154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:52]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar. Ég tel að aðalvandamálið í dag og drifkraftur verðbólgunnar sé hin gríðarlega fólksfjölgun í landinu og hinn gríðarlegi vöxtur í ferðaþjónustunni sem keyrir upp eftirspurnina í samfélaginu. Eins og kemur fram í áliti meiri hlutans þá hefur það áhrif á eftirspurn, áhrif á ríkisútgjöld, húsnæði o.s.frv. Það er vandamálið. Við verðum að ná tökum á verðbólgu. Það er algjört grundvallaratriði. Við megum ekki missa tökin eins og við gerðum á níunda áratug síðustu aldar. Varðandi húsnæðismarkaðinn þá verðum við að taka sameiginlegt átak í því að auka framboðið. Það er grundvallaratriði. Hvernig gerum við það? Ríkið getur stuðlað að því með samningum, t.d. í kringum kjarasamninganna, um að fara í stórkostlega mikla uppbyggingu á íbúðarhúsnæði í landinu. Breiðholtið byggðist þannig upp úr 1960, það var með sólstöðusamningunum. Við verðum að fara í stórátak í uppbyggingu á húsnæði með lífeyrissjóðunum, ríkisvaldinu, sveitarfélögum og verkalýðsfélögum. Það þarf að gera það ekki bara lóð eftir lóð. (Forseti hringir.) Við verðum að hugsa um hverfi, borgarhluta, svipað og við gerðum upp úr 1960 og við getum vel gert það aftur.