154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

stuðningur íslenskra stjórnvalda við UNRWA.

[15:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það grundvallaratriði að við ætlumst auðvitað til þess að peningar sem eru ætlaðir til þess að rata í mannúðaraðstoð endi ekki hjá hryðjuverkamönnum til að fjármagna þeirra starfsemi. En til þessa höfum við ekki haft ástæðu til að ætla að það sé að gerast. Það er ágætt að taka það fram hér í tilefni af því sem hv. þingmaður segir að Bandaríkjamenn eru að hvetja til þess að menn auki framlögin til þessarar stofnunar þótt sumir vilji að það sé tryggt meira gagnsæi um meðferð fjármunanna. En síðan er það nú þannig að þessi stofnun er með sitt eigið innra eftirlit þar sem kemur mikill fjöldi þjóða að því að skoða gagnsæismál hjá stofnuninni. Nú er fram undan fundur hjá Frökkum þar sem ástandið á Gaza verður til umræðu og í því sambandi verði sérstaklega horft til þess hvernig flóttamannaaðstoðin er að ná árangri. (Forseti hringir.) En það er ekki meginefni fundarins að horfa til þess að allt sé að renna úr höndum þeirra til hryðjuverkamannanna heldur þvert á móti að það sé mikilvægt að stofnunin hafi áfram getu og stuðning til þess að ná árangri. (Forseti hringir.) Ég tek auðvitað ábendingum alvarlega sem hv. þingmaður er að ræða en við höfum ekki séð nein ákveðin merki um að þetta eigi við rök að styðjast.