154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[23:07]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Nei, það er sko alls ekki þreytandi að hlusta á hv. þingmann. Þetta var prýðisgóð ræða, þakka þér kærlega fyrir. Það sem ég velti hins vegar aðeins fyrir mér er að í ræðum nokkurra þingmanna hérna er talað um mikinn útgjaldavöxt o.s.frv. Já, já, það eru miklu fleiri krónur sem fara í hin og þessi málefni en krónurnar eru líka verðlausari. Þessi blessaði gjaldmiðill okkar er eins og hann er, þannig að þó að við séum með miklu fleiri krónur í verga landsframleiðslu heldur en á árum áður þá eru þær verðminni og þannig færri. Ég kemst næst því að reyna að bera saman stöðu fyrri ára og ársins í ár eða næsta árs fyrir fjárlögin með því að bera saman hversu stór hluti hið opinbera eða ríkissjóður er af vergri landsframleiðslu.

Undanfarna þrjá áratugi hefur rétt tæplega 31% af vergri landsframleiðslu verið útgjöld ríkisins. Tekjur ríkisins hafa hins vegar verið 30,5%. Þarna munar næstum því hálfu prósenti á því sem ríkið hefur í tekjur og þeim útgjöldum sem eru. Þar af leiðandi hefur verið hallarekstur á ríkinu, samtals, en hlutfall útgjalda og tekna er í rauninni mjög svipað og það hefur verið áður, það er bara í kringum þennan þriðjung eða svo. Við sjáum helst muninn á ríkisstjórninni núna og áður á því að tekjur eru minna hlutfall af vergri landsframleiðslu heldur en þær voru áður, (Forseti hringir.) heldur en langtímameðaltalið. Það virðist því ekki vera eins og það sé endilega útgjaldavandamál (Forseti hringir.) miðað við fyrri ár heldur tekjuvandamál. Þau eru ekki að ná sömu tekjum af landsframleiðslu og fyrri ríkisstjórnir, sem er dálítið merkilegt.