154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

aðgerðir stjórnvalda í málum aldraðra og öryrkja.

[10:42]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Niðurstöður nýrrar rannsóknar Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins og Öryrkjabandalags Íslands voru kynntar í gær, miðvikudaginn 6. desember. Könnuninni svöruðu 3.585 manns með annaðhvort örorku- eða endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk frá TR í október 2023. Ríflega þriðjungur öryrkja býr við efnislegan skort eða verulegan efnislegan skort. 20% öryrkja búa við verulegan skort eða sárafátækt. 70% geta ekki mætt óvæntum útgjöldum án þess að stofna til skuldar. 40% öryrkja geta ekki greitt kostað vegna tómstunda eða félagslífs og geta ekki gefið börnum sínum jóla- eða afmælisgjafir. 25% einhleypra mæðra og öryrkja hafa þurft mataraðstoð á síðastliðnu ári. Helmingur einhleypra foreldra á örorku getur ekki veitt börnum sínum nauðsynlegan klæðnað eða eins næringarríkan mat og þau vilja eða greitt útgjöld vegna félagslífs barna sinna eða haldið afmæli eða veislur fyrir börnin sín. 60% öryrkja finna fyrir mjög mikilli eða frekar mikilli félagsleg einangrun. Rúmlega 40% öryrkja hafa neitað sér um tannlæknisþjónustu, sjúkraþjálfun, sálfræðiþjónustu og er algengasta ástæðan sú að heilbrigðisþjónustan kostar of mikið. Hátt hlutfall hefur nær daglega hugsað um að það væri betra ef þau væru dáin eða hugsað um að skaða sig.

Það er verið að útiloka úr samfélaginu um 10–15% aldraðra og fatlaðs fólks með því að banna þeim að nota íslykilinn frá og með næstu áramótum. Hvers vegna? Þá er verið að útiloka fatlað fólk frá því að eiga samskipti við Skattinn, Sjúkratryggingar, banka og island.is. Hvað er í gangi hjá ríkisstjórninni? Bara af því að þið sem eruð með völdin í þessu máli teljið ykkur þurfa að hafa vit fyrir þessum hópi fólks og það hefur ekkert val annað en að nota ykkar heilögu rafrænu skilríki. Það er algjörlega út í hróa hött að leggja íslykilinn niður um áramótin. Það gengur bara ekki upp. (Forseti hringir.) Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera í þessum málum? Hvernig ætlar hann að bregðast við þessum niðurstöðum könnunarinnar í könnuninni og sjá til þess að aldrað og fatlað fólk verði ekki útilokað frá samfélaginu?