154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir snjalla ræðu og margt sem ég var sammála og annað ekki eins og gengur, en ræðan var áhugaverð og yfirgripsmikil. Við í Viðreisn höfum, alveg frá því að þessi ríkisstjórn komst á laggirnar fyrir sex eða sjö árum síðan, varað eindregið og ítrekað við aðhaldsleysi í fjármálum. Hún hefur getað skýlt sér á bak við Covid í millitíðinni en við vöruðum við þessu löngu fyrir Covid. Við vorum hrædd um það yrðu lausatök í ríkisfjármálum og það hefur komið á daginn. Við vorum að vara við nákvæmlega þessu ástandi. Ég sakna þess að þessar erfiðu ákvarðanatökur og samtöl eru ekki tekin við ríkisstjórnarborðið, það hefur greinilega ekki verið gert.

Það sem ég vil hins vegar spyrja hv. þingmann er hvort hún sé sammála mér í því að næsta ríkisstjórn verði að gefa skýr skilaboð um að það verði aðhald í ríkisfjármálum og ríkisstjórnin eigi þá byrja á sjálfri sér og segja: Það verða ekki tólf ráðherrar hér á Íslandi heldur tíu. Við byrjum á því að fækka ráðherrum og ráðuneytum og sendum þannig skilaboð út í allt stofnanakerfið um að það verði sýnt aðhald í ríkisrekstri. (Forseti hringir.) Fyrir utan það að ég er líka sannfærð um að ráðuneytin sem slík verða sterkari sem stjórnsýslustofnanir.