154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:55]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir spurninguna. Ég þakka honum líka kærlega fyrir einkar gott samstarf í fjárlaganefnd og skal bara gera það fyrir hann hér og nú að segja að mér finnst frumjöfnuður fáránlegur mælikvarði á stöðu mála, þannig að ég haldi mig við að endurtaka mig af fundum nefndarinnar.

Varðandi aðhaldið þá liggur fyrir að það er auðvitað meira aðhald en var t.d. í fyrra, þetta flata aðhald sem farið er í, þannig að ég held að það sé alveg óumdeilt að það er farið þarna í einhverjar aðgerðir. Ég er hins vegar mjög ósammála aðferðafræðinni og ég er efins um að þetta aðhald sem er lagt upp með muni skila þeim árangri sem við viljum öll sjá, sem er lægri verðbólga, og að Seðlabankinn geti lýst því yfir við samþykkt þessara fjárlaga að nú sé hann að sjá þann takt og þann tón frá ríkisstjórninni að hann geti linnt vaxtahækkunum. (Forseti hringir.) Þar erum við auðvitað með þau ummæli frá honum sjálfum að frumvarpið sé hlutlaust. Ég skil það þannig að það geri ekki illt verra.