154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2023--2027.

241. mál
[17:59]
Horfa

Frsm. minni hluta (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 1. minni hluta velferðarnefndar um þetta mál. Í tillögu þeirri sem hér er til umræðu er fjallað um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar árin 2023–2027 en skv. 5. gr. barnaverndarlaga ber ráðherra að leggja fyrir Alþingi slíka framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum. Meginmarkmið barnaverndarlaga er að tryggja börnum viðunandi uppeldisskilyrði og veita börnum sem búa við óviðunandi aðstæður og börnum sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu nauðsynlega aðstoð. Framkvæmdaáætlun þessi er á sviði barnaverndar og afmarkast verkefnin því samkvæmt skilgreiningu barnaverndarlaga. Á tímabili framkvæmdaáætlunarinnar verður þverpólitískri þingmannanefnd um málefni barna, með stuðningi og í samstarfi við stýrihóp Stjórnarráðsins í málefnum barna, falið að ljúka heildarendurskoðun barnaverndarlaga og eftir atvikum annarra laga sem breyta þarf til þess að fá heildaryfirsýn yfir málefni barna hér á landi og þjónustu við þau. Hér er því mikilvægt verkefni fyrir höndum og mikilvægt að tekið verði tillit til allra þeirra þátta sem hefur verið bent á í tengslum við framkvæmd barnaverndar á Íslandi.

Almennt virðist ríkja samstaða á meðal hag- og umsagnaraðila um að þörf sé á þeim breytingum sem lagðar eru til með áætluninni. Þó eru nokkur atriði sem minni hluti velferðarnefndar, sú er hér stendur, saknar sárlega úr áætluninni, þ.e. sem hvergi kemur þar fram þótt brýnt tilefni hafi verið til. Það sem ég tel fyrst og fremst verulega gagnrýnisvert er að í áætluninni er hvergi minnst á aðkomu barnaverndar að forsjár- og umgengnismálum. Í tiltölulega nýlegri skýrslu GREVIO, eftirlitsnefndar Evrópuráðsins með Istanbúl-samningnum svokallaða, sem felur í sér aðgerðir og baráttu gegn heimilisofbeldi og ofbeldi gegn konum, kemur fram að á Íslandi sé ekki nógu vel tekið utan um þolendur ofbeldis þegar kemur að forsjármálum, þar á meðal utan um börn sem annaðhvort verða fyrir ofbeldi sjálf með beinum hætti eða verða vitni að heimilisofbeldi, þ.e. ofbeldi gegn nánum fjölskyldumeðlimi, gjarnan foreldri; verndara barnsins, stoð og styttu.

Eftirlitsnefndin leggur áherslu á að það að barn verði vitni að ofbeldi feli í reynd í sér ofbeldi gegn barninu, sérstaklega þegar um er að ræða foreldri, þann einstakling sem barnið treystir á til að veita sér vernd. En þannig er það ekki nálgast í íslenskri lagaframkvæmd. Heimilisofbeldi hefur jafnan ákaflega lítil áhrif á niðurstöðu í forsjár- og umgengnismálum og virðist iðulega litið á ofbeldi annars foreldrisins gegn hinu í besta falli sem eitthvað sem komi barninu ekki við, svo fremi sem barnið hafi ekki verið lamið sjálft.

Í umsögn ríkislögreglustjóra um framkvæmdaáætlun þessa sem við ræðum nú kemur fram að algengast sé að börn komi við sögu í málum er varða brot á hegningarlögum, svo sem ofbeldisbrot, sem aukaaðilar, til að mynda sem brotaþolar eða vitni. Þannig voru 1.785 börn skráð í slíkum málum hjá lögreglu árið 2022. Í lögum er hlutverk barnaverndar í forsjár- og umgengnismálum óskýrt. Í framkvæmd hefur barnavernd forðast í lengstu lög að hafa afskipti af slíkum málum. Það lýsir sér þannig — bara svo ég lýsi því örlítið á mannamáli hvernig þessi afstaða birtist í framkvæmd fyrir foreldri sem er þolandi heimilisofbeldis í forsjárdeilu — að foreldri óskar aðstoðar barnaverndarnefndar vegna þess að foreldrið óttast hitt foreldrið. Þá fær það foreldri bréf frá barnavernd með þeim orðum að barnavernd skipti sér jafnan ekki af forsjár- og umgengnismálum, auk þess sem forsjárskyldur foreldrisins sem lýsir áhyggjunum eru áréttaðar, einkum skylda foreldrisins til þess að vernda barn sitt gegn ofbeldi. Í 3. mgr. 28. gr. barnalaga segir enda um forsjárskyldur foreldra, með leyfi forseta:

„Forsjá barns felur í sér skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn hvers kyns ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.“

Þessa stefnu ákveður barnavernd vitanlega í trausti þess að það kerfi sem lýtur að úrskurðum og ákvörðunum í forsjár- og umgengnismálum taki mið af hugsanlegu ofbeldi og áhrifum þess á barnið. Það stendur enda í barnalögum berum orðum, nánar tiltekið í 2. mgr. 34. gr. laganna, með leyfi forseta:

„Dómari kveður á um hvernig forsjá barns eða lögheimili verði háttað eftir því sem barni er fyrir bestu. Dómari lítur m.a. til hæfis foreldra, stöðugleika í lífi barns, tengsla barns við báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barnsins til umgengni, hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska.“

Í 1. mgr. 47. gr. barnalaga segir þá, með leyfi forseta:

„Ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna og foreldra greinir á um umgengni tekur sýslumaður ákvörðun um umgengni samkvæmt þessari grein með úrskurði. Ákvörðun skal ávallt tekin eftir því sem barni er fyrir bestu. Sýslumaður lítur m.a. til tengsla barns við báða foreldra, aldurs barns, stöðugleika í lífi barns, búsetu foreldra og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska. Þá ber sýslumanni að meta hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi …“

Löggjafinn hefur því orðað það skýrt að hættan á því að barnið sjálft verði fyrir beinu líkamlegu ofbeldi í framtíðinni sé ekki það eina sem skuli koma til skoðunar við slíkar ákvarðanir heldur líka hættan á því að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi áður, í fortíðinni, orðið fyrir eða verði fyrir ofbeldi. En líkt og bent var á í skýrslu GREVIO, og raunar hefur verið ítrekað bent á það hér á landi síðustu ár af hálfu ýmissa aðila, þótt skýrsla nefndarinnar hafi verið sú fyrsta að mér vitandi sem barst erlendis frá, er ekki tekið nægilegt tillit til þessara þátta í meðferð mála er varða forsjá og umgengni. Sú framkvæmd og sú afstaða barnaverndar að skipta sér almennt ekki af málum er varða forsjá og umgengni skapar þannig gjá í framkvæmdinni sem börn í ákveðnum aðstæðum falla ofan í. Börn sem búið hafa við heimilisofbeldi en foreldri þess er að öðru leyti ekki talið skorta hæfni að því marki að koma þurfi til forsjársviptingar eða sviptingar umgengnisréttar njóta þannig takmarkaðrar verndar í framkvæmd. Með hliðsjón af ábendingum GREVIO og fleiri aðila um að ekki sé nægilega lítið til heimilisofbeldis við meðferð umgengnis- og forsjármála er hætt við því að kerfi taki ekki utan um börn sem sætt hafa heimilisofbeldi eða búið á heimili þar sem því er beitt.

Ekki nóg með að ekki sé nægilegt tillit tekið til ofbeldisþátta í forsjár- og umgengnismálum í þágu verndar barnsins heldur virðist sem þau lóð séu hreinlega lögð öfugum megin á vogarskálarnar. Benda rannsóknir til þess að foreldri sem kveðst hafa sætt ofbeldi af hálfu hins og hafa áhyggjur af velferð barnsins af þeim sökum — ekki nóg með að þær áhyggjur hafi ekki þau áhrif í framkvæmd að auka líkurnar á því að því foreldri verði falin forsjá heldur minnkar það líkurnar á því og eykur líkurnar á því að foreldri sem sakað hefur verið um að beita ofbeldi verði falin forsjá. Þá eykur það mjög líkurnar á því að foreldrinu sem sakað hefur verið um að beita ofbeldi verði falin forsjá hafi hitt verið staðið að því að tálma umgengni. Foreldri sem fylgir leiðbeiningum barnaverndar um að sinna forsjárskyldum sínum til að vernda barn sitt gegn ofbeldi er þannig líklegra til að tapa forsjármáli. Í núverandi framkvæmd virðist kerfið þannig gera kröfu um að foreldri verndi barn sitt gegn ofbeldi í samræmi við forsjárskyldu sína en um leið meinar kerfið foreldri að vernda barn sitt í samræmi við forsjárskyldur sínar. Stendur því enginn aðili eftir með það hlutverk að vernda barnið gegn heimilisofbeldi. Telur minni hlutinn afar miður að hvergi sé tekið á þessu hlutverki barnaverndar í áætluninni.

Í ofanálag er brýnt að skerpa á hlutverki barnaverndar við aðför í málum er varða forsjá og lögheimili en það ætla ég ekki að fjölyrða um í þessari ræðu þar sem ég þykist vita að þau mál séu í skoðun og treysti því.

Að lokum bendir 1. minni hluti á að í umsögn ríkislögreglustjóra er lagt til að skerpt verði á lagaákvæðum í barnaverndarlögum sem snúa að sólarhringsbakvöktum barnaverndarþjónustu á landsvísu þar sem útköll vegna heimilisofbeldis eru gjarnan utan hefðbundins vinnutíma. Auk þess leggur ríkislögreglustjóri til að bætt verði við ákvæði um tilkynningarfundi barnaverndarþjónustu og lögreglu. Loks leggur ríkislögreglustjóri til að mótað verði ákvæði um hvernig best sé að hátta sameiginlegu áhættumati, eftirfylgni og samvinnu barnaverndar, félagsþjónustu, lögreglu, ákæruvalds og heilbrigðisþjónustu um slík mál í samræmi við ábendingar GREVIO-nefndarinnar sem fer með eftirlit með innleiðingu Istanbúl-samningsins.

Minni hlutinn leggur áherslu á og leggur til að tekið verði tillit til þessara ábendinga ríkislögreglustjóra og gerðar verði breytingar á tillögu ráðherra.