154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:51]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Svo ég vindi mér bara strax í spurninguna um norrænt kjaramódel þá vænti ég þess að hún sé að tala um SALEK-fyrirkomulagið. Er það það sem hv. þingmaður er að tala um, þá staðreynd að ramminn sé miðaður við svigrúm útflutningsgreinanna í landinu? Ég er bara að hugsa upphátt af því þetta var svolítið óskýr spurning. Staðan er sú, eins og ég hef kannski reifað hér í löngu máli, að ef það væri vilji hjá þessari ríkisstjórn og þar með talið Sjálfstæðisflokknum að fara yfir í norrænt kjaramódel þá þarf að vera norrænt tilfærslukerfi til staðar. Kjaramódelið byggir á því að kjörin séu bætt með öðrum hætti en í gegnum launaliðinn. Það er ekki hægt að taka launin niður, gera þá kröfu á verkalýðshreyfinguna, ef ekki er verið að bæta kjör með öðrum hætti. Þannig að já, ég styð að við förum í þá átt. En ég er einfaldlega að leggja áherslu á að ég sýni því skilning að verkalýðshreyfingin hefur ekki talið sér fært að komast þangað vegna þeirrar verulegu kjararýrnunar sem fælist í því ef það kemur ekkert á móti á húsnæðismálahliðinni, til að mynda í vaxtabætur og húsnæðisbætur.