154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

fyrirkomulag samstarfs og samhæfingar í stjórnkerfinu vegna náttúruvár.

[15:49]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég kem aðeins inn á þetta með sveitarfélögin hér í lok svarsins en mig langar að ljúka þeirri hugsun sem ég var byrjuð á í lok fyrra svars vegna þess að það sem ég er að segja á ekki bara við um viðbragðsaðila. Við getum tekið sem dæmi stofnanir okkar sem sinna rannsóknum og vöktun, eitthvað sem kannski þykir ekki alltaf mjög spennandi þegar allt gengur vel en er algjör undirstaða þegar eitthvað bjátar á. Þegar við horfum á skriðuföll, snjóflóð, eldsumbrot, þá skiptir öllu máli að eiga fræðistofnanir sem eru að sinna þeirri vöktun þannig að það er annar hlutur sem ég tel að við þurfum að ræða. Hvað varðar sveitarfélögin þá vil ég segja að það er alveg hárrétt að fyrsta viðbragð gengur yfirleitt gríðarlega vel og þar hafa sveitarfélögin mjög skýrt afmörkuðu hlutverki að gegna í gegnum sínar almannavarnanefndir. Síðan blasa oft við flókin mál sem þarf að leysa úr. En það er líka þannig, svo því sé haldið til haga, að aðstæður á hverjum stað geta verið ansi sérstakar. Við getum við séð til að mynda tjón á atvinnuhúsnæði sem hefur áhrif á efnahagslíf viðkomandi byggðarlags. Í tilfelli Seyðisfjarðar voru þetta gömul hús sem þurfti að bæta og vinna að því að byggja upp aftur, sem er kannski ekki á öllum stöðum. (Forseti hringir.) Við erum alltaf að eiga við einstakar kringumstæður. Ég vil bara segja í lokin, (Forseti hringir.) herra forseti, að ég held að á nýju ári væri gríðarlega jákvætt ef við settum af stað vinnu hér á vettvangi Alþingis, ég veit ekki nákvæmlega hvernig við útfærum hana, (Forseti hringir.) þar sem við reynum að draga dálítið saman þessa lærdóma. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þessi mál, ef einhver, séu óumdeild hér á vettvangi þingsins.