154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

tímabundinn vaxtabótaauki.

[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Svo við byrjum nú á upphafspunkti hv. þingmanns um jólagjafasöfnun í Kringlunni þá er gleðilegt að segja frá því að hún tók mjög hressilega við sér eftir að þessi frétt kom fram, bara svo því sé til haga haldið.

Hv. þingmaður vísar hér í vaxtastig og verðbólgu og kjör barna og ef ég byrja á því sem tengist kjörum barna þá held ég að við hv. þingmaður séum sammála um að það skipti miklu máli þegar verið er að taka ákvarðanir fram í tímann að stjórnvöld beiti sér með þeim hætti að við drögum úr fátækt barna. Helst eigum við að útrýma henni. Það er ein besta fjárfesting þjóðhagslega sem við getum ráðist í og til þess eru margar leiðir. Við erum búin að vera að endurskoða og breyta barnabótakerfinu og eigum að byggja á því áfram. Það er líka hægt að ráðast í ákveðnar kerfisbreytingar, t.d. að brúa umönnunarbil, huga að skólamáltíðum, tómstundastarfi og öðru því sem varðar kjör barna. Það held ég að sé allt mjög góð fjárfesting og margt af því hefur ríkisstjórnin þegar verið að vinna í.

Þegar kemur hins vegar að stöðu heimilanna, af því hv. þingmaður spyr sérstaklega um húsnæðisstuðning, þá höfum við líka verið að endurskoða það kerfi. Við höfum verið að leggja áherslu á rót vandans sem er framboð af húsnæði. Þannig hefur ríkið stigið inn á húsnæðismarkað í fyrsta sinn í síðari tíð með mjög myndarlegum stofnframlögum. En nú er staðan þannig að hátt í þriðjungur þeirra íbúða sem hefur verið byggður á undanförnum árum er byggður fyrir tilstuðlan opinberra framlaga og ég held að við hv. þingmaður hljótum að vera sammála um það að ef við viljum ráðast að rót vandans þegar kemur að húsnæðiskostnaði heimilanna þá skiptir máli að framboðið standi undir eftirspurn og þar hefur ríkisvaldið verið að beita sér.

Við erum auðvitað líka búin að vera að endurskoða húsnæðisstuðninginn og sú vinna heldur áfram, þ.e. hann er auðvitað dreifður víða eins og er, en ég held að það skynsamlegasta sem hægt sé að gera sé að reyna að einfalda þetta kerfi. (Forseti hringir.) Við erum með sérstakan stuðning fyrir leigjendur, annars konar stuðning fyrir eigendur. Við erum komin með nýtt kerfi sem heitir tilgreind séreign sem var tekið upp, m.a. fyrir kröfu verkalýðshreyfingarinnar, sem á eftir að reyna á. (Forseti hringir.) Við eigum að horfa á þetta mál heildstætt, herra forseti.