154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

aðgerðir stjórnvalda í málum aldraðra og öryrkja.

[10:44]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég vil byrja á því að segja að ég tek þessa skýrslu frá Vörðu að sjálfsögðu alvarlega. Rannsóknin bendir til margra sömu þátta og fyrri rannsóknir og kannski ekki síst að staða einhleyps barnafólks á leigumarkaði er alvarleg, en hv. þingmaður taldi líka upp fleiri hópa hér áðan.

Mig langar að vitna aðeins í skýrslu forsætisráðherra um fátækt og áætlaðan samfélagslegan kostnað hennar frá því í júní á þessu ári en þar kemur fram, sem eru jákvæð tíðindi, að það hefur dregið úr hlutfalli tekjulágra á Íslandi á síðustu 20 árum og að staðan er með því besta sem þekkist meðal samanburðarlanda hér á Íslandi. En líkt og Vörðuskýrslan og mörg önnur gögn sýna okkur þá er samt sem áður verk að vinna á Íslandi við að draga úr fátækt. Í mínum huga þegar við horfum til örorkulífeyriskerfisins og örorkulífeyrisþega þá þarf að gera umfangsmiklar breytingar á örorkulífeyriskerfinu og eins og hv. þingmaður veit er sú vinna í fullum gangi í ráðuneyti mínu. Þetta er ástæðan fyrir því að við erum með um 16 milljarða kr. aukningu í fjármálaáætlun inn í málaflokkinn og vinnum að frumvarpi í ráðuneytinu núna hvað þetta varðar.

Áhersla mín mun verða á að sameina bótaflokka, einfalda kerfið, hækka þau sem minnst hafa í kerfinu, bæði grunninn en líka beita frítekjumörkum með þeim hætti að fyrstu tekjur fólks sem það hefur umfram örorkubætur séu ekki skertar og skerðingar komi síðan eftir því sem tekjurnar hækka. Ég held að breytingar á örorkulífeyriskerfinu, (Forseti hringir.) sem við vonandi sjáum fram á að komi inn í þingið sem fyrst eftir áramótin, verði næsta stóra skrefið til að draga úr fátækt á Íslandi.