154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

238. mál
[22:23]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og stundum er sagt ætlar maður ekki að lengja umræðuna en af því að ég hef nú setið í þessari nefnd líka, þingmannanefnd um málefni barna, og þar sem þessi mál hafa verið ítarlega til umræðu í talsvert langan tíma fagna ég þessu frumvarp og að það sé fram komið. Þó að mörgu sé að hyggja, eins og hefur verið rætt í kvöld, þá get ég tekið undir að við þurfum að gæta að — ég ætla bara að stoppa stutt hér, það er margt sem hægt væri að ræða — framhaldsfræðslunni og fullorðinsfræðslunni. Eins og meiri hlutinn áréttar sannarlega í áliti sínu er mikilvægt að huga að samstarfi milli ráðuneyta hvað þetta varðar. Eins finnst mér mikilvægt, hafandi starfað sem náms- og starfsráðgjafi, varðandi raunfærnimatið, sem hér er nefnt og tekið vel utan um að mínu mati, að lögð verði áhersla á að þróa það matstæki. Það er gríðarlega mikilvægt þegar kemur að fullorðinsfræðslunni að það sé gert og það sé þá í samvinnu framhalds- og háskólastigsins. Svo líka varðandi iðn- og verknám sérstaklega, það þarf að halda áfram að þróa það líka þar.

Mig langaði líka aðeins að nefna námsgögnin, af því að við höfum á því skoðun í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði að það skipti máli með hvaða hætti námsgögn eru framleidd og útbúin og að nemendur hafi aðgang að góðum námsgögnum. Þess vegna finnst mér gott að það sé tekið dálítið vel utan um það hér og áréttað að verið sé að vinna að frekari lagabreytingum um námsgögn og það eigi að leggja það mál fram á yfirstandandi þingi. Mér finnst mikilvægt að við ýtum á eftir því að það nái fram að ganga, að við séum ekki að fjalla um það næsta haust eða eitthvað slíkt heldur að við getum klárað það líka hér á þessu þingi samfara þessum málum sem við erum að vinna að í þágu menntunar og farsældar barna.