154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:14]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ágústi Bjarna Garðarssyni fyrir andsvarið. Ég tek undir margt af því sem þarna kom fram og tek undir það að við þurfum öll að leggjast á eitt. Þetta er auðvitað eitthvað sem sveitarfélögin þurfa að huga að og auðvitað ríkisvaldið líka og þó að ég sé mikill markaðshyggjumaður þá er ástandið á þessum markaði akkúrat núna svolítið þannig að kannski er ekki bara hægt að stóla á óheftan markaðinn. En látum það liggja á milli hluta í bili. Ég ætla líka aðeins að fá að vera gagnrýninn á þessi fjárlög að því leytinu til, af því að hv. þingmaður tilheyrir stjórnarliðinu og stjórnarmeirihlutann, að það er talað um það í áliti meiri hlutans — nú veit ég að hv. þingmaður er ekki í fjárlaganefnd en hann styður þessa ríkisstjórn — að selja eigi hluta af Íslandsbanka en síðan ítrekar meiri hlutinn mikilvægi þess að staðið sé að sölunni á næsta ári til að auka sjóðstreymi til ríkisins og minnka lánsfjárþörf meðan vaxtastig er hátt. Þetta finnst mér alltaf segja að menn eru svo fljótir að fara í fyrsta viðbragð sem er þá einhverjar lántökur sem eru mjög dýrar auðvitað núna, við sjáum það á vaxtagjöldum sem ríkissjóður er að borga á þessu og næsta ári. Mér finnst þetta pínulítið vera eins og menn séu að gefast upp fyrir því verkefni að stundum er hægt að mæta hlutunum með erfiðum, sársaukafullum en nauðsynlegum hagræðingaraðgerðum. Ég ætlaði kannski að fá hv. þingmann til að svara þessu. Eru menn ekki svolítið fljótir að grípa í lántökurnar og skattahækkanir hjá þessari ríkisstjórn þegar aðhaldið í raun og veru ætti að vera það sem væri númer eitt, tvö og þrjú?