154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirtaks ræðu. Ég saknaði þess reyndar að hún ræddi ekkert hér um frumjöfnuð í sinni ræðu, sem kom mér á óvart. En mig langar aðeins að spyrja út í fjárlagafrumvarpið. Hv. þingmaður talaði um að sporna við þenslu í samfélaginu sem er akkúrat leiðarstefið í þessu fjárlagafrumvarpi, alla vega eins og við lítum á það, það er aðhaldssamt. Það er aðhald í frumvarpinu sjálfu. Getur hv. þingmaður tekið undir það þó með okkur sem skrifum undir þetta álit að það sé alla vega ekki til þess fallið að auka á þenslu í samfélaginu, heldur frekar í þá átt að slá á?