154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[22:03]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. En ég bara vitna hérna í meirihlutaálitið, með leyfi forseta:

„Þegar íbúum fjölgar þetta mikið má gera ráð fyrir því að það hafi veruleg áhrif á eftirspurn eftir t.d. húsnæði, vörum og þjónustu. Með slíkri fólksfjölgun má einnig gera ráð fyrir verulegri aukningu á eftirspurn eftir opinberri þjónustu sem hefur áhrif á ríkisútgjöldin.“

Ég var ekki að tala um að ferðaþjónustan sem slík væri aðalorsakavaldurinn heldur um afleiðinguna, fólksfjölgunina. Það er spurningin raunverulega. Ef okkur fjölgar um 1.000 manns á mánuði næstu 12 mánuði eru þetta 120.000 manns á næstu tíu árum. Við erum að breyta Íslandi sem sagt, við erum þegar komin upp í 400.000 manns. En spurningin er: Hvernig eigum við að takast á við verðbólguna? Ég er sammála hv. þingmanni um að hlutleysi ríkisútgjalda gagnvart verðbólgu er hlægilegt. Eigum við bara að halda áfram að hækka stýrivexti út í það óendanlega? Eiga þá heimilin í landinu að greiða niður verðbólguna? Á að frysta húsnæðismarkaðinn algerlega? Eiga íbúar í þessu landi algerlega að bera þá byrði (Forseti hringir.) að berjast gegn verðbólgunni? Hver á að berjast gegn verðbólgunni? Eru það bara húsnæðiseigendur? (Forseti hringir.) Ég bara spyr. Þetta er opin spurning, gjörðu svo vel.