rosalega holl pólitík þegar allt kemur til alls, það býr til rosalegan klofning og erjur sem mun taka langan tíma, held ég, að anda í gegnum og fá einhverja niðurstöðu í og sættir og í rauninni viðurkenningu á því að þar hafi verið illa farið með.