154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:02]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ég held að okkur gefist ekki tími til að ræða allt samhengi hlutanna varðandi hagnað og hvenær honum er velt yfir á viðskiptavini eins og öll lögmál kveða á um. En ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns hér áðan að hann vísaði til ítalska hvalrekaskattsins svokallaða sem rök fyrir því að sexfalda bankaskattinn. Það kom mér eilítið á óvart því að í fyrsta lagi veit ég ekki betur en að það séu allir, þar á meðal ítalska ríkisstjórnin, sammála um að það hafi verið eitt allsherjarklúður þar sem virði bankanna hrundi og sem var tap fyrir alla hlutaðeigandi, sem var auðvitað ekki það sem að var stefnt. En það sem kannski vakti mesta furðu mína er að ítalski hvalrekaskatturinn sem lagður var á er lægri en skattarnir sem eru á íslenska banka nú. Þannig að ég fæ kannski í seinna andsvari, í seinni spurningu minni, (Forseti hringir.) að spyrja hv. þingmann: Er í raun og veru verið að leggja til lækkun á bankaskatti þar sem ítalski hvalrekaskatturinn er lægri en núverandi skattar á íslenska banka?