154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:48]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Varðandi fjárlögin og stýrivexti þá ákvað Seðlabanki Íslands við síðustu stýrivaxtaákvörðun að hækka ekki stýrivexti. Vegna hvers? Jú, vegna óvissunnar á Reykjanesi. Það hafði ekkert með fjárlögin að gera, ekki neitt. Þessi ríkisstjórn er ekki að gera neitt hvað varðar verðbólguna. Stýrivextir munu ekki gera neitt varðandi fólksfjölgun í þessu landi, sem var 1.000 á mánuði. Fjölgunin í þessu landi er 3% en í Evrópu er hún 1% eða fólki fer fækkandi. Við erum ekki að taka á gríðarlegri eftirspurn sem er aukast ár frá ári. Stýrivextir Seðlabankans gætu farið upp í 12% þess vegna og verðbólgan væri enn þá sú sama. Við erum ekki að taka á grunnorsökum þessarar verðbólgu og það eiga ríkisfjármálin að gera, svo það liggi alveg hreint fyrir. Og hverjir bera kostnaðinn af þessu? Jú, það eru heimilin í landinu, það er fátækt fólk og millitekjufólk sem er að borga af húsnæðislánum sínum sem hækka eins og enginn sé morgundagurinn. Og hverjir hagnast á því? Jú, það eru bankarnir, bankakerfið er að græða sennilega hátt í 100 milljarða kr. í ár.