154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[23:56]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Í umræðunni hér um fjárlögin hefur stjórnarmeirihlutinn kallað 47 milljarða hallann aðhaldssemi. Það er auðvitað rangnefni en það er svo sem hægt að sýna því skilning að meiri hlutinn er sennilega að vísa í eigin framgöngu við gerð fjárlaga síðustu ár. Við erum hér hins vegar að ræða fjárlög sem hafa áhrif á fólk, áhrif á fyrirtæki, stofnanir og heimili sem búa í raunheimum núna og ekki bara í raunheimum heldur í íslenskum veruleika. Sá veruleiki einkennist af langvarandi verðbólgu með sínum sársaukafullu fylgifiskum. Í besta falli eru þessi fjárlög hlutlaus í baráttunni við verðbólguna og þá er eðlilegt að spyrja: Er einhver sem heldur því fram að það sé nógu gott á sama tíma og heimili landsins búa við vaxtaofbeldi sem er ætlað að draga úr þenslu og temja verðbólguna? Svarið er auðvitað nei. Á svona tímum á ríkið að forðast að auka skuldir með því að draga úr útgjöldum sem eru fjármögnuð með halla.

Það væri óskandi að stjórnvöld beittu ríkisfjármálunum af afli í baráttunni við verðbólguna en létu ekki heimili landsins að mestu um þann slag. Fyrir því hefur Viðreisn talað linnulítið og mun láta verkin tala þegar færi gefst. Við vitum að það kemur að skuldadögum og við viljum ekki að heimili landsins beri þá byrði ein. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgunni hafa verið máttlausar og fyrir vikið eru stýrivextir áfram háir. Fólk hefur séð lánin sín hækka margfalt, sem setur heimilisbókhaldið í uppnám. Um það vitna metfjárhæðir í yfirdráttarlánum, met sem nemur yfir 100 milljörðum kr. á metvöxtum í metvaxtaumhverfi. Öll eru þessi met alveg svakalega lítið eftirsóknarverð. Yfirdráttarlán eru dýrustu lán sem heimilum standa til boða, dýr lán í dýru lánaumhverfi. Í þessu landi sturlaðra vaxta taka sennilega fá heimili slík lán nema brýna nauðsyn beri til. Umboðsmaður skuldara segir enda þetta skýrt dæmi um að róðurinn hjá heimilum sé farinn að þyngjast verulega. Þetta er neyðarúrræði sem hefur verið kallað dulin vanskil.

Við þekkjum ótal dæmi um fjölskyldur, oft ungar barnafjölskyldur sem hafa komið sér þaki yfir höfuðið, undirbúið þau kaup vel og gert ráð fyrir ákveðinni greiðslubyrði. Þessar fjölskyldur búa nú við margfalda slíka greiðslubyrði þar sem viðbótargreiðslan getur numið hundruðum þúsunda á mánuði. Það er ekki bara það að hún fari öll í vexti heldur hefur mánaðarleg greiðsla inn á höfuðstól láns líka lækkað í mörgum tilfellum. Þetta er staðan núna og svo þegar öskrað er úr öllum áttum á ríkisstjórnina að nota ríkisfjármálin til að sýna aðhald, til að hjálpa í baráttunni við verðbólgu — eins galið og það nú er að það þurfi að hvetja stjórnvöld til að taka þátt í því verkefni — þá er það gert með ostaskeraaðferðinni þar sem sem flatastur niðurskurður er á sem flestum málaflokkum eða verkefnum af því að það er þægilegast, átakaminnst fyrir ríkisstjórnina en sannarlega ekki fyrir aðra. Þekkist eitthvert heimili sem myndi bregðast svona við efnahagslegum erfiðleikum? Myndi eitthvert fyrirtæki sem nálgast málin svona verða langlíft? Ég er hrædd um ekki.

Það eru ekki bara heimilin sem greiða háa vexti. Vextir af lánum sem ríkisstjórnin hefur tekið munu nema 117 milljörðum kr. á næsta ári. Fyrir þá fjárhæð væri hægt að fjórfalda framlög til lögreglunnar og næstum tvöfalda framlög til sjúkrahúsþjónustu. Auðvitað er það grátlegt að ríkissjóður, sem er þrátt fyrir allt hóflega skuldsettur, sé með þessa sturluðu vaxtabyrði, langt umfram það sem ríkissjóðir annarra og skuldsettari landa bera. Það er pólitísk ákvörðun að svona sé þetta, pólitísk ákvörðun að bjóða heimilum og minni fyrirtækjum landsins, þeim sem eru fastir í krónuhagkerfinu, bjóða þeim og ríkissjóði upp á þessa stöðu, upp á þessa ógnarvexti, af því að íslenska krónuhagkerfið er hávaxtaumhverfi. Það er staðreynd. Óábyrgar yfirlýsingar stjórnmálamanna í kosningaham, stjórnmálamanna sem vissu betur en töluðu samt um að hér væri komið lágvaxtaumhverfi til skemmri tíma, breyta engu um þá staðreynd að íslenska krónuhagkerfið er hávaxtaumhverfi. Þetta er staðan og á meðan þetta er staðan þá blasir stöðnun við í lífskjörum á Íslandi, sérstaklega hjá millistéttinni sem býr við það að nær öllum kostnaði af verðbólgu og vaxtahækkunum er velt yfir á hana og launin duga skemmra en áður. Það er þess vegna sem við þurfum að sýna heimilum landsins stuðning og ég kem aðeins að því á eftir.

Viðreisn hefði ekki skilað af sér fjárlögum á borð við þau sem eru hér til umræðu og afgreiðslu. Viðreisn hefði dregið úr ónauðsynlegum útgjöldum eins og þeim sem fólust í fjölgun ráðherrastóla og Viðreisn myndi forgangsraða í þágu heimila með því að láta vaxtabætur, barnabætur og húsnæðisbætur ná tímabundið hærra upp tekjustigann. Til lengri tíma verðum við síðan að komast úr þeirri stöðu að ríkið þurfi að niðurgreiða vaxtakostnað. Staðan er hins vegar sú að sveiflukenndir og háir vextir munu alltaf fylgja því að vera með örgjaldmiðil. Það er pólitísk ákvörðun og henni er ekki breytt hér og nú. En það er hægt að gera betur við gerð og afgreiðslu fjárlaga, jafnvel í því umhverfi og ekki síst er þörfin á betri vinnubrögðum við gerð fjárlaga í því umhverfi sem við búum við núna. Viðreisn hefði ekki skilað svona fjárlögum. Við hefðum farið öðruvísi að því að uppfylla aðhaldskröfuna, við hefðum tekið ábyrgð á því hvaða verkefnum yrði frestað, hvaða verkefnum yrði sleppt, haft skoðun á forgangsröðun og þar með borið á henni ábyrgð, alveg sama hversu erfitt eða óvinsælt það hefði orðið. Þetta er einfaldlega merki um grundvallarágreining um hlutverk fjárlaga og grundvallarágreining um ábyrgð stjórnvalda í stöðunni.

Stærsta verkefni stjórnmálanna núna er viðureignin við verðbólguna. Við verðum að ná henni niður en það er ekki sama hvernig það er gert. Tregða ríkisstjórnarinnar við að ná henni niður, þessi tregða við að taka sér raunverulegt hlutverk við að koma jafnvægi á hagkerfið og gegn þenslu, hefur orðið til þess að Seðlabankinn hefur tekið mun harkalegri ákvarðanir í vaxtamálum en hefði þurft ef ríkisstjórnin hefði axlað sína ábyrgð. Á ekki svo löngum tíma hækkaði Seðlabankinn stýrivexti 14 sinnum. Þessar hækkanir svíða eins og sést m.a. á þessu lítt eftirsóknarverða meti sem nú hefur verið slegið varðandi upphæð yfirdráttarlána heimilanna, 100 milljarða í duldum vanskilum. Viðreisn er auðvitað ekki ein um þessa gagnrýni á ríkisstjórnina, hún heyrist hér innan úr þinginu, en hún heyrist líka utan að. Seðlabankinn orðaði það t.d. mjög snyrtilega en jafnframt skýrt þegar hann sagði þetta fjárlagafrumvarp hlutlaust gagnvart verðbólgunni. Gagnrýni frá hagsmunaaðilum á borð við BHM, ASÍ og Samtök atvinnulífsins er skýr. Þessir aðilar eru alla jafna ekkert endilega svo mikið sammála um alla hluti en þeir eru sammála í gagnrýni sinni á ríkisstjórnina fyrir skort á aðgerðum í baráttunni gegn verðbólgu.

Herra forseti. Hér hafa fjölmargir þingmenn farið með ítarlegum hætti yfir efnisatriði frumvarpsins, ekki síst þá eðlilega fulltrúar í fjárlaganefnd og þeir hafa snert helstu þætti samfélagsins sem fjárlagafrumvarpið nær til. Þeirra á meðal er hv. þingmaður Viðreisnar, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, sem er áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd. Ég ætla því ekki að ræða málin af sömu nákvæmni hér en bendi hins vegar á góða yfirferð hv. þm. Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur. Það eru nokkur atriði sem mig langar að nefna sérstaklega. Tekjur ríkisins aukast mikið milli ára, m.a. vegna verðbólgu. Þær tekjur munu svo hverfa aftur með verðbólgunni þegar hún sjatnar og þess vegna er ekki skynsamlegt að nota þær tekjur inn í útgjöld. Þetta hefur verið gagnrýnt af umsagnaraðilum frumvarpsins þar sem talað er um tekjufroðu þegar þessar tilteknu tekjur eru ræddar. Fjármálaráð gagnrýndi líka ríkisstjórnina fyrir að verja þessum nýju tekjum, og öðrum nýjum tekjum í raun og veru, ekki sjálfkrafa í ný — verja þeim til að greiða niður skuldir frekar en að eyða þeim sjálfkrafa inn í útgjöld. Þetta er ábending sem hefur reyndar verið endurtekin reglulega á líftíma ríkisstjórnarinnar síðustu sex ár en það er auðvitað drepleiðinlegt að greiða niður skuldir. Það eru engar borðaklippingar þegar skuldir eru greiddar niður og eiginlega varla hægt að henda í eitt stykki blaðamannafund eða svoleiðis, en það er mikilvægt fyrir heimilin og atvinnulífið.

Hallinn á ríkisfjármálunum hefur verið eitt helsta einkennismerki ríkisstjórnarinnar síðustu sex ár frá upphafi sambandsins og mun sennilega fylgja henni allt til loka. Þetta er alvörueinkennismerki. Þetta hefur raunverulega verið algjörlega óháð efnahagsaðstæðum. Hallinn var til staðar fyrir heimsfaraldur, hallinn var til staðar í heimsfaraldri og hallinn var til staðar eftir heimsfaraldur. Raunverulega er hinn eiginlegi faraldur okkar í efnahagsmálum ekki heimsfaraldur heldur ríkisstjórnarsamstarfsfaraldur Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs þegar kemur að meðferð fjármuna. Allan þennan tíma hefur Viðreisn varað við faraldrinum og bent á lækninguna, ekki bara boðið fram verkjalyf heldur bent á lækninguna, bent á mikilvægi þess að fara vel með fjármuni ríkisins, með fjármuni skattgreiðenda. Til þess þarf sterk bein, pólitískt úthald, skýra sýn og sett markmið, eftirfylgni, getu og þor til að forgangsraða og sæmilega samstöðu þeirra flokka sem leggja saman af stað í þá vegferð að vinna í þágu almennings. Á þetta skortir tilfinnanlega hjá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna.

Ég nefndi hér áðan að ég ætlaði að tiltaka nokkur atriði frekar en að fara í heildaryfirferð sem sannarlega hefur verið farið í af hálfu ýmissa þingmanna hér síðustu daga. Eitt af því sem mig langaði að nefna, af því að það er svo blóðugt í stöðunni, er fórnarkostnaður síendurtekinna vaxtahækkana vegna vangetu ríkisstjórnarinnar. Það liggur við að það sé hægt að tala um áhugaleysi ríkisstjórnarinnar til að takast á við verðbólguna að einhverju marki. Ein afleiðingin er sú að byggingamarkaður og fasteignamarkaður eru á leið í alkul. Vaxtahækkanirnar hafa auðvitað neikvæð áhrif á byggingaráform verktaka þannig að fyrir framan nefið á okkur er að teiknast upp ný fasteignabóla. Þetta er enn ein áskorunin sem mun sennilega enda í fanginu á heimilum landsins að bera margvíslegan kostnað af, bæði áþreifanlegan og óáþreifanlegan.

Svo verð ég að nefna ástandið í fangelsum landsins. Fangelsin á Íslandi hafa ekki burði til að sinna föngum í geðrofi og ég verð að segja að mér rann eiginlega kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég heyrði hv. þingmann Viðreisnar, Sigmar Guðmundsson, ræða stöðuna í þeim málaflokki hér áðan. Þetta er skelfilegt. Fangelsi á Íslandi hafa heldur ekki burði til að taka á móti körlum og konum sem hafa verið dæmd til fangelsisvistar. Á síðustu árum hafa 275 refsidómar fyrnst hér á landi, þar af fjórir kynferðisbrotadómar og 31 dómur fyrir ofbeldisbrot. Þetta kom fram í skriflegu svari ráðherra dómsmála við skriflegri fyrirspurn títtnefnds hv. þm. Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur. Hvernig dettur stjórnvöldum í hug að bjóða upp á þessa stöðu? Hvar er forgangsröðunin? Hvað er fólk að hugsa?

Svo verð ég að nefna þær fréttir sem hafa borist af því hvernig Ísland er í frjálsu falli þegar kemur að hæfni grunnskólanemenda samkvæmt niðurstöðum alþjóðlegu PISA-könnunarinnar sem voru kynntar í gær. Þetta á jafnt við í lesskilningi, stærðfræðilæsi og náttúruvísindum. Einkunn Íslands hefur lækkað einna hraðast frá síðustu mælingu sem var 2018. Nú er það ekki svo að hér á landi fari lægra hlutfall landsframleiðslu til grunn- og framhaldsskóla en í öðrum OECD-ríkjum. Því er reyndar öfugt farið, við erum með næsthæstu framlögin hlutfallslega. Þetta er hins vegar birtingarmynd þess að það skiptir ekki öllu máli hversu mikill peningur er settur í málaflokka þegar hitt skortir; skýra framtíðarsýn, markmiðasetta stefnu með mælanlegum mælikvörðum og pólitískan vilja og úthald til að framfylgja stefnunni, forgangsröðun fjármuna í verkefni sem skipta máli.

Það er gríðarlega alvarlegt ef við höfum ekki burði til að búa svo um hnútana að skólakerfið okkar geti sinnt nemendum. Það er þyngra en tárum taki að sjá vísbendingar um að félagslegar og efnahagslegar aðstæður foreldra skipti sköpum þegar kemur að árangri nemenda í skólakerfinu okkar. Það er óásættanlegt að börn af erlendum uppruna standi hallari fæti og fái lakari tækifæri til að njóta sín í skólunum okkar en önnur börn. Það er líka glatað að nemendur sem skara fram úr njóti sín ekki heldur í því umhverfi sem við bjóðum upp á. Við erum eiginlega ekki að huga almennilega að neinum hópi nemenda. Það leiðir bara til eins: Út úr skólakerfinu okkar koma börn með skert tækifæri til að njóta sín í framtíðinni og það er vont fyrir þau, augljóslega. Við erum að ræna þau tækifærum. Þetta hefur líka svakalegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag. Ein birtingarmyndin — ef ungmenni koma út úr skólunum okkar án getu til að lesa sér til gagns, til að lesa, tala, rökræða, hugsa á íslensku, hvaða verkfæri eiga þau þá til að takast á við áskoranir framtíðarinnar? Okkur er tíðrætt um hvað gervigreindin muni hafa í för með sér, þau tækifæri og þær áskoranir sem búa í þeirri þróun. Ef við hysjum ekki upp um okkur og förum að sinna þessum málum þá erum við að búa svo um hnútana að frekar en að geta nýtt sér þau tækifæri sem búa í þróun gervigreindar mun unga fólkið okkar ekki geta svarað áskorunum gervigreindarinnar. Þetta má ekki gerast. Við þurfum að forgangsraða í verkefni sem skipta máli og klára þau.

Heilbrigðisþjónustan okkar líður svo heldur betur fyrir skort á stýringu og forgangsröðun. Ég hef um árabil rætt reglulega við fjölda fólks inni í heilbrigðiskerfinu. Ég finn núna fyrir vaxandi óþoli stjórnenda í kerfinu gagnvart því hvað það skortir á stýringu þar, forgangsröðun og stýringu. Það er alls staðar sama stefið.

Svo verð ég að nefna það sem kom fram í ræðu hv. þm. Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, sem er áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd, hvað það vantar gögn til að byggja undir mikilvægar og nauðsynlegar ákvarðanir. Meiri hlutinn nefnir þetta sjálfur í áliti sínu, það vanti gögn um hvaða aðgerðir gagnist best á húsnæðismarkaði, það vanti gögn til að byggja á ákvarðanir um ferðaþjónustu, það vanti gögn um áhrifin af styttingu vinnuvikunnar, það vanti gögn um ótrúlega fólksfjölgun hér á landi o.s.frv. Auðvitað er þetta grunnurinn að því að fjármunum sé stýrt í rétta átt. Auðvitað er þetta grunnurinn að því að við mörkum framtíðarsýn og fylgjum henni eftir af einhverju viti. Auðvitað er þetta grunnurinn að því að við vitum yfir höfuð hvað við erum að gera þegar við afgreiðum fjárlög upp á 1.400 milljarða kr.

Svo langaði mig að nefna, af því að ég nýt þeirra forréttinda hér í ræðustól að geta bara valið og hafnað þeim málum sem mig langar sérstaklega að nefna, eftir ítarlega yfirferð svo margra um plaggið í heild, að þegar við höfum í huga að almenningur á Íslandi greiðir háa skatta þá er eðlilegt að spyrja af hverju markviss fjárfesting í ákveðnum grunnþáttum er ekki meiri en hún er. Ég nefni löggæslu, ég nefni heilbrigði, ég nefni samgöngur. Skortur á gögnum, feimni við forgangsröðun. Ég nefni feimni af því að ég veit ekki alveg hvaða orð ég á að nota. Það er ekki vangeta, það geta allir forgangsraðað. Menn þurfa bara að fara í verkefnið. Svo er svakalegur vaxtakostnaður ríkissjóðs í boði krónuhagkerfisins. Þegar allt þetta er haft í huga þá teiknast myndin auðvitað upp vegna þess að þessir þættir draga aftur úr getu stjórnvalda til að fjárfesta í innviðum og þjónustu fyrir fólkið í landinu.

Það vantar aðhald. Það vantar forgangsröðun. Staðan er þar með grafalvarleg fyrir þorra heimila landsins vegna verðbólgu, vegna vaxta, vegna skuldsetningar ríkissjóðs sem kostar ríkið gríðarlegar fjárhæðir í vaxtagreiðslur, vegna þess að ríkið fer ekki vel með peninga, vegna þess að ríkisstjórnin forgangsraðar ekki í þágu heimila landsins. Þess vegna þarf núna að sýna heimilum landsins stuðning. Viðreisn hefur talað endurtekið síðustu ár fyrir aðhaldi og fyrir forgangsröðun. Við stöndum fyllilega við þá tillögu okkar og skoðun að nú þurfi heimili landsins sérstakan stuðning af því að við búum við þessar aðstæður sem heimili landsins hafa verið þvinguð í. Það þarf tímabundnar vaxtabætur, barnabætur og húsnæðisbætur og þær þurfa að ná hærra upp tekjustigann en áður. Þetta myndi Viðreisn gera af því að þetta er hið rétta að gera í stöðunni eins og hún er. Þetta eru tímabundin úrræði í ljósi þess að millistéttin horfir nú aftur á tímabil kaupmáttarstöðnunar og skynsamleg velferðarstefna snýst um að forgangsraða fjárfestingu í þágu almannahagsmuna. Aðhaldssemi og forgangsröðun annars staðar myndi hjálpa til í baráttunni gegn verðbólgunni, lækka vaxtagreiðslur með því að greiða niður skuldir ríkissjóðs til skemmri tíma og ég er hér eingöngu að tala um þetta fjárlagafrumvarp til næsta árs.

Þegar ég fæ færi á mun ég halda áfram umræðunni um langtímalausnina sem við í Viðreisn höfum ítrekað talað fyrir. Það er að fleygja þessari krónu sem hefur valdið svo mörgum heimilum og fyrirtækjum miklum búsifjum. Ef þetta fer saman, aðhald og skynsamleg forgangsröðun, niðurgreiðsla skulda, þannig að þessum hagstjórnartækjum verði fyrir alvöru beitt til að vinna bug á verðbólgunni, þannig að vextir geti lækkað eitthvað, þá er hægt að búa svo um hnútana að þessi innspýting, þessi stuðningur við heimili í stöðunni, verði tímabundinn og það er nauðsynlegt. Það eru of mörg heimili komin inn að beini og það gengur ekki að láta þau ein um baráttuna.

Eins og ég sagði, þetta eru fjárlög upp á 1.400 milljarða kr. og eðlis málsins vegna gæti ég lengt mál mitt hér töluvert með því að ræða um mörg jákvæð og nauðsynleg atriði sem þar eru fjármögnuð. Það er hins vegar eðlilegt og sjálfsagt og margt sem breytist í sjálfu sér ekki frá ári til árs. Staðreyndin er hins vegar sú að grunnþátturinn í þessu fjárlagafrumvarpi er rangur. Það er tímaskekkja í honum. Þetta eru ekki fjárlög sem takast á við raunverulega stöðu í raunheimum í íslensku krónuhagkerfi haustið 2023. Þetta eru ekki fjárlög sem virðast skilja, hvað þá viðurkenna, þann vanda sem svo mörg heimili standa frammi fyrir núna. Þar með eru þetta ekki fjárlög sem við í Viðreisn styðjum.