154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nákvæmlega þannig og þessi hringlandi varðandi ráðuneytin er náttúrlega bara dæmigerður og birtingarmynd þess hvers konar hringlandi er hjá ríkisstjórninni í öllum hennar ákvörðunum eða ákvörðunarleysi. Það er það sem við í Viðreisn erum að kalla eftir: Takið ákvarðanir. Nei er líka svar, segið fólki hvað þið viljið.

Ég vil spyrja hv. þingmann um veiðigjöldin. Ég er innilega sammála því að það á að hækka veiðigjöldin, það er borð fyrir báru og vel það og hv. þingmaður fór vel yfir þann þátt. Ég vil hins vegar spyrja, af því við erum báðar svolítið í að hugsa hvað svo, hver er framtíðin, hvað við ætlum að gera: Er hv. þingmaður og Samfylkingin reiðubúin að skoða markaðsleiðina í sjávarútvegi? Það hefur m.a. verið undirstrikað af Jóhannesi Nordal í sinni ævisögu, hann hnykkir á því í sinni bók að hann hefði talið réttast að fara markaðsleiðina þegar kemur að ákvarðanatöku um það hvert auðlindagjaldið eigi að vera. (Forseti hringir.) Við erum sammála um að það eigi að hækka þetta. En mig langar að spyrja hvort Samfylkingin sé nokkuð búin að gefast upp á markaðsleiðinni í sjávarútvegi.