154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[12:32]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Í vikunni komu út tvær mjög sláandi skýrslur. Önnur þeirra er utan úr heimi, frá UNICEF, og fjallar um fátækt barna. Hin er héðan frá Íslandi, gefin út af Vörðu rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins og fjallar um stöðu fatlaðs fólks á Íslandi. Tölum fyrst aðeins um UNICEF-skýrsluna. Hún ber titil sem gæti útlagst á íslensku: Barnafátækt innan um allsnægtir. Þar er rýnt sérstaklega hvort og að hvaða marki börn hafi notið góðs af efnahagslegum uppgangi á tímabilinu 2014–2021. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta, ef við snörum textanum yfir á íslensku, að sú almenna hagsæld sem þjóðir nutu á tímabilinu 2012–2019 hafi skapað gullið tækifæri til að taka á barnafátækt. Sum ríki gripu tækifærið en önnur létu tækifærið sér úr greipum ganga. Í Póllandi t.d. minnkaði barnafátækt um 38% og í Slóveníu, Lettlandi og Litháen minnkaði barnafátækt um meira en 30%. Á hinn bóginn jókst barnafátækt um meira en 10% í fimm ríkjum, sem eru Frakkland, Ísland, Noregur, Sviss og Bretland. Ísland er í öðru sæti, virðulegi forseti, á eftir Bretlandi yfir ríkin þar sem barnafátækt jókst mest á tímabilinu 2014–2021. Í skýrslunni kemur líka fram að hvergi á Norðurlöndunum er barnabótakerfið veikara miðað við umfang hagkerfisins og miðað við fjölda barna heldur en á Íslandi. Þetta vissum við auðvitað en þetta er dregið ákaflega skýrt fram í þessari samanburðarskýrslu. Hin skýrslan sem ég nefndi í upphafi og birtist í vikunni er frá Vörðu rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins og unnin í samstarfi við ÖBÍ réttindasamtök. Í þeirri skýrslu eru dregnar fram hörmulegar staðreyndir um kjör fólks með fötlun á Íslandi. Ríflega þriðjungur fatlaðs fólks býr við efnislegan skort og meiri hluti fatlaðra metur fjárhagsstöðu sína verri en fyrir ári síðan. Helmingur þarf að neita sér um félagslíf vegna kostnaðar. Sjö af hverjum tíu geta ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar. Tæplega fjögur af hverjum tíu þurfa að neita sér um nauðsynlegan klæðnað og næringarríkan mat. Fjögur af hverjum tíu geta ekki greitt kostnað vegna tómstunda eða gefið börnum sínum jóla- og afmælisgjafir.

Þetta er staðan, virðulegi forseti, og þetta eru eiginlega óbærilegar niðurstöður sem vekja upp mjög alvarlegar spurningar um það hvers konar samfélag við viljum vera.

Fjárhagsstaðan er verst hjá einstæðum foreldrum sem reiða sig á örorkulífeyriskerfið. Þar búa þrjú af hverjum tíu við verulegan skort á efnislegum gæðum. Fjórðungur einstæðra mæðra hefur þurft að reiða sig á mataraðstoð á síðastliðnu ári. Ég ætla bara að segja þetta aftur: Fjórðungur einstæðra mæða sem fær greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins hefur þurft að reiða sig á mataraðstoð á síðastliðnu ári — fjórðungur.

Ég heyrði í gær viðtal þar sem rætt var við Kristínu Hebu Gísladóttur, framkvæmdastjóra Vörðu, viðtal á Samstöðunni, nýjum fjölmiðli. Hún sagði að það hefði verið talsverður áhugi á þessari skýrslu almennt úti í samfélaginu nema kannski hjá stjórnvöldum, stjórnvöld hefðu ekki sýnt niðurstöðunum áhuga.

Hvað fleira kemur fram í þessari skýrslu? Jú, förum yfir það. Það kemur fram að tæplega helmingur einstæðra foreldra á örorku- og endurhæfingarlífeyri getur ekki veitt börnum sínum nauðsynlegan klæðnað eða eins næringarríkan mat og þau vildu. Tæplega helmingur getur ekki greitt kostnað vegna félagslífs barnanna sinna eða haldið afmæli eða veislur fyrir börnin sín, tæplega helmingur einstæðra foreldra á örorku- eða endurhæfingarlífeyri. Þetta er staðan. Tæplega helmingur þeirra býr við þunga byrði af húsnæðiskostnaði, ríflega fjögur af hverjum tíu hafa neitað sér um tannlæknaþjónustu, neitað sér um sálfræðiþjónustu og þá gjarnan af fjárhagsástæðum. Sjö af hverjum tíu búa við slæma andlega líðan, 15% hugsa reglulega um að kannski væri betra að vera dáinn heldur en lifandi. Þetta er mikið til einmana fólk, einangrað fólk sem býr við fátækt og líður illa. Stjórnvöld eru að bregðast þessu fólki og við hér á Alþingi erum að bregðast þessu fólki með því að búa ekki betur að velferðarkerfinu okkar sem er á ábyrgð stjórnarmeirihlutans á Alþingi hverju sinni sem fer með fjárstjórnarvaldið í landinu.

Þessar sláandi skýrslur frá UNICEF annars vegar og hins vegar frá Vörðu rannsóknastofnun vinnumarkaðarins ríma ágætlega við önnur gögn sem hafa komið fram. Í því samhengi vil ég nefna sérstaklega skýrslu um fátækt sem var unnin fyrir forsætisráðuneytið að beiðni Alþingis. Þar segir að hlutfall fólks undir lágtekjumörkum hafi aukist á Íslandi frá 2016, frá því um það leyti sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var að taka við stjórnartaumunum á Íslandi. Fátækt hefur dýpkað lítillega á sama tímabili og nú er ég ekki bara að tala um fólk með fötlun eða barnafólk heldur um allan almenning.

Ef við skoðum svo sérstaklega stöðu launafólks þá kemur fram í skýrslu sem Varða gaf út í maí að æ fleiri heimili eiga erfitt með að ná endum saman og 20% heimila launafólks geta ekki greitt fyrir tómstundaiðkun fyrir börnin sín.

Þetta er staðan, virðulegi forseti. Staðan er líka sú að það er 8% verðbólga í landinu. Vextir hafa ekki verið hærri á Íslandi, meginvextir Seðlabankans hafa ekki verið hærri síðan árið 2009, rétt eftir bankahrunið. Húsnæðiskostnaður þyngist og þyngist og kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur núna rýrnað fjóra ársfjórðunga í röð. Þetta er staðan. Og hvert er svar hæstv. ríkisstjórnar við þessari stöðu? Hvert er svar ríkisstjórnarinnar núna til skuldsettra heimila þegar meginvextir Seðlabankans hafa hækkað úr 6% í 9,25% á einu ári, ef við skoðum bara stöðuna síðan við vorum síðast að afgreiða fjárlög? Jú, þá er svarið að ríkisstjórnin ætlar að draga úr stuðningi við skuldsett heimili. Þá ætlar ríkisstjórnin að lækka þennan stuðning í gegnum vaxtabótakerfið okkar milli ára. Ríkisstjórnin ætlar að skerða 5.000 heimili út úr vaxtabótakerfinu. Þetta er það sem stendur til samkvæmt því fjárlagafrumvarpi sem hér hefur verið til umræðu.

Og hvert er svar ríkisstjórnarinnar þegar staða leigjenda versnar, þegar leigjendur standa eftir berskjaldaðir á stjórnlausum leigumarkaði, einhverjum þeim óregluvæddasta í hinum vestræna heimi? Hvert er svar ríkisstjórnarinnar þegar leiguverð fer hækkandi? Jú, þá á að láta fjárheimildir vegna húsnæðisbóta til leigjenda lækka milli ára. Það á líka að svíkja leigjendur enn eina ferðina um nauðsynlegar réttarbætur, t.d. leigubremsu sem við höfum talað fyrir að danskri fyrirmynd um aðgerðir og sem ríkisstjórnin hefur marglofað frá því að lífskjarasamningar voru gerðir árið 2019. Það á að svíkja leigjendur um allt þetta á sama tíma og leiguverð fer hækkandi.

Hvert er svar ríkisstjórnarinnar þegar UNICEF bendir á að hvergi nema í Bretlandi, þar sem almenningur hefur verið leikinn svo grátt af íhaldsstjórnum allt frá 2010, hefur barnafátækt aukist meira heldur en hér á Íslandi á tímabilinu 2014–2021? Jú, hér liggur fjárlagafrumvarp næsta árs fyrir framan okkur. Þar er gert ráð fyrir því að barnabætur þeirra heimila sem eru allra neðst í tekjustiganum, m.a. hjá einstæðum foreldrum sem standa allra verst, eins og ég kom inn á hér áðan, rýrni að raunvirði milli ára. Hagdeild Alþýðusambands Íslands bendir á að ef fram fer sem horfir þá verða barnabætur tekjulægsta fólksins á Íslandi lægri að raunvirði í janúar 2024 heldur en þær voru í janúar 2022.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur finnur nefnilega alltaf leið til þess að demba aðhaldinu í ríkisfjármálunum á lágtekju- og millitekjuheimili en hlífa þeim tekjuhærri. Í síðustu fjárlögum var þetta gert m.a. með því að hækka flöt krónutölugjöld, um 7,7%, hækkun sem kom harðast niður á þeim efnaminni og lak beint út í verðlag og verðtryggð lán heimila.

Í því fjárlagafrumvarpi sem hér er til umræðu, til viðbótar við mjög harkalegar aðhaldsaðgerðir á útgjaldahlið sem koma harðast niður á heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu, þar erum við að tala um launaaðhald upp á u.þ.b. 2 milljarða í hvorum málaflokki fyrir sig ef mér skjátlast ekki, er farin sú leið ásamt þessu aðhaldi að draga sérstaklega úr stuðningi við heimili sem glíma við íþyngjandi húsnæðiskostnað með því að rýra vaxtabætur, með því að láta tilfærslukerfin ekki þróast eins og eðlilegt er á erfiðum tímum. Hærri og hærri vextir, lægri og lægri vaxtabætur, fleiri og fleiri heimili í vanda, færri og færri sem fá stuðning.

Þetta er staðan og það er við þessar kringumstæður sem viðræður um langtímasamninga á vinnumarkaði eru að fara af stað. Verkalýðshreyfingin hefur sagt: Við erum tilbúin að slá af okkar ýtrustu kröfum. Við erum tilbúin að gæta hófs í okkar launakröfum ef þið styrkið velferðarkerfið okkar, ef þið bætið í barnabótakerfið, vaxtabótakerfið, ef þið eflið húsnæðisstuðning svo sómi sé að.

Ríkisstjórnin segir nei. Ríkisstjórnin slær á útrétta hönd verkalýðshreyfingarinnar, vill ekki að fólk sé að, svo ég vitni hérna í hæstv. innviðaráðherra, „lifa á bótum og bótahugsun frá ríkinu“. Eins og almennu stuðningskerfin okkar að norrænni fyrirmynd séu eitthvað neikvætt eða eitthvað til að skammast sín fyrir. Að lifa á bótum og bótahugsun. Hvílík ummæli.

En hvað segir verkalýðshreyfingin? Hvað þarf til að hægt sé að ná lendingu á vinnumarkaði? Þar eru húsnæðismálin náttúrlega stærst, er haft eftir Finnbirni Hermannssyni forseta ASÍ á ruv.is. „Við erum að tala um tilfærslukerfin, eins og barnabætur, vaxtabætur og húsnæðisbæturnar. Við erum náttúrulega að tala um fjármögnun á viðbótarútgjöldum sem við erum að leggja til“, segir hann. Tökum eftir þessu. Verkalýðshreyfingunni dettur það ekki í hug, ólíkt t.d. ríkisstjórninni, að það sé sjálfbært til lengri tíma að ráðast í aukin útgjöld, efla tilfærslukerfin án þess að afla tekna, án þess að styrkja tekjugrunn ríkissjóðs og stuðla þannig að auknu jafnvægi í þjóðarbúskapnum til lengri tíma. Aðeins þannig er okkur kleift að reka hérna sterkt velferðarkerfi.

Hvað segir verkalýðshreyfingin um stöðu fátæks fólks eins og hún birtist í skýrslu Vörðu t.d. um málefni fatlaðra? Jú, Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB sagði á vísi.is í fyrradag eftir að skýrslan var kynnt: „Þetta er saga velferðarkerfis sem hefur brugðist og það þarf aðgerðir til. Skilvirkasta leiðin er í gegnum barnabótakerfið og húsnæðisstuðning.“

Forseti. Það er alger og fullkominn samhljómur í málflutningi verkalýðshreyfingarinnar og málflutningi Samfylkingarinnar, jafnaðarflokks Íslands. Við sjáum þetta á kjarapakka okkar í Samfylkingunni þar sem við setjum fram það sem mætti kannski kalla lágmarkskröfur um fjárlög næsta árs, breytingar sem þarf að gera á þeim, aðgerðir sem eru algjörlega nauðsynlegar til að draga úr spennu á vinnumarkaði og skapa ögn ásættanlegri upphafsstöðu núna þegar langtímasamningar á vinnumarkaði eru í bígerð. Í stað þess að grafið sé undan velferðarþjónustunni, í stað þess að höggvið sé að mennta- og heilbrigðiskerfinu með flötum aðhaldsaðgerðum þá leggjum við til að fjármálageirinn og stórútgerðin greiði meira til samfélagsins, þó það nú væri. Girt verði fyrir tekjutilflutning og fjármagnstekjuskattur hækkaður lítillega á tekjuhæstu 10% í landinu. Í stað þess að 5.000 heimili séu skert út úr vaxtabótakerfinu eins og ríkisstjórnin ætlar að gera og stuðningur ríkisins við skuldsett heimili rýrður um 700 millj. kr. milli ára þá krefjumst við þess að komið sé til móts við skuldsett og tekjulág heimili með hærri vaxtabótum, að staða leigjenda verði styrkt með hærri húsnæðisbótum en jafnframt með leigubremsu að danskri og skoskri fyrirmynd og með því að koma böndum m.a. á stjórnlausan skammtímaleigumarkað. Og auðvitað þarf að hindra það að barnabætur lækki milli ára hjá tekjulægsta fólkinu á Íslandi.

Allt það sem ég er hér að ræða um snýst um að verja heimilisbókhaldið hjá fólkinu í landinu, vinna gegn verðbólgu og verja fólk fyrir verðbólgunni. Það er skylda stjórnvalda og það er skylda okkar sem förum með fjárstjórnarvaldið hér á Alþingi á tímum mikillar verðbólgu og hárra vaxta.

Virðulegi forseti. Ég ætla að nota það sem eftir er af ræðutíma mínum til að fjalla um tvo hópa á Íslandi og kjör þeirra, annars vegar fólk með ung börn og hins vegar afa og ömmu, eftirlaunafólkið. Barnabætur skipta máli fyrir heimili með börn á öllum aldri en fyrir foreldra allra yngstu barnanna þá getur hitt jafnvel skipt enn meira máli, fæðingarorlofskerfið annars vegar og umgjörðin um leikskóla hins vegar. Leikskólar eru grundvallarstofnun í samfélaginu. Ég held að það sé mjög almenn samstaða um það. Þess vegna er það mjög umhugsunarvert að í raun hafa sveitarfélög byggt upp leikskólakerfið án þess að það liggi fyrir löggjöf um að það sé lagaskylda á þeim að gera það og án þess að búa yfir lögbundnum tekjustofnum til að standa undir þessu risastóra samfélagslega verkefni.

Ég held, virðulegi forseti, að við verðum að horfast í augu við að það tekjulíkan sem ríkið hefur markað sveitarfélögum, sem löggjafinn, Alþingi, ríkið hefur markað sveitarfélögum og samspil þessa tekjulíkans við t.d. löggjöfina um leikskóla dugar ekki til þess að við getum náð samtímis þeim markmiðum sem við viljum að náist með sterkum leikskólum. Hvaða markmið eru þetta sem ég er að tala um? Jú, í fyrsta lagi er ég að tala um að leikskólar séu öflugar menntastofnanir og þar sé hátt hlutfall menntaðra leikskólastarfsmanna, leikskólakennara og á ásættanlegum launum þar sem starfsaðstæður eru eins og best verður á kosið. Í öðru lagi er það markmiðið um að leikskólar séu ákveðin þjónustustofnun fyrir vinnumarkaðinn, að börn komist tiltölulega ung á leikskóla, helst í kringum 12 mánaða aldur, og foreldrarnir þá til vinnu. Svo loks að leikskólapláss séu á viðráðanlegu verði fyrir barnafólk. Það blasir við að tekjulíkan sveitarfélaga sem er ákvarðað á Alþingi með lögum um tekjustofna sveitarfélaga dugar ekki til að leikskólakerfið geti náð öllum þessum markmiðum í senn.

Rekstur leikskóla hefur orðið æ kostnaðarsamari þar sem samfélagsþróun hefur leitt til þess að það er hærra hlutfall barna á leikskólaaldri sem nýtir þjónustuna, dvalartíminn er lengri á hvert barn, aldursviðmið lækka og svo hefur verið lagður stóraukinn metnaður í faglegt starf í fræðslu og uppeldi sem leiðir svo af sér kröfur um fjölgun starfsfólks, hærra hlutfall fagmenntaðra og þar með aukinn launakostnað. Ef við skoðum bara sveitarstjórnarstigið í heild þá hefur þróunin verið þannig að árlegur meðalvöxtur útgjalda til leikskóla á tímabilinu 2002–2020 var 4,7% á föstu verðlagi en til grunnskóla var þessi vöxtur 1,6%. Rekstrarkostnaður leikskóla jókst að meðaltali um 3,5% á ári en rekstrarkostnaður grunnskóla jókst um 1,7%. Þetta kemur fram í skýrslu frá tekjustofnanefnd sveitarfélaga.

Forseti. Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis. Það gengur ekki upp til lengdar að ætla bæði að halda leikskólagjöldum tiltölulega hóflegum og hækka þau minna en sem nemur hækkandi raunkostnaði við að veita þjónustuna og ætla svo um leið að reka sterka leikskóla með þeim kröfum sem ég hef farið yfir án þess að sveitarfélögin búi yfir lögbundnum tekjustofnum frá ríkinu til að gera það og þjóna þeim markmiðum sem ég nefndi áður. Þess vegna sjáum við núna mjög alvarlega þróun. Stór sveitarfélög eins og Kópavogsbær og Akureyrarbær eru að gera mjög róttækar breytingar á sínum leikskólakerfum, breytingar sem hafa verið gagnrýndar fyrir að bitna á lágtekjufólki sem vinnur langan vinnudag. Við horfum líka upp á mjög alvarlega stöðu í Reykjavík og í fleiri sveitarfélögum þar sem biðin eftir plássi er óviðunandi löng.

Það sem ég vil segja hér annars vegar um tekjulíkanið sem ríkið og löggjafinn markar sveitarfélögum og hins vegar þær kröfur sem bæði samfélagið gerir um sterka leikskóla og sem ríkið gerir til leikskóla með lögum og með reglugerðum — ég held að við hér á Alþingi þurfum að eiga alvarlegt samtal um þetta. Þetta er samtal sem ríki, sveitarfélög, samtök foreldra og samtök launafólks þurfa að koma að. Við þurfum að ná einhvers konar samfélagssátt um það hvað leikskóli er og hvernig eigi að borga fyrir hann.

Nátengt þessu öllu er auðvitað fæðingarorlofskerfið okkar, samspilið þarna á milli. Nú er uppi sú staða að kaupmáttur hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er 50% lægri heldur en hann var árið 2005. Hámarksfjárhæðin hefur ekki þróast í takt við launaþróun á vinnumarkaði. Það liggur líka fyrir að barneignir hafa enn þá miklu meiri áhrif á atvinnuþátttöku og tekjur kvenna en karla og það liggur fyrir að þær umbætur sem þó hefur verið ráðist í á fæðingarorlofskerfinu á undanförnum árum hafa helst skilað konum lengri fæðingarorlofstöku, ef við skoðum bara tölfræðina. Hér skulum við bara athuga að það er algjörlega óumdeilt að sú reynsla sem einstaklingar ávinna sér á fyrsta áratug starfsævinnar getur mótað möguleika til framgangs í launum síðar meir, það held ég að enginn efist um. Hér er bara staðan sú að vegna fremur veiks fæðingarorlofskerfis eru ungir karlar með mjög mikið og mjög ómálefnalegt forskot á ungar konur vegna meiri atvinnuþátttöku á barneignaaldri.

Ég mælti nýlega fyrir frumvarpi hér á Alþingi sem þjónar þeim tilgangi að skapa réttlátara og sterkara fæðingarorlofskerfi á Íslandi. Meðal þeirra sem hafa lýst yfir stuðningi við frumvarpið eru Alþýðusamband Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Félag íslenskra fæðingar- og kvensjúkdómalækna, Ljósmæðrafélag Íslands og samtökin Fyrstu fimm. Í frumvarpinu legg ég til nokkuð víðtækar breytingar á löggjöfinni en ég held að það séu kannski sérstaklega tvær grundvallartillögur, tvær breytingar sem ríkisstjórnin ætti að horfa til þegar kemur að því sem við vitum öll að mun koma að, að liðka fyrir farsælli lendingu á vinnumarkaði á nýju ári með einhvers konar inngripi. Í fyrsta lagi vil ég nefna þá aðgerð að þak á fæðingarorlofsgreiðslum hækki umtalsvert. Ég legg til í frumvarpinu að það hækki úr 600.000 kr. í 900.000 kr. á mánuði. Þetta þak hefur staðið í stað frá því að núgildandi lög tóku gildi árið 2020. Hagfræðingur nefndasviðs Alþingis hefur áætlað að aðgerðin myndi kosta u.þ.b. milljarð. Þetta er mjög mikilvægt jafnréttismál og auðvitað ætti þakið að vera jafnvel enn þá hærra í tekjutengdu fæðingarorlofskerfi. Bandalag háskólamanna bendir á það í umsögn um frumvarpið að það sé mjög sterk fylgni á milli hámarksins á fæðingarorlofsgreiðslum annars vegar og hins vegar þeirrar hlutdeildar fæðingarorlofs sem tekið er af feðrum. Nú var staðan þannig árið 2022 að hlutfall feðra sem hafa tekjur umfram hámarksgreiðslurnar var 36% en hlutfall kvenna 18% og ekki ólíklegt að þessi tala hafi hækkað talsvert á árinu 2023 og tekjufórn af fæðingarorlofstöku feðra hafi þannig aukist enn frekar milli ára. Hin aðgerðin, sem ég held að gæti skipt máli, tekur sérstaklega á stöðu ungbarnafjölskyldna með lágar tekjur. Þetta er sú breyting á reiknireglu fæðingarorlofsgreiðslna að fyrstu 350.000 kr. af viðmiðunartekjum verði óskertar og að 80% reglan, það er 20% skerðingin, taki þá einvörðungu til tekna umfram þá fjárhæð. Þetta er lykilaðgerð til að verja afkomuöryggi foreldra enda má launalægsta fólkið á Íslandi ekki við enn frekari tekjuskerðingu þegar það eignast barn.

Nú fer að síga á seinni hlutann í þessari ræðu. Ég hef fjallað hér um málefni fólks með fötlun og öryrkja, fjallað um fátækt og nýleg samanburðargögn sem hafa komið fram um fátæktarþróun, einkum barnafátækt. Svo hef ég fjallað sérstaklega um stöðu fjölskyldna með ung börn. En mig langar hér rétt að lokum að víkja að málefnum eftirlaunafólks og minna ríkisstjórnina á að í 62. gr. almannatryggingalaga stendur skýrum stöfum að greiðslur almannatrygginga skuli taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Hvernig hefur ríkisstjórnin umgengist þessi lög á tímabilinu 2017–2023? Jú, örorkulífeyrir hefur dregist mjög rækilega aftur úr launaþróun. Ellilífeyrir hækkaði minna en launavísitala árin 2018, 2019, 2020 og meira að segja minna en verðlag árið 2021 og 2022. Þannig hefur ekki einu sinni lágmarkskrafa 62. gr. almannatryggingalaga um að greiðslur hækki aldrei minna en verðlag verið uppfyllt.

Þegar ég spurði hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra um þessa þróun þá sagðist hann einfaldlega horfa til þess að passa að þetta fylgi verðlagi, að ekki verði um verðrýrnun ræða en hann skautaði algjörlega fram hjá því að lögin gera líka kröfu um að greiðslur almannatrygginga taki mið af launaþróun. Fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra talaði með sama hætti á Alþingi í fyrra þegar hann furðaði sig bara á því að það væri rætt um greiðslur almannatrygginga í samhengi við launaþróun, launahækkanir á vinnumarkaði, en ekki bara í samhengi við verðlagsþróun. Það er alveg kostulegt þegar horft er til þess hvað stendur í lögum um almannatryggingar. Það virðist með öðrum orðum vera bara mjög einbeittur ásetningur ríkisstjórnarinnar að hunsa þessi fyrirmæli sem koma fram í 62. gr. Til að bíta höfuðið af skömminni hefur almennu frítekjumarki eftirlaunafólks sem tekur bæði til fjármagnstekna og lífeyrissjóðstekna verið ríghaldið í 25.000 kr. á mánuði. Allar tekjur umfram þessar 25.000 kr., allar lífeyrissjóðstekjur t.d., koma til skerðingar á greiðslum Tryggingastofnunar. Með því að ríghalda þessu frítekjumarki þarna þá eykst í rauninni skerðingin í kerfinu frá ári til árs. Þetta er ekki einhver kyrrstaða heldur verður skerðingin meiri og meiri. Svona viljum við auðvitað ekki hafa almannatryggingakerfið okkar. Svona geta ráðherrar ekki umgengist það.

Að lokum vil ég hnykkja á því sem kemur fram í kjarapakkanum okkar í Samfylkingunni sem hv. þingmaður og formaður flokksins, Kristrún Frostadóttir, fór yfir í vikunni. Þar er að finna brýnustu breytingarnar sem þarf að gera á þessu fjárlagafrumvarpi og þar erum við að tala um almenna styrkingu á tilfærslukerfunum okkar, sérstaklega húsnæðisstuðningi. Þessi styrking mun m.a. skila sér mjög rækilega til launafólks, bæði á lágum tekjum og millitekjum, sem er með þunga greiðslubyrði. Hún mun líka skila sér til launafólks á leigumarkaði, skila sér til öryrkja og eftirlaunafólks á leigumarkaði og sem á húsnæði en er með þunga greiðslubyrði. Við gættum þess sérstaklega þegar við tókum saman þennan kjarapakka að búa þannig um hnútana að á móti hverri krónu sem við leggjum til í aukin útgjöld leggjum við til 2 kr. í auknar tekjur svo í heildina eru breytingarnar til þess fallnar að bæta afkomu ríkissjóðs milli ára, vinna gegn þenslu, vinna gegn verðbólgu frekar en að ýta undir hana. Þannig mildum við höggið og verjum heimilisbókhaldið hjá fólkinu í landinu.