154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirtaksspurningar. Það sem hv. þingmaður nefnir í sínu andsvari eru náttúrlega í grunninn risastórt og kannski erfitt að koma svarinu fyrir í tveggja mínútna andsvari. En varðandi efnahagsforsendurnar þá hef ég trú á því, einlæga trú á því að þetta fjárlagafrumvarp sem við erum að leggja hér fram muni tala við peningamálastefnu Seðlabankans. Fjárlögin sem við erum að leggja hér fram eru í eðli sínu aðhaldssöm. Seðlabankinn sjálfur hefur komið fram og sagt að þau séu svona hlutlaus, 0,3% aðhald í þessum fjárlögum, sem ég held að sé gríðarlega mikilvægt á þessum tímapunkti. Það var sagt að þegar hér væri talað um vaxtastig og verðbólgu þá væri bent á hagvöxt. Það er alveg rétt. Það er ekkert annað hægt að gera en að tala um hagvöxt þó hann sé ekki eina mælitækið. Við erum að sjá núna uppreiknaðan hagvöxt fyrir árið 2022, 7,2% á Íslandi. Það eru náttúrlega tölur sem við höfum ekki séð neins staðar og sjáum ekki neins staðar í þeim löndum sem við berum okkur saman við á sama tíma og atvinnuleysi er nánast ekki neitt. Það er hins vegar punktur í spurningu hv. þingmanns sem ég deili áhyggjum af, það er hagvöxtur á mann. Það er gríðarlegt áhyggjuefni fyrir okkur. Við tölum um það hér í þessu nefndaráliti að það sé áhyggjuefni fyrir okkur ef við erum farin að tala um í raun og veru neikvæðan hagvöxt per einstakling á Íslandi. Það er þróun sem við verðum einhvern veginn að reyna að sporna við vegna þess að við viljum ekki vera þar.