154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

breyting á ýmsum lögum í þágu barna.

240. mál
[22:42]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Ég ætla aðeins að tala um þetta frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum í þágu barna, samþættingu þjónustu. Ég vil byrja á að fagna því að það sé verið að ræða meira um að auka vægi þátttöku barna við stefnumótun og að við séum að gefa börnum meira vægi og hlusta á raddir barna um málefni þeirra, auðvitað með tilliti til aldurs og þroska barnanna. En mér finnst þetta bara mjög flott í sjálfu sér. Svo langar mig að koma inn á það sem umsagnaraðilar hafa aðeins verið að tala um en það er skortur á úrræðum. Farsældarlögin, eins og ég skil þau, miða svolítið að tengiliðum, málstjórum og að þetta sé allt í réttum farvegi. En það er svo erfitt að setja hluti í réttan farveg ef það eru engin úrræði sem taka við. Það er náttúrlega mikið ákall frá sveitarfélögum og líka frá sjúkrahúsum og öðrum um meira fjármagn til þess að vera með betri úrræði, fleiri úrræði og fjölbreyttari úrræði. En mér finnst mjög mikilvægt að við séum líka að hugsa svolítið um að færa þjónustuna nær í þessu samhengi og þar sem við erum að tala um farsæld barna og annað þá viljum við náttúrlega að þjónustan sé í þeirra nærumhverfi og að þjónustan sé kannski meiri í skóla- og leikskólaumhverfinu, að við hugsum aðeins út fyrir kassann og spyrjum: Hvernig viljum við hafa þetta? Viljum við ekki að börnin geti leitað líka til þjónustu fagaðila nær og getum við gert það á einhvern annan hátt? Mér finnst líka áhugavert að vita hversu mikið fjármagn hefur farið í innleiðingu laganna um farsæld og samþættingu þjónustu.

Ég vil bara segja að mér finnst mikilvægt að þetta séu lög og mér finnst mikilvægt að það séu málstjórar og tengiliðar en ég velti því fyrir mér hvað sé brýnast á hverjum tímapunkti. Þegar miklir biðlistar eru eftir alls konar þjónustu, hvort sem það er sálfræðiþjónustu, þjónustu talmeinafræðinga, þjónustu eiginlega nánast hvaða fagaðila sem þú getur ímyndað þér sem þjónustar börn á einhvern hátt, er það þá ekki eitthvað sem við eigum að vera með núna sem mikilvægasta forgangsmálið hjá okkur, að bæta úr þjónustu? Við vitum að eitt ár í lífi barns er mjög langur tími þannig að það skiptir máli hvort það fær þjónustu talmeinafræðings á þessu ári eða næsta ári. Það skiptir bara mjög miklu máli fyrir fjölskyldur og fyrir börnin. Biðlistar og þjónustuleysi og úrræðaleysi er auðvitað eitthvað sem ætti að vera brýnasta málið hjá okkur. Auðvitað hefur maður líka heyrt að það séu kannski ekki nægilega margir fagaðilar til að sinna þjónustu. En þá þurfum við náttúrlega að hugsa um hvernig við eigum að koma til móts við það. Þurfum við að mennta fleiri? Hvernig eigum við að gera það? Við þurfum að hugsa um allar lausnir og hugsa út fyrir kassann. Þurfum við kannski að hafa fleiri fagaðila inni í skólanum, í nærumhverfinu, í leikskólanum, vera með þverfaglegri nálgun í nærumhverfi? Það er kannski það sem ég vildi segja og líka: Í hvað ætlum við að eyða fjármagni á hverjum tímapunkti? Það getur verið bara mjög alvarlegt mál að bíða eftir þjónustu í marga mánuði, hvað þá ár, fá ekki greiningar, fá ekki sálfræðimeðferð, fá ekki meðferð hjá talmeinafræðingi eða aðstoð.

Mér finnst mikilvægt í umræðunni um farsæld barna og samþættingu þjónustu að það sé einblínt á þjónustu. Það er auðvitað þjónusta í því að vera með málstjóra sem tekur utan um fjölskyldur og tengiliði en úrræðin eru ekki eins og við myndum vilja sjá þau og oft eru úrræði ekki til staðar. Sama hversu marga tengiliði og málstjóra við erum með þá skortir það fagfólk oft úrræði. Þetta er það sem mig langaði að segja um þetta frumvarp til laga, en annars, eins og ég segi, er þetta bara flott og mikilvægt. En einnig hugsar maður: Hvað er mikilvægast á hverjum tímapunkti og hvernig ætlum við að bregðast við núna? Það er sérstaklega mikilvægt þegar við erum að tala um börn þar sem eitt ár, tvö ár, þrjú ár eru mun mikilvægari í lífi barna þar sem þroskinn, heilaþroskinn og kynþroski og allt er að fara í gang, heldur en hjá fullorðnu fólki. Eitt, tvö eða þrjú ár hjá okkur er aðeins öðruvísi. Þannig að mér finnst mikilvægt að það sé unnið hratt og vel í að bæta þjónustu fyrir fjölskyldur í landinu, börn á leikskólaaldri, ungmenni og fjölskyldurnar í heild.