154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:16]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og andsvarið. Ég er sammála hv. þingmanni í því að við þurfum að gæta að því, eins og ég nefndi í ræðu minni, að vera með eðlilegt aðhald, sérstaklega á þessum tímum. Varðandi bankasöluna þá styð ég þessar fyrirætlanir sem koma fram í frumvarpinu og legg auðvitað áherslu á það, mér heyrðist þingmaðurinn vera að ýja að því að söluandvirðið myndi renna inn í reksturinn, að það er eitthvað sem má aldrei gerast. Annaðhvort fer þetta í niðurgreiðslu skulda eða í einskiptisframkvæmdir, einskiptisinnviðaframkvæmdir en ekki inn í einhvern rekstur sem verður svo til þess að við gerum ráð fyrir þessari upphæð ár eftir ár. Ég held að þetta sé mjög brýnt og að salan geti stutt við það að við getum farið í mjög nauðsynlegar framkvæmdir eða jafnvel greitt niður skuldir. Það eru mínar áherslur.

Ég tek alveg undir það með hv. þingmanni að við erum með þær aðstæður að við þurfum stöðugt að horfa í hverja krónu en á móti kemur, við þurfum líka að horfa til þess, að okkur er að fjölga. Ég nefndi að okkur er að fjölga um þúsund á hverjum mánuði, 12.000 á síðasta ári. Þetta ýtir auðvitað undir þrýsting á allt velferðarkerfið okkar, heilbrigðiskerfið, félagsþjónustuna, skólana o.s.frv. Það verður til þess að þetta bákn, sem margir ræða nú um, samhliða þessu blæs út, ef svo má segja. Það verður að taka tillit til þess í allri þessari umræðu. En svo getum við auðvitað farið í aðra og stærri umræðu um sameiningar stofnana og annað slíkt til þess að spara fjármuni.