154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023--2026.

511. mál
[16:44]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu fyrir árin 2023–2026.

Það sem gerir þjóð að þjóð er tungan, svo vitnað sé til orða frú Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrum forseta. Íslenskan hefur gert okkur að þjóð. Já, íslenskan er þjóðtunga okkar og opinbert mál samkvæmt lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011. Þar stendur í 2. gr. að stjórnvöld skuli tryggja að unnt sé að nota íslensku á öllum sviðum íslensks þjóðlífs. Lögin heyra undir málefnasvið menningar- og viðskiptaráðherra en málefni íslenskrar tungu snerta beint eða óbeint starfsemi margra ráðuneyta og okkur öll. Aðgerðaáætlunin sem ég legg fram í dag er afrakstur af starfi ráðherranefndar um íslenska tungu sem forsætisráðherra setti á laggirnar í nóvember 2022 fyrir réttu ári síðan. Nefnd þeirri er ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast. Auk forsætisráðherra eiga mennta- og barnamálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra fast sæti í nefndinni.

Virðulegi forseti. Þingsályktunartillagan inniheldur 19 aðgerðir sem snerta málefni íslenskunnar víða í samfélaginu. Aðgerðirnar eru á ábyrgð mismunandi ráðuneyta og stofnana og varða fjölmörg svið samfélagsins þar sem íslensk tunga er í brennidepli. Allar miða þær að því að auka veg íslenskunnar í okkar fjölbreytta samfélagi, að bæta aðgengi að tungumálinu og tryggja að sem flestum finnist þeir eiga hlutdeild í því. Jákvætt viðhorf er enda kjarni íslenskrar málstefnu.

Með þessum aðgerðum viljum við efla samvinnu um verndun og þróun íslenskunnar og tryggja jákvæð viðhorf til hennar þvert á ráðuneyti og stofnanir, atvinnulíf, menntakerfi og þriðja geirann. Með aðgerðunum vilja stjórnvöld einnig stuðla að þeim kerfislegu breytingum sem þörf er á til að mæta þeim áskorunum sem tungumálið stendur frammi fyrir því að málefni íslenskrar tungu þurfa að þróast með samfélaginu. Aðgerðaáætlunin tekur á brýnustu verkefnum íslenskrar tungu næstu misserin en er engan veginn tæmandi listi yfir allt það sem stjórnvöld eru að gera eða hyggjast gera í þessu samhengi. Málefni íslenskunnar tengjast fjölmörgum öðrum verkefnum sem unnið er að á vettvangi ráðuneyta, stofnana, sveitarfélaga og félagasamtaka. Það var gleðilegt í aðdraganda þessarar vinnu að fá innsýn í fjölbreytni þeirra.

Virðulegur forseti. Drög að aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu fyrir árin 2023–2026 voru birt í samráðsgátt stjórnvalda síðastliðið sumar. Fjölmargar umsagnir bárust við málið í gáttinni eða 36 talsins og koma þær jafnt frá einstaklingum, félagasamtökum, stofnunum eða fyrirtækjum. Málefninu var afar vel tekið, bæði í umsögnum í samráðsgáttinni og raunar í samfélaginu. Góðar ábendingar bárust um það sem betur mátti fara og var tekið tillit til þeirra eftir því sem hægt var. Það er óhætt að segja að þegar íslenskuna ber á góma finnur maður ekkert annað en hlýhug, velvilja og stuðning. Ég vil bæði þakka þeim fjölmörgu gestum sem komu á fundi ráðherranefndarinnar síðastliðinn vetur og þeim sem sendu umsagnir um drögin kærlega fyrir innlegg sín og ábendingar og ekki síst fyrir mikilvæga hvatningu og fyrirheit um liðsinni í þeim verkefnum sem fram undan eru. Það er dýrmætt að finna slíkan stuðning við jafn brýnt verkefni og ég tel þetta vera. Ég er bjartsýn á árangur þeirrar samvinnu og að í sameiningu muni okkur takast að tryggja framtíð íslenskunnar.

Virðulegur forseti. Ég hef gert grein fyrir megináherslum þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu fyrir árin 2023–2026 og legg til að henni verði að lokinni fyrri umræðu vísað til hæstv. allsherjar- og menntamálanefndar og svo til síðari umræðu.