154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:57]
Horfa

Greta Ósk Óskarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig eins og marga aðra langar að ræða niðurstöður PISA-könnunarinnar. Mig langar dálítið að viðra mínar eigin vangaveltur um hvað mögulega gæti stuðlað að þessari ógnvænlegu þróun. Þetta eru náttúrlega sláandi niðurstöður og ég veit að mörgum er dálítið brugðið. Við þurfum að bregðast við þessari stöðu og við þurfum að rýna vel í þessar niðurstöður og kortleggja viðbrögð. Sumt getum við framkvæmd strax. Því mun ég leggja til eina einfalda breytingu á fjárlögum næsta árs.

Niðurstöður úr PISA-könnuninni voru kynntar í vikunni. Könnunin mælir hæfni 15 ára nemenda í lesskilningi, læsi á náttúruvísindi og læsi á stærðfræði. Niðurstöðurnar eru sláandi og vekja okkur auðvitað til umhugsunar. Árangur nemenda er lakari miðað við fyrri kannanir og lakari niðurstöður eru á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Það er helst Finnland sem kemst nálægt þessari dýfu Íslands í niðurstöðum en það eru ekki alveg jafn slæmar niðurstöður og við sjáum hjá okkur. Góðu fréttirnar eru að nemendum líður almennt vel í skólanum og upplifa að þeir tilheyri þar. Þeir hafa jákvæða upplifun af kennurum sínum og upplifa sjaldan einelti. Að þessu leyti er staða nemenda á Íslandi betri en hjá jafnöldrum þeirra í OECD-ríkjum og á Norðurlöndunum.

Ég heyri að áhyggjur eru uppi um að íslenskan sé að láta undan að einhverju leyti. Tungumálið okkar og orðin eru vinnutæki og verkfæri sem við notum til þess að eiga í samskiptum hvert við annað. Við notum tungumálið til að orða heiminn og lærdómur fer að miklu leyti fram með notkun á þessu verkfæri og í gagnkvæmum samskiptum við aðra og í gegnum sögur, frásagnir og efni sem við lesum. Ef börnin okkar missa niður færni í því að skilja og nota tungumálið, eða í sumum tilvikum hafa ekki fengið nægan stuðning og aðstoð til að læra tungumálið og beita því, þá hlýtur það að bitna á námi þeirra og frammistöðu á prófum og í skólanum. Það gefur augaleið. Ef börn eru að missa niður færni í að nota tungumálið þá hlýtur það að bitna á samskiptum þeirra, námi, leik, daglegu lífi, þátttöku í íþróttum og tómstundum. Það hlýtur að hafa áhrif þegar þau síðan fara út í samfélagið eftir að skólagöngu lýkur. Það er ekki gott að hugsa til þess að 40% nemenda eigi erfiðara með að bjarga sér úti í samfélaginu, námslega og við að nýta sér tungumálið, eftir að hafa gengið í skóla í tæp tíu ár. Eitthvað er þarna í veginum í ríkara mæli en áður var sem hlýtur að takmarka að einhverju leyti lífsgæði og tækifæri barnanna sem taka þátt í þessari könnun og gefa okkur vísbendingar um þessa stöðu.

Tungumálið er okkar samskiptamáti og tungumálið er grunnur hugsunarinnar. Ef við eigum erfitt með að forma okkar eigin hugsanir er okkur hættara við að önnur stærri hagsmunaöfl myndi hugsanirnar fyrir okkur og létti okkur lífið þannig. Hvernig eigum við að hugsa röklega, komast að kjarna málsins og greina veruleikann frá falsfréttum? Hvernig eigum við að vaða í gegnum upplýsingaóreiðu ef við höfum ekki nægan skilning á tungumálinu sjálfu sem verið er að beita? Bilið milli þeirra sem vita meira og þeirra sem vita minna virðist vera að aukast og skólinn sem á að vera jöfnunartæki virðist ekki vera að virka eins vel að því leytinu til og hann gerði áður. Þau sem standa félagslega verr eru að koma verr út úr PISA-könnuninni. Það er áhyggjuefni og gæti leitt til meiri misskiptingar í samfélaginu, en það er þekkt stærð að því meiri munur sem er á fólki þegar kemur að eignum, tækifærum og aðgengi að ýmsum lífsgæðum því óheilbrigðara er samfélagið sjálft óhjákvæmilega í kjölfarið. Við þurfum að grípa inn í af festu og snúa þessari þróun rakleiðis við. Ljóst er af niðurstöðunum að stjórnvöld, sveitarfélög, stofnanir og samtök þurfa að leggjast á eitt til að skilja ástæður þessarar neikvæðu þróunar sem kemur fram í könnuninni og bregðast við.

Mig langar að ræða aðeins hvaða þættir gætu legið að baki með þeim mikla fyrirvara að þetta eru einungis mínar vangaveltur og hugleiðingar því að það er ekki búið að rannsaka þetta nákvæmlega. Ég er hvorki sérfræðingur í skólakerfinu okkar né þeirri starfsemi sem þar fer fram en ég þekki ágætlega til annarra þátta sem gætu haft áhrif á niðurstöður hér. Það sem er oft nefnt, og er kannski augljóst, er að það reið yfir heimsfaraldur og viðbrögð við honum sem hafði augljóslega margvísleg áhrif á skólastarf, kennara, nemendur og foreldra. Gripið var til víðtækra lokana á skólum í meiri hluta þeirra landa sem tóku þátt í PISA-könnuninni í þetta sinn. Þegar börn voru lokuð af heima hjá sér og foreldrar þurftu að vinna heima er líklegt að tölvu-, sjónvarps- og símanotkun þeirra hafi aukist á því tímabili og e.t.v. hefur það skapað venjur sem enn gætu verið að marka daglegt líf hjá þessum börnum. Nú lifum við tímum þar sem vaxtastig er hátt og verðbólga er mikil. Það getur hæglega leitt til meira vinnuálags hjá foreldrum og minni tíma aflögu við að hjálpa börnum við heimanám eða að hlusta á hvernig dagurinn þeirra var. Afkoman þarf væntanlega fyrst að vera tryggð áður en hlúð er að menntuninni. Aukið álag og lélegri lífsgæði eru kannski að birtast í þessum PISA-könnunum en kannski þurfa börn bara að fá aðeins meiri athygli, það gæti verið. En börnum þarf að líða vel, hið minnsta bærilega, og fá góða fæðu og hafa athygli til að þau geti lært, á heimilinu og í skólanum. Allt sem vegur að öryggi, heilsu og gæðum á fæðu og hvíld, allt sem vegur að geðheilsu og allt sem vegur að leik- og fjölskyldustundum hlýtur sjálfkrafa að vega að getu barns til að læra. Ef við viljum koma vel út úr PISA-könnun næst þá getum við kannski t.d. sett í gang frekari aðgerðir til að vinna bug á misskiptingu og fátækt. Kannski hafa langir dagar í leikskóla, stutt fæðingarorlof og stressaðir foreldrar í mikilli vinnu áhrif á líðan barna og getu til þess að taka inn lærdóm í skólanum. Við lifum náttúrlega á svolítið óvissum tímum. Það eru tæknibreytingar og virkni og samsetning samfélagsins er að breytast. Það eru auknir fólksflutningar og miklir áfalla- og óvissutímar, tímar öfga í veðurfari og stríðstímar. Það hlýtur náttúrlega að birtast að einhverju leyti í könnunum eins og PISA og í öðrum mælingum í samfélaginu.

Ég vil nefna eitt sem mig grunar að gæti verið dálítið dulið en ég myndi halda að gæti verið að hafa afdrifarík áhrif í íslenskum skólum. Erfitt er að nefna skóla eða leikskóla sem síðustu misseri hafa ekki átt við rakaskemmdir og myglu í húsnæði. Þegar byggingar eru sýktar og fólk dvelur í sýktum rýmum getur það haft áhrif á hugræna getu til að meðtaka upplýsingar og læra. Fjöldi rannsókna hefur birst síðustu ár sem staðfestir þetta. Það var komin upp uppsöfnuð þörf fyrir viðhald svo víða í samfélaginu og sérstaklega í opinberum stofnunum og félagslegu húsnæði, í skólum og leikskólum. En fólk grunaði ekki hversu dýrt það gæti orðið heilsunni og samfélaginu að spara í viðhaldi húsbygginga eftir hrunið. Þá var náttúrlega svo mikil aðhaldskrafa, við þurftum að spara og auðvitað er peningur færður yfir til reksturs fyrst til að halda uppi daglegri starfsemi og þá sat viðhald mikið á hakanum. Nokkrum árum seinna fór þessi vandi að vera ljós en nú hefur sem betur fer verið brugðist við honum víða í skólum og leikskólum og við höfum séð hvern skólann á eftir öðrum standa í lagfæringum, viðgerðum, endurbyggingum og öðrum viðbrögðum til að bæta ástandið. En þegar hróflað er við sýktum byggingarhlutum getur framkvæmdin kannski stundum orðið þannig að fólk verði útsett fyrir meiri mengun á meðan verið að vinna í þessum hlutum af því að ekki er alltaf þekking til staðar á víxlmengun meðan á viðgerð stendur. Eitt þeirra einkenna sem komið hafa upp í rannsóknum er að sýkt byggingarrými af rakaskemmdum og myglu geta haft slæm taugafræðileg áhrif. Það geta verið áhrif eins og skert hugræn geta, slæm áhrif á athygli og slæm áhrif á vitræna hugsun. Slæm loftgæði spila mögulega hlutverk í þessum niðurstöðum og áhugavert væri ef hægt væri að kanna hvort það sé fylgni hérlendis á milli skóla sem voru að eiga við slæm loftgæði í byggingum, rakaskemmdir eða rask við viðgerðir og mikil áhrif á skólastarfið sjálft, og svo árangurs nemenda í PISA-könnuninni.

Annað atriði sem ég vil nefna, sem mér finnst kannski ekki fara hátt, er fæði og næringarástand. Fæða inniheldur nú ýmis kemísk efni sem ekki voru áður til staðar. Nú eru nýleg gerviefni komin í gosdrykki sem eru skráðir sykraðir en innihalda samt gervisætu og gerviefni. Þessi gerviefni koma fram í mjólkurvörum sem börnum eru gefnar án þess að heilsufarsáhrif þeirra séu mikið rannsökuð eða sérstaklega sé varað við þeim á umbúðum varanna, eða þær sérstaklega merktar sem t.d. sykurskertar. Nútímafæða inniheldur auk þess ýmis efni sem hún gerði ekki áður og við lifum á tímum þar sem við erum alltaf að framleiða fleiri og fleiri ný kemísk efni sem síðan menga umhverfið okkar að einhverju leyti. Ræktunarlendur eru víða ofnotaðar og orðnar snauðar af steinefnum, góðgerlum og ensímum sem áður voru til staðar í fæðu okkar í ríkara mæli og eru heilnæm og nauðsynleg líkamsstarfsemi. Skordýraeitur finnst í morgunkorni, utan á ávöxtum og grænmeti og nú er fólk að spara við sig svo að það kaupir síður lífrænt. Sykurneysla er meiri hjá hópum sem eru að spara við sig í matarinnkaupum og nú eru margir að spara við sig.

Varðandi PISA-könnunina og tungumálið þá þarf að greina stöðuna betur og koma fram með uppbyggilegar og snjallar lausnir og betrumbætur sem endast til langs tíma. En gott og vel, það er kannski ekki ástæða til að örvænta en það skiptir samt máli að grípa sem fyrst til aðgerða því að það tekur tíma að sjá árangur. Sama hvað öllum hugleiðingum líður þurfum við að stíga skref sem við vitum að virka til að bæta úr og sem við vitum að eru líkleg til að ná árangri. Eitt sem við vitum að virkar er að útbúa eitthvað áhugavert og skemmtilegt því að börn læra best ef þau eru að hafa gaman og leika sér. Það er svo mikilvægt að til séu bækur á íslensku sem höfða vel til barna um allt milli himins og jarðar. Það þarf að vera gaman að læra. Það þarf að veita ró, stuðla að góðri stund og bókin þarf að hafa innihald og vekja áhuga barnsins.

Praktískasta leiðin til að fá börn til að lesa meira er að bjóða upp á meira heillandi, aðlaðandi og spennandi lesefni. Ég myndi vilja sjá að við stigum nytsamleg skref strax í fjárlögum næsta árs varðandi þetta. Er þetta ekki upplagt tækifæri fyrir ríkisstjórnina til að skella í ein bráðaviðbrögð nú þegar? Ég vil leggja til að við bætum 100 milljónum við fjárframlög næsta árs í Auði, barna- og ungmennabókasjóð. Sjóðurinn veitir styrki til útgáfu barna- og ungmennabóka sem skrifaðar eru á íslensku. Tilgangurinn með sjóðnum er að auðga og efla útgáfu vandaðra bóka fyrir yngri lesendur. Sjóðurinn er vistaður hjá Miðstöð íslenskra bókmennta. Gott væri að koma þessari breytingu inn í fjárlög næsta árs því að verkin sem kæmu út úr því átaki myndu ekki birtast fyrr en árið 2025 og stórflóð af barna- og ungmennabókum er eitthvað sem við vitum að virkar. Þessi tillaga gengur út á að skapa efniviðinn; bækurnar sem eru svo skemmtilegar, að þær spýtist af krafti inn í öll skólabókasöfn, almenningsbókasöfn og verslanir. Svo eru barnabækur líka efni sem nýtist nýjum Íslendingum þegar þeir eru að læra íslenskuna. Við þurfum að skrifa og þýða góðar bækur fyrir alls konar börn með mismunandi áhugamál og ungmenni með fjölbreyttan bakgrunn. Við þurfum að fá barnabækur og ungmennabækur um allt milli himins og jarðar, sem lýsa heimum og geimum, sem segja frá mannkynssögunni, sem kortleggja mögulegar framtíðir, sem fara ofan í vísindi, sem prjóna upp ást og ævintýri. Við þurfum að orða heiminn á íslensku og tryggja börnum, öllum fullorðnum og hverjum sem er aðgengi að bókum sem þeim finnst skemmtilegar. Því vonast ég eftir góðum viðbrögðum við breytingartillögu minni við fjárlög næsta árs þar sem ég legg til að 100 milljónum til viðbótar verði veitt í Auði, barna- og ungmennabókasjóð.