154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:33]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í dag er 8% verðbólga og yfir 9% vextir og við erum að fara inn í þessi áramót með gífurlega erfiða kjarasamninga fram undan. Mig langar að vekja athygli þingheims á því, þeirra sem hafa ekki velt því upp, hvaðan umdeildur og umræddur útgjaldavöxtur kemur. Tveir þriðju af útgjaldaaukningu á milli ára er verðbólga og launakostnaður. Hér ræðum við um alls konar aðhald en því er ekki gefinn gaumur hvað gæti mögulega dregið úr launaþrýstingi á komandi ári: Með því að tryggja húsnæðisöryggi og kjarabætur fyrir fólk sem raunverulega stendur ekki á bak við 8% verðbólgu í landinu. Ég vek athygli á því að meiri hlutinn ætlar að samþykkja hér tillögu um að henda 5.000 heimilum út úr vaxtabótakerfinu. Þetta er tekjuminnsta og eignaminnsta fólkið í landinu sem svo sannarlega ber ekki ábyrgð á ástandinu og mun sækja sín kjör ef þörf krefur.