154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

tóbaksvarnir.

226. mál
[23:12]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Virðulegur forseti. Hér hefur talsvert og réttilega verið komið inn á mikilvægi forvarna, mikilvægi þess að börn forðist tóbak í eins miklum mæli og hægt er. Það er hægt að taka undir það allt saman. Allt í þessu frumvarpi sem hefur með þá þætti að gera er vel hægt að taka undir. En það er enn í þessu frumvarpi það atriði sem ég verð að segja að er bara einhver helber vitleysa sem ég verð að fá að lýsa yfir undrun á að við séum enn eftir langan þingferil þessa máls að horfast í augu við að verði að öllum líkindum lendingin hér í lagatexta. Það sem ég er þá sérstaklega að tala um er það sem er talað um í frumvarpinu sem bann við einkennandi bragði á tóbaksvörum. Það sem er ofboðslega flókið og villandi í þessari umræðu er að það er annars vegar svo sjálfsagt og eðlilegt að taka undir og vilja sporna gegn bragðbætandi efnum sem myndu gera sígaretturnar meira spennandi t.d. gagnvart börnum, eins og súkkulaðisígarettur eða jarðarberjasígarettur eða eitthvað slíkt. Við skulum kannski ræða að það mætti halda utan um það í einhvers konar mengi og reyna að aðskilja þær frá einhvers konar nammihugrenningatengslum í hugum barna. En inn í það mengi sem einkennandi bragð er sett í þessu frumvarpi fellur sem sagt mentólbragð á tóbaki, mentólbragð sem fimmtungur reykingafólks á Íslandi kýs að nota í sinni tóbaksneyslu.

Hér langar mig að koma með það innskot, forseti, að ég átti mig mætavel á því að kannski flestir sem á þetta hlýða hér hjá mér hugsa sem svo: Er ekki bara fínt fyrir þetta fólk að hætta að reykja? Er ekki bara fínt að banna sem mest hvað varðar reykingar? En þrátt fyrir að sú skoðun sé góðra gjalda verð þá er það ekki það sem við erum að tala um hér. Við erum að tala um að banna eina ákveðna sígarettutegund í rauninni, í þessu tilfelli Salem Lights og Capri bláan eins og mér hefur verið tíðrætt um, og því hvað slíkar tegundir hafa gert umfram aðrar er ósvarað og því er ekki svarað í þessu frumvarpi. Rökstuðningurinn fyrir því að börn leiti í þetta einkennandi bragð og mentól þá í rauninni hljóti að falla þar undir er langsóttur og fálmkenndur í besta falli. Og þrátt fyrir að mörgum finnist kannski allt í lagi að við séum einhvern veginn smám saman að fækka sígarettutegundum, hvort það sé ekki bara allt saman jákvætt, þá megum við ekki missa sjónar á því að hérna er bara verið að gera upp á milli fólks. Það er ekki verið að gæta að jafnræði fólks. Fólk hefur bara þann rétt að hafa mismunandi smekk á því hvers það kýs helst að neyta, hvernig það vill helst hafa það á bragðið. Það er þeirra réttur. Ef við ætlum að taka það valfrelsi af fólki verðum við alla vega að geta fært rök fyrir því af hverju við erum að taka það valfrelsi og að mínu viti svarar þetta frumvarp því alls ekki.

Ég hef áður fjallað um þetta mál í lengra máli og það er kannski óþarfi að endurtaka það allt saman hér og nú. En fyrir mér er þetta hreinlega órökstutt og algerlega óþarft og nær í engu að sinna eða mæta þeim tilgangi sem er lagt upp með í frumvarpinu að öðru leyti. Mér finnst þetta vera aðför að saumaklúbbum landsins. Mér finnst þetta vera aðför að djammreykingum, sem eru þrátt fyrir allt partur af okkar samfélagi sama hvað fólki finnst um það á, gerð á órökstuddan og óþarfa hátt að mínu viti.

Ég átta mig fullvel á því að EES er eitt mikilvægasta viðskiptasamband sem við eigum í. Ég átta mig líka á því að því fylgir oft að þurfa að innleiða hér hluti sem okkur þykja misgóðir. Ég hafði þó væntingar um, ég hafði einlægar væntingar um að horft yrði til þess að tilskipun sú sem frumvarp þetta byggir á er tæplega tíu ára gömul, hún er í rauninni úrelt. Reykingar hafa síðan þessi tilskipun var gerð minnkað af sjálfu sér, fólk reykir ekki í jafn miklu magni og áður, bara vegna forvarna og fræðslu. Það er það sem skiptir mestu máli þegar við erum að reyna að stemma stigu við tóbaksreykingum, forvarnir og fræðsla, gerum endilega meira af því. Þannig að tilskipunin er úrelt og hún er ofboðslega lítið rökstudd hvað varðar mentólþátt frumvarpsins. Ég hafði líka væntingar þar sem það er þannig að íslenskir reykingamenn eru hrifnari af mentólsígarettum en reykingamenn í öðrum löndum. Eins og ég sagði áðan mun hátt í fimmtungur reykingafólks verða fyrir því að þeirra vara verður ekki lengur til, vara sem er að mínu viti, og frumvarpið sýnir ekki fram á neitt annað, ekki hættulegri en hinar vörurnar í hillunum. Og ástæðuna fyrir því, herra forseti, tel ég því miður vera þá að hér er verið að bera á borð einhvers konar sýndarlýðheilsuaðgerð. Nú geta margir embættismenn tikkað í box um að þeir hafi núna verið að spyrna gegn því að börn byrji að reykja, geta kallað það harla gott dagsverk og farið að snúa sér að einhverju öðru, þegar staðreyndin er sú að það er ekki með nokkru móti hægt að halda því fram að börn byrji eitthvað sérstaklega meira að reykja mentólsígarettur frekar en aðrar sígarettur.

Ég held að það hefði verið betra að einbeita sér að því sem raunverulega getur skipt máli í þessu, sem eru forvarnir og fræðsla, í staðinn fyrir að taka valkostina af þeim Íslendingum sem kjósa fara í góðra vina hópi út á svalir og fá sér eina sígó. Einhverra hluta vegna ætlar íslenska ríkið að banna þeim að velja þá tegund sem þeir myndu helst kjósa á þeirri stundu og ég get ekki stutt það. Mér finnst mjög vont að við ætlum að hleypa þessu svona í gegn og ég held að ég hafi farið stuttlega yfir helstu ástæður þess að mér finnst þessi lög ekki standast og ekki ná neinum þeim tilgangi sem er hér í mjög fallegum orðum ýjað að. Mér þykir þetta bara mjög leitt ef ég á að segja eins og er, herra forseti, og ekki þinginu til sóma. Þrátt fyrir að þetta sé eflaust smámál í hugum flestra er þetta samt ákveðið prinsippatriði. Við setjum ekki lög bara af því bara, þótt þau kannski hljómi vel, algjörlega burt séð frá því hvort þau nái einhverjum tilgangi, algjörlega burt séð frá því hvort það sé nógu vel rökstutt, algerlega burt séð frá því að fullt af fólki mun verða mjög leitt þegar þetta verður að lögum. Mér finnst að við eigum ekki að haga löggjöf okkar þannig. Ég mun ekki styðja þetta frumvarp og fyrir hönd Alþingis bið ég saumaklúbba landsins afsökunar á þessari vegferð hér og hvet þá til þess að fara að hamstra Capri bláan áður en það verður of seint.