154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:58]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir svarið. Mér hefur sýnst aðhaldið vera flatt þar sem því er beitt. Ég er sammála því að taka heilbrigðiskerfið út fyrir sviga. Gagnrýni mín laut að því að fara ekki á meiri dýpt í verkefnið en það að taka sömu aðhaldskröfu á alla, að öll þau verkefni sem sæti aðhaldi fái jafna kröfu á sig. Það er mín gagnrýni og mér finnst að það hefði átt að fara aðra leið í því efni.

Varðandi húsnæðismálin er uppbygging auðvitað mjög af hinu góða. Ég er hins vegar dálítið föst í þeim punkti að það sé ekki bara hægt að tala um hvað eigi að byggja mikið heldur líka hver eftirspurnin er. Síðan breytir það ekki því að uppbyggingin á húsnæði eða á íbúðum eða fasteignum núna mun ekki hafa róttæk áhrif á þær fjölskyldur sem eru þegar að glíma við sín lán. Það er minn punktur. (Forseti hringir.) Ég myndi vilja sjá einhver skref stigin þar til að mæta þeim hópi.