154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[21:50]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir snjalla ræðu. Þetta var mjög fín ræða að mörgu leyti. Ég ætla að taka það fram að ég og hv. þm. Bergþór Ólafsson erum nú í flokkum sem eru ekki sammála um alla hluti, eiginlega bara mjög ósammála um margt, en ég hygg þó að þessir tveir flokkar hafi af öllum flokkum hér á þingi verið mest með þau sjónarmið á lofti að við eigum að fara varlega í því að fagna auknum útgjöldum ríkissjóðs sýknt og heilagt og að skattahækkanir eigi ekki að vera fyrsta viðbragð eins og því miður virðist vera lenska. Mér fannst hv. þingmaður ramma það ágætlega sem ég hef sjálfur haldið margoft hér fram sem er að stærsti efnahagsvandi þessarar þjóðar, fyrir utan krónuna að sjálfsögðu, er samsetning þessarar ríkisstjórnar. Samsetning þessarar ríkisstjórnar er myllusteinn um háls okkar þegar kemur að efnahagsstjórninni, það dró hv. þingmaður ágætlega fram. Það eru fáir vinir skattgreiðenda í ríkisstjórnarflokkunum og það segir eiginlega allt að menn séu mjög sáttir við það að fjárlögin séu hlutlaus, þau séu hlutlaus og skemmi ekki fyrir. Þau hjálpa ekki Seðlabankanum í viðbragðinu við verðbólgu en þau eru hlutlaus og skemma ekki fyrir. Það er mikið metnaðarleysi sem er fólgið í því.

En núna liggur það auðvitað fyrir að við vitum ekki alveg miðað við stöðuna hérna við 2. umræðu hvernig þetta verður því að það vantar enn þá Grindavíkuraðgerðir inn og auðvitað líka aðgerðir sem boðaðar hafa verið gagnvart bændum, þannig að staðan gæti breyst mikið.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann einmitt út frá samsetningu ríkisstjórnarinnar og þeirri staðreynd að við erum núna að fara inn í kjarasamninga þar sem skiptir alveg gríðarlega miklu máli að vel takist til til að ná niður verðbólgu og vöxtum, hvort það sama eigi ekki við í því og mörgu öðru þegar kemur að efnahagsstjórninni, hvort samsetning ríkisstjórnarinnar muni ekki, (Forseti hringir.) ef menn halda ekki vöku sinni, leiða til of mikillar útgjaldaaukningar til að menn geti samið umfram framleiðniaukningu í samfélaginu.