154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætisspurningar. Fyrst varðandi þessar ofgreiðslur til aldraðra sem eru nú skýrðar í frumvarpinu með bæði fjármagnstekjum og hærri lífeyrisréttindum og ég hef svo sem engar forsendur til að efast um að þær upplýsingar séu ekki réttar. En hv. þingmaður hefur meiri reynslu en ég af því að sitja í fjárlaganefnd. Varðandi Landspítala þá kom það nú strax inn í fjárlaganefnd og í okkar umræðu þegar Landspítalinn kom og við fórum að grennslast fyrir og spyrja um þessar fjárheimildir, hvort nýr Landspítali gæti yfir höfuð framkvæmt fyrir þetta gríðarlega fjármagn, sem hefur síðan komið í ljós að er ekki. Ég hef svolitlar áhyggjur af þeirri framkvæmd að mörgu leyti og stöðunni, ég held að menn séu komnir aðeins eftir á þar og það þarf að skoða hvað veldur því. Ég held að það væri verkefni fyrir okkur í fjárlaganefnd eftir áramót að fá aðeins stöðuna á þessum spítala og hvernig staðan er miðað við áætlanir. Hins vegar er stóra spurning hv. þingmanns sú hver ákveði vanfjármögnunina. Við höfum nú tekið þessa umræðu nokkrum sinnum og hún hefur alltaf endað á sama stað. Ég er að mörgu leyti sammála þingmanninum og mér finnst þetta mjög áhugaverð nálgun á þetta verkefni hjá honum. Það er alveg rétt að það er mjög sérstakt í mörgum tilfellum þegar við getum ekki fjármagnað einhverja þjónustu sem við erum búin að ákveða í þessum sal að skuli veitt. Ég held að það sé alveg tilefni til að setjast aðeins niður í fjárlaganefnd og fara yfir þessi mál, (Forseti hringir.) ég myndi bara fagna því.