154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

238. mál
[11:34]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og formanni allsherjar- og menntamálanefndar fyrir ræðuna. Ég vil byrja á að taka undir það að mjög margt búi í íslenskum ungdómi og nemendum og við höfum mjög marga styrkleika, m.a. í samanburði við Norðurlöndin, þar á meðal að það er ákveðið frumkvæði hérna. Við höldum vel utan um börnin, þau tilheyra skólum o.s.frv.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um það að nú skrifaði hún grein í fjölmiðil heimabæjar síns, Mosfellsbæjar, Mosfelling, þar sem hún talaði fyrir því að við myndum innleiða Kveikjum neistann víðar í landinu en einungis í Vestmannaeyjum, hvort ekki sé kominn tími til þess að skala það verkefni upp þannig að það fari í skóla og verði rúllað út í fleiri skólum, og að bókstafa-hljóðaaðferðin verði tekin upp sem grundvallaraðferðafræði við lestrarkennslu, líkt og önnur ríki hafa gert og lögleitt, eins og Bretland og Frakkland, og hún verði kennd kerfisbundið eins og fræðimaðurinn Stanislas Dehaene í Frakklandi hefur mælt með og Hermundur Sigmundsson.

Annað sem mig langaði að spyrja hana um er að hún talaði hér fyrir norrænu vísindaráði og talaði líka fyrir því í störfum þingsins fyrr í vikunni. Nú veit ég að Norðurlöndin hafa sínar eigin ráðgjafarstofnanir og rannsóknastofnanir á þessu sviði. Vissulega er gott að tengjast þeim en er ekki líka mikilvægt að við höfum okkar eigið vísindaráð með fremstu vísindamönnum sem eru þá líka að koma utan úr heimi til að veita ráðgjöf til þessarar nýju stofnunar, Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, og ráðherranna? Ég get ekki séð annað en að við verðum að gera það. Í síðustu lögum um Menntamálastofnun var ráðgjafarnefnd en einungis hagsmunaaðilar voru þar á bak við. Ég tel núna tímabundið að taka eigi upp fremstu vísindi og fremstu aðferðafræði. (Forseti hringir.) Það er gríðarleg þróun á þessu sviði, ekki síst á sviði taugasálfræði.