154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[22:57]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er aðhald, það eru krónugjöldin 3,5%, sem er þá 2% undir áætlaðri verðbólgu. Það er að koma inn aðhald vítt og breitt. Auðvitað hefði ég persónulega viljað sjá meira aðhald og að því er stefnt, eins og ég kom inn á, með ýmsa þætti í minni ræðu, samanber einn þátt sem er vinnutímastyttingin. Ég er viss um að hv. þingmaður mun vera með mér í því í fjárlaganefnd að tala um þessa hluti eins og vinnutímastyttingu og annað. Við þurfum að vera með virkilega yfirsýn og, eins og hv. þingmaður kom inn á hérna fyrr í dag, vera með alvöruaðhald í gegnum nefndina, yfirsýn yfir hvernig hlutir eru að þróast. Það er sérstaklega eitt sem ég vil koma inn á og ég hef verið að tala svolítið um í haust, þ.e. að þegar við setjum upp kerfi í fjárlagagerðinni — þjónustu og svo eru framkvæmdir og annað — séum við með virkilegt eftirlit og eftirfylgni með verkefnunum eftir að þeim er lokið. Ég held að það gæti nú kannski verið það sem myndi hafa mest að segja og gæti verið til mestrar eftirbreytni í störfum nefndarinnar ef við færum að fylgjast betur með framkvæmdum og verkefnum sem við förum í af hálfu ríkisins, hvort það sé árangur eða ásættanlegur árangur í því og endurmeta þá hvernig það hefur allt gengið fyrir sig. Ég held að það sé raunverulega það sem þarf að gera. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um það, með yfir sjö ára sögu í fjárlaganefnd. (Gripið fram í.) Hér stendur líka þingmaður sem var með okkur í nefndinni og var þar í tíu ár. Þetta er það sem við þurfum einhvern veginn að setja í búning, hvernig við ætlum að fylgja eftir verkefnum ríkisins, bæði fjárfestingum og þeim kerfum sem við setjum upp.